Síldarvertíðinni er lokið á þessari haustvertíð. Búið er að taka á móti 10.750 tonnum og salta í 23.000 tunnur og frysta 500 tonn af flökum annað hefur farið í bræðslu. Hoffell var að landa 115 tonnum og er að útbúa sig á loðnu. Það er eins með síldina núna og áður að erfitt er að treysta henni. Í haust hefur stór síld nánast ekki látið sjá sig en aftur á móti hefur verið mikið af 4ra ára síld sem er 28 til 30 cm löng. Af þessu leiðir að erfitt hefur verið að fylla upp í samninga þar sem hefur þurft að nota stóra síld. Við sem við þetta vinnum spáum auðvitað í það hvar demant síldin sé, sumir segja að hún sé dreifð með öllum landgrunnskantinum og sé bara ekki í veiðanlegu ástandi.

Ef maður lætur hugann reika aftur í tíma í kringum 1968-1969 þá hvarf Suðurlandssíldin svokallaða og var algjört veiðibann í nokkur ár eftir það. Á sama tíma bar það svo við að góð síldveiði hófst í Norðursjónum og þar stunduðu íslensk skip síldveiðar til ársins 1974 eða 1975. Nú er sama ástand í Norðursjónum allt fullt af síld, er eitthvað samband þarna á milli ? Svo spyr maður sig að þegar síldin við Vestamannaeyjar var búin að hrygna í hitteðfyrra og fór þaðan, að á sama tíma tekur einn þekktur hvalur stefnuna til Noregs, hvað var Keikó heitinn að elta þegar hann tók strauið til Noregs ? E.Ó.