Enn bætist í litla furðufiskasafnið okkar en um helgina komu búri og töskukrabbi upp með trollinu á Ljósafellinu við Skeiðarárdýpi. Búrinn var um 56 cm langur og líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum er hann fallega appelsínurauður að lit, hann þykir afar vinsæll matfiskur á Nýja Sjálandi og víðar úti í hinum stóra heimi.

Búri (Hoplostethus atlanticus)
Búrfiskur er miðsævis,- botn- og djúpfiskur sem lifir aðallega á allskyns fiskum og krabbadýrum. Það er talið að búrfiskur verði mjög gamall, jafnvel vel yfir 100 ára Hann verður allt að 75 cm langur. Búrfiskur veiðist í flestum heimsins höfum á allt að 600 m dýpi og heldur sig gjarnan við toppa og hlíðar neðansjávartinda. Heimkynni búrfisks við Ísland eru frá vestanverðum Íslandsmiðum suður fyrir Reykjanes og allt til Rósagarðs undan Suðausturlandi. Sjávarlífverur | Hafrannsóknastofnun (hafogvatn.is)

Í Sjávardýraorðabókinni sem Gunnar Jónsson fiskifræðingur tók saman eru heitin búri og búrfiskur notuð um sama fiskinn en ekki um búrhval. En það er gaman að segja frá því að Í Íslenskri orðabók,frá árinu 2002, segir að búri þýði ruddi, dóni, nískur eða nirfill.

Töskukrabbi (Cancer pagurus) er krabbi af ætt steinkrabba. Hann lifir í Norðursjó, Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Hann eru rauðbrúnn á lit með hringlaga skjöld og klærnar eru með svarta enda. Krabbinn getur orðið 25 sm í þvermál og vegið allt að 3 kíló

Töskukrabbi og grjótakrabbi eru tiltölulega nýjar tegundir sem hafa verið að nema land við Ísland en áður hafa þær aðallega haldið sig í hlýjum sjó.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson