Við erum lengi búin að bíða eftir norsk-íslensku síldinni, en nú hefur hún loksins látið sjá sig á Austfjarðamiðum að hausti til eftir 37 ár. Hoffell landaði 50 tunnum af stórri og feitri síld í s.l. viku. Og það fór eins og menn grunaði, að síldin sem var 19% feit, reyndist vera af áður nefndum stofni og er það staðfest af okkar fremstu vísindamönnum hjá Hafró.

Ef síldin fer að ganga í meira mæli hingað til Íslands mun það styrkja samningsstöðu okkar gífurlega gagnvart Norðmönnum. Vonandi fæst eitthvað meira af þessari síld því töluverður kvóti er enn óveiddur sem kom í hlut okkar Íslendinga. Við væntum þess líka að Hafró sendi einhverja í frekari leit að silfri hafsins. Það væri í raun vítaverður sofandaháttur ef stjórnvöld gerðu ekkert í því að skoða þetta betur, því hagsmunirnir eru miklir ef síldin fer inn á sitt gamla göngumynstur.