Á íslensku eru til mörg orð yfir snjó og snjókomu. Mikilvægt var hér á árum áður að geta lýst færðinni vel og skilmerkilega þegar fólk fór gangandi eða ríðandi á milli bæja eða landshluta. Þá skipti máli hvort það var lausamjöll eða hjarn, kafsnjór eða bleytuslag.  Daginn sem greinarhöfundur hitti að máli Dagnýju Hrund Örnólfsdóttur var nýsnævi yfir öllu og kaldagustur en í eldhúsinu hjá Dagnýju var hlýtt og notalegt.

Dagný er fædd í Reykjvík árið 1975. Þar bjó hún ásamt foreldrum sínum og systkinum fyrstu árin sín í þessari veröld. Þá flutti hún til Patreksfjarðar, þaðan á Bolungarvík og svo flutti fjölskyldan til Fáskrúðsfjarðar árið 1987.  Faðir Dagnýjar var sjómaður og stjórnaði það búsetu fjölskyldunnar, þau bjuggu þar sem sjómannspláss var að fá.  Dagný Hrund var tólf ára gömul þegar hún flutti hingað á Fáskrúðsfjörð og sagði hún að það hefði verið erfitt. „Ég var alveg viss um að hér væru bara ljótir strákar og vildi alls ekki flytja“ segir þessi ljúfa kona brosandi, „en krakkarnir hér tóku mér opnum örmum svo það var auðvitað ekkert mál“ bætir hún við.  Og þessi hræðsla hennar við ljótleika drengjanna var úr lausu lofti gripin enda sá hún það fljótt að hér voru fallegir og myndarlegir drengir rétt eins og fyrir vestan og því til staðfestingar hlýtur að vera sú staðreynd að hún hitti innfæddan pilt  fimmtán ára gömul og í dag eru þau hjón. Sá heppni heitir Hjálmar Sigurjónsson og eiga þau tvö börn, hið eldra orðið fullorðið og hið yngra á góðri leið með að verða það líka.

Dagný og Hjálmar fóru fljótlega að búa, keyptu sér litla íbúð og þegar von var á stækkun í fjölskyldunni keyptu þau sér hús sem stendur efst í bænum og út um eldhúsgluggann má sjá gróðurlundinn sem Hjálmar Guðjónsson frá Þórshamri ræktaði upp á sínum tíma og var hann einmitt afi og nafni Hjálmars.  Lífið tekur oft svo skemmtilega leið.

Árið 1989 hóf Dagný fyrst störf hjá Loðnuvinnslunni. Þá sem sumarstarfsmaður og svo með hléum fram til ársins 2003 þegar hún réð sig í fast starf og hefur verið það síðan.  „Í fyrstu var ég í vinnslusalnum en bauðst svo ritara starf árið 2007 og hef verið í því síðan“ segir Dagný.  Að vera ritari í frystihúsinu er ansi margþætt starf. Hún heldur utan um tímaskráningu starfsmanna, reiknar bónsus og hvíldartíma. Þá þarf að skrá inn nýja starfsmenn þegar þeir koma. Hún sér um allar rekstarvörur séu til á lager eins og hanskar, svuntur og annar fatnaður sem þarf, hreinlætisvörur og kaffi. Aðspurð að því hvort að þessi vinna væri skemmtileg svaraði hún því til að auðvitað væri hún misskemmtileg eins og önnur vinna en að jafnaði væri gaman. „Þetta er nokkuð fjölbreytt starf ég sit ekki bara fyrir framan tölvuna og það er skemmtilegt“.  Þetta er líka ábyrgðarstarf. Að reikna út bónus og annað sem telur í launaumslaginu getur verið viðkvæmt.  „Ég fæ stundum skammir ef ég geri mistök og þá verð ég leið, ég reyni alltaf að gera allt 100%, en ég er mannleg og get gert mistök eins og aðrir“ segir Dagný alvörugefin.  Svo þegar það er mikið um að vera í fyrirtækinu eins og þegar vertíðir standa yfir þá þarf Dagný stundum að rjúka til og redda pappírum og öðru slíku. „Það er í góðu lagi“ segir hún, „ekki er ég bundin yfir smábörnum“.

En líf Dagnýjar er ekki allt dans á rósum frekar en hjá flestu öðru mannfólki. Dagný er með afar slæma vefjagigt. Hún hefur þrautir í líkamanum á hverjum degi auk þess sem hún þjáist af ógleði og svefn óreglu auk annarra fylgifiski þessa hvimleiða sjúkdóms.  En Dagný Hrund lætur engan bilbug á sér finnast.  „Ég er í sjúkraþjálfun, ég fer í ræktina og á göngur og reyni að hafa streitulaust í kring um mig“ segir Dagný þegar hún er innt eftir því hvernig hún vinni að bættri heilsu.   „Svo á ég lítil systrabörn sem ég reyni að heimsækja á hverjum degi, það bætir geðheilsuna“ og greinarhöfundur getur fúslega tekið undir þá fullyrðingu því fátt nærir sálina betur en nærvera við börn sem með einlægni sinni og hispursleysi lýsa upp daginn.

Þegar Dagný er spurð um áhugamál er hún fljót að svara:“fjölskyldan og heimilið“. Og heimilið ber þess merki að húsfreyjan er liðtæk með tusku og þvegla. Allt var svo hreint og storkið og fallegt. Greinilegt að umhyggja og alúð gerðu þetta hús að heimili. „Og svo finnst mér gaman að ferðast, sér í lagi til útlanda“ segir hún.  Og hún segir frá því að þau hjónin séu ekki mikið að ferðast innanlands. „Við áttum einu sinni ferðavagn og Hjálmar gat ekki slappað af því hann var alltaf að spá í veðrið og leita að sólinni“ segir hún hlæjandi, „það var aldrei hægt að stoppa því það var alltaf meiri sól annars staðar“ bætti hún við.  En því ber nú að halda til haga að Hjálmar er útivistamaður og nýtur þess að ganga um fjöll og firnindi og þá gjarnan með sól í hjarta.

Dagný segir líka að þau hjónin hafi gaman af að spila í góðra vina hópi og svo að fylgjast með börnunum sínum í fótbolta. „Ég reyni að mæta á alla leiki hjá þeim og Hjálmar líka þegar hann er í landi“ segi Dagný.

Dagný Hrund á sínar þráhyggjur eins og við hin.  Hún þolir ekki skítuga glugga. Og þegar hún segir þetta lítur greinarhöfundur ósjálfrátt á stóra glugga hússins, þeir eru margir og þeir eru stórir. Og tandurhreinir.  Hún segir því til staðfestingar að Hjálmar hafi verið að vaska upp og hún sá að það slettist svolítið vatn á rúðuna og hann ætlað að fara að þurrka það þegar hún sagði að það hefði hreinlega brotist fram af vörum sér: „stopp! Ég skal gera þetta“, því hún var þess fullviss að hann myndi ekki gera það rétt. Og hún skellihlær við minninguna og greinarhöfundur líka.

Tal okkar barst að göngustígnum sem liggur fyrir ofan hús þeirra hjóna. Þessi fíni göngustígur sem bæjarbúar eru duglegir að nota sér til hreyfingar og útiveru.  Fyrir marga sem búa í efstu húsum bæjarins var þetta alveg ný upplifun að sjá fólk á göngu fyrir ofan hús sín og einhverjir brugðust við og settu upp gluggatjöld til þess að eiga þann kost að draga fyrir. En ekki Dagný og Hjálmar, í eldhúsinu eru hefðbundnar eldhúsgardínur rétt eins og áður.  Dagný sagði að Hjálmar hefði einu sinni verið spurður að því hvort að þau hyggðust ekki gera ráðstafanir svo að fólk á göngstígnum gæti ekki séð innum gluggana hjá þeim en hann hefði svarað að bragði: „nei, nei, ég læt bara Dagnýju í brjóstarhaldara áður en hún fer inní eldhús“.  Svo mörg voru þau orð.

Skammdegisélið hafði ekki látið deigan síga, þvert á móti. Greinarhöfundur mátti setja undir sig höfuðið á leið í bílinn, tautaði ofurlítið við sjálfa sig um að ólíkt huggulegra hefði verið að sitja við elhúsboðið hjá Dagnýju með gott kaffi og hálfmána kökur heldur en að fá ískalda drífuna í andlitið. En það verður ekki á allt kosið.

BÓA