Líkt og áður nýtur samfélagið góðs af góðu gengi Loðnuvinnslunnar.  Á aðalfundi LVF sem haldinn var í Whatnessjóhúsi þann 20.maí voru afhentir styrkir að upphæð 29 milljóna króna.

Ungmennafélagið Leiknir hlaut 15 milljón króna styrk til íþrótta- og æskulýðsstarfa. Vilberg Marinó Jónasson er formaður Leiknis og vildi hann koma kæru þakklæti til skila til stjórnar Loðnuvinnslunnar fyrir þennan rausnarlega styrk.  “Þetta er frábær styrkur og gefur okkur möguleika á að efla allra handa íþróttastarfsemi innan félagsins” sagði Vilberg.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 7 milljón krónur til sinnar starfsemi. Kristín Hanna Hauksdóttir er gjaldkeri Starfsmannafélagsins og sagði hún að þeir myndarlegu styrkir sem Starfsmannafélagið hefur hlotið frá LVF undan farin ár hafi hleypt nýju lífi í félagið. “Við getum farið í ferðalag á hverju ári núna og getum borgað meira niður þannig að félagsmenn þurfi að borga minna, það er frábært” sagði Kristín Hanna.

Þá hlaut björgunarsveitin Geisli 5 milljón króna styrk til kaupa á nýjum björgunarbát. Er nýi báturinn enn í smíðum í Noregi en verður afhentur Geisla í byrjun júlí. Það er sannarlega mikilvægt að sjófarendur búi við allt það öryggi sem hægt er að tryggja og er svona fullkominn björgunarbátur, eins og Geisli er að láta byggja fyrir sig, stór þáttur í að tryggja að svo sé og verði. „Svona styrkur hefur mjög mikil áhrif, ekki bara á fjármálahliðina heldur tökum við þessu líka sem klappi á bakið, við þá ástríðu að hafa til umráða sem öflugasta búnað til hjálpar fyrir samborgara okkar ef slys yrði“ sagði Grétar Helgi formaður björgunarsveitarinnar Geisla.

Félag um Franska daga á Fáskrúðsfirði hlaut 1 ½ milljón króna í styrk frá LVF og annað eins frá Kaupfélaginu. Birkir Snær Guðjónsson er formaður Franskra daga  og svaraði hann aðspurður um gildi þess að fá umrædda styrki: “ Við sem erum í því að skipuleggja Franska daga erum gríðarlega þakklát fyrir styrkina sem við fáum frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni. Að hafa þessi fyrirtæki, sem eru tilbúin að leggja jafn mikið út í samfélagið og raun ber vitni, eru mikil forréttindi”.

Félag áhugafólks um fornleifar á Stöðvarfirði hlaut 500 þúsund króna styrk til áframhaldandi starfs.  Að grafa upp fornminjar er mikil vinna og fremur hæggeng því að vanda þarf til verka og yfirumsjón þarf að vera í höndum fagaðila. Björgvin Valur Guðmundsson er formaður félagsins  „Þetta rausnarlega framlag Loðnuvinnslunnar mun nýtast vel, t.d. dugar það fyrir einum starfsmanni eða öllum kostnaði við greiningu sýna. Við þökkum kærlega fyrir okkur“ sagði Björgvin Valur.

Handhöfum styrkja sendum við hamingju- og velfarnaðar óskir.

Bóa

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Kristín Hanna Haukdóttir gjaldkerti starfsmannafélags LVF, Vilberg Marión Jónasson formaður Leiknis, Grétar Helgi Geirsson formaður björgunarsveitarinnar Geisla, Sveinn Jónsson frá Félagi áhugafólks um fornminjar á Stöðvarfirði, María Ósk Óskarsdóttir Félag um Franska daga, Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar.
Smíði á nýrri Hafdísi gengur vel. Svona leit hún út þann 12.maí s.l.