Margir íslendingar sem komnir eru til ára sinna muna eftir að hafa staðið vaktina í síldinni. Margir til sjós og enn fleiri í landi því að í þá daga þurfti all margar hendur til þess að koma síldinni úr heimkynnum sínum í sjónum í trétunnurnar í landi. En nú er öldin önnur, skipin orðin stór og taka meiri afla í hverjum túr og í landi er vinnslan orðin afar tæknivædd.  Vinnslan hefur vissulega breyst, það er hægt að afkasta miklu meira á styttri tíma með tilkoma véla og tækja. En sumt breytist hægt og er það til heilla á sumum sviðum. Eitt af því er kunnátta og verkvit sem færist mann fram af manni og er þá gjarnan kunnátta sem fáar manneskjur búa yfir. Steinar Grétarsson er einn helsti síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar og lærði hann þau fræði af föður sínum. Steinar er verkstjóri síldarverkunar hjá LVF og hefur þessa dagana  í nógu að snúast því að síldarvertíðin stendur sem hæst.  Aðspurður að því hvernig vinnslan hefði gengið sagði hann að hún hefði gengið vel, búið væri að koma síld í rúmlega tíu þúsund tunnur.  “Það fer allt í flök og bita hjá okkur, mest í edikbita” sagði Steinar.

Þegar Hoffell Su 80 kemur til hafnar með síld er unnið allan sólarhringinn í landi. Starfsfólk gengur vaktir og vinnur aflann á meðan hann er ferskur svo að neytandinn fá ávalt allra bestu vöru. 

Steinar sagði að síldin væri falleg og heilbrigð og að sér fyndist skemmtilegt að  standa í þessari törn, “þetta er tilbreyting” sagði hann og bætti við; “og mjög skemmtilegt þegar vel gengur”.

Þegar greinahöfundur náði sambandi við Steinar var hjá honum ofurlítil stund milli stríða.  Búið að vinna þau níu hundruð tonn sem Hoffell kom með úr síðasta túr en á meðan við spjölluðum var verið að landa úr skipinu rúmlega ellefu hundruð tonnum af síld sem Steinar og hans fólk í síldarverkuninni taka á móti og framleiða úr henni dýrindis hráefni.

BÓA

Steinar Grétarsson
Mynd úr vinnslusal. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Brakandi ferskir síldarbitar. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson