Hoffell kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun eftir um tveggja vikna leit að kolmunna. Skipið fór fyrst með eftirlitsmann Hafrannsóknastofnunar og leitaði þá með öllum landgrunnskantinum út af Suðurlandi og vestur fyrir Vestmannaeyjar. Þá hélt skipið í færeysku lögsöguna norður fyrir Færeyjar og til suðurs austur af Færeyjum. Fleiri íslensk skip hafa leitað undanfarið á þessum slóðum og einnig hafa þau leitað suður og suðvestur af Færeyjum, en ekki orðið vör við kolmunna í veiðanlegu magni. Á heimleiðinni var farið yfir veiðisvæðið suðaustur af Austfjörðum og var ástandið þar óbreytt. Hoffell verður nú gert klárt til síldveiða.