Hoffell

Hoffell er nú að landa um 460 tonnum af Íslenskri síld til söltunar. Brottför verður að löndun lokinni.

Yfirlýsing stjórnar LVF vegna áforma um laxeldi

Fáskrúðsfirði, 5. desember 2017

Yfirlýsing frá stjórn Loðnuvinnslunnar hf. á Fáskrúðsfirði

Stjórn Loðnuvinnslunnar hf. á Fáskrúðsfirði mótmælir harðlega áformum um stórfellt laxeldi í Fáskrúðsfirði sem nú er í umsagnarferli án þess að fram hafi farið heildarmat á áhrifum þess á lífríki og burðarþol fjarðarins. Samkvæmt fyrirliggjandi frummatsáætlun eru áform um 15.000 tonna laxeldi í Fáskrúðsfirði sem fylgja munu margvísleg umhverfisáhrif.
Fyrirtækið Fiskeldi Austfjarða hf. hefur nú þegar leyfi fyrir 3.000 tonna framleiðslu á reglbogasilungi/laxi sem ekki er enn farið að nýta og til viðbótar eru í ferli áætlanir fyrirtækisins um 7.854 tonna framleiðsluaukningu í Fáskrúðsfirði. Þá áforma Laxar fiskeldi ehf. 4.000 tonna laxeldi í firðinum en gangi þessi áform eftir stefnir í um 15.000 tonna eldisframleiðslu í Fáskrúðsfirði, sem er sambærilegt og öll eldisframleiðsla í landinu í dag.
Almennt er miðað við að við framleiðslu á einu tonni af laxi verði til úrgangur sem samsvarar klóakrennsli frá átta manns (heimild Landssamtök fiskeldisstöðva) og því jafngildir mengun frá 15.000 tonna laxeldi í Fáskrúðsfirði því að skólpi frá 120 þúsund manna byggð verði veitt óhreinsuðu í fjörðinn.
Loðnuvinnslan hf. er stærsti atvinnurekandinn á Fáskrúðsfirði en þar starfa að jafnaði 150 manns. Hrognavinnsla er mjög mikilvæg í rekstrinum og er á þessu ári yfir 20% af framleiðsluverðmæti fyrirtækisins. Undirstaða þessarar vinnslu er mikið magn af hreinum og ómenguðum sjó sem dælt er úr firðinum. Stjórn Loðnuvinnslunnar gerir alvarlega athugasemd við að ekki var leitað umsagnar félagsins um þessi áform og að hvergi í frummatsskýrslunni er minnst á þann möguleika að mengandi efni frá fyrirhuguðu fiskeldi muni hafa áhrif á gæði sjávarins og þar með hrognavinnslu í Fáskrúðsfirði.
Samkvæmt frummatsskýrslu laxeldisfyrirtækjanna er staðsetning og stærð fyrirhugaðra sjókvía mjög á reiki og er umfangið sýnt allt frá því að vera lítið og til þess að loka nánast firðinum. Þar sem gert er ráð fyrir mestri starfsemi er fjörðurinn um 1300 metrar á breidd og siglingaleiðin innan við 400 metrar. Það er því ljóst að fyrirhugað laxeldi mun þrengja verulega að siglingaleiðum en gott aðgengi skipa er fyrirtækinu lífsnauðsynlegt.
Stjórn Loðnuvinnslunnar furðar sig á að þessi áform hafi verið í undirbúningi í nær 4 ár án þess að umsagna fyrirtækisins hafi verið leitað. Þá er það óskiljanlegt að sveitarfélagið Fjarðabyggð skuli ekki hafa neina lögsögu í máli sem varðar starfsemi sem hefur verið ein af lífæðum Fáskrúðsfjarðar um árabil, heldur er það fjöregg algjörlega á valdi Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar.
F.h. stjórnar Loðnuvinnslunnar hf.

Lars Gunnarsson formaður.
S.: 893 2612
Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri.
S: 892 8622

Borgarinn

Færeyska skipið Borgarinn er nú að landa um 2500 tonnum af kolmunna í verksmiðju Loðnuvinnslunnar hf

Sandfell

Sandfell landaði á Stöðvarfirði í gær og var aflinn um 17 tonn. Það hefur gengið vel að veiða undanfarna daga, en nokkur ótíð einkenndi síðasta mánuð. Nóvember mánuður endaði þó með 177 tonna heildar afla sem gerði það að verkum að báturinn var næst aflahæstur í sínum flokki yfir landið, tvemur tonnum á eftir þeim hæsta.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa. Aflinn er um 60 tonn af þorski. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 5. desember kl 16:00.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 86 tonnum. Uppistaða aflans er ufsi og karfi. Skipið fer aftur á veiðar að löndun lokinni í dag.

Sandfell

Eftir langvinna brælu sem tafði Sandfell frá veiðum í fjóra daga ( 22 – 25 nóv ) hefur gefið vel að undanförnu. Sandfell hefur nú landað fimm daga í röð og er aflinn í þeim róðrum samtals um 58 tonn. Þannig er aflinn í dag um 13 tonn.

Hoffell

Hoffell er nú að klára að landa um 540 tonnum af Íslenskri síld til söltunar. Skipið fer aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa. Aflinn er um 80 tonn og uppistaðan þorskur. Brottför í næsta túr er á morgunn, þriðjudaginn 28. nóvember kl 13:00

Þolir ekki skítuga glugga

Á íslensku eru til mörg orð yfir snjó og snjókomu. Mikilvægt var hér á árum áður að geta lýst færðinni vel og skilmerkilega þegar fólk fór gangandi eða ríðandi á milli bæja eða landshluta. Þá skipti máli hvort það var lausamjöll eða hjarn, kafsnjór eða bleytuslag.  Daginn sem greinarhöfundur hitti að máli Dagnýju Hrund Örnólfsdóttur var nýsnævi yfir öllu og kaldagustur en í eldhúsinu hjá Dagnýju var hlýtt og notalegt.

Dagný er fædd í Reykjvík árið 1975. Þar bjó hún ásamt foreldrum sínum og systkinum fyrstu árin sín í þessari veröld. Þá flutti hún til Patreksfjarðar, þaðan á Bolungarvík og svo flutti fjölskyldan til Fáskrúðsfjarðar árið 1987.  Faðir Dagnýjar var sjómaður og stjórnaði það búsetu fjölskyldunnar, þau bjuggu þar sem sjómannspláss var að fá.  Dagný Hrund var tólf ára gömul þegar hún flutti hingað á Fáskrúðsfjörð og sagði hún að það hefði verið erfitt. „Ég var alveg viss um að hér væru bara ljótir strákar og vildi alls ekki flytja“ segir þessi ljúfa kona brosandi, „en krakkarnir hér tóku mér opnum örmum svo það var auðvitað ekkert mál“ bætir hún við.  Og þessi hræðsla hennar við ljótleika drengjanna var úr lausu lofti gripin enda sá hún það fljótt að hér voru fallegir og myndarlegir drengir rétt eins og fyrir vestan og því til staðfestingar hlýtur að vera sú staðreynd að hún hitti innfæddan pilt  fimmtán ára gömul og í dag eru þau hjón. Sá heppni heitir Hjálmar Sigurjónsson og eiga þau tvö börn, hið eldra orðið fullorðið og hið yngra á góðri leið með að verða það líka.

Dagný og Hjálmar fóru fljótlega að búa, keyptu sér litla íbúð og þegar von var á stækkun í fjölskyldunni keyptu þau sér hús sem stendur efst í bænum og út um eldhúsgluggann má sjá gróðurlundinn sem Hjálmar Guðjónsson frá Þórshamri ræktaði upp á sínum tíma og var hann einmitt afi og nafni Hjálmars.  Lífið tekur oft svo skemmtilega leið.

Árið 1989 hóf Dagný fyrst störf hjá Loðnuvinnslunni. Þá sem sumarstarfsmaður og svo með hléum fram til ársins 2003 þegar hún réð sig í fast starf og hefur verið það síðan.  „Í fyrstu var ég í vinnslusalnum en bauðst svo ritara starf árið 2007 og hef verið í því síðan“ segir Dagný.  Að vera ritari í frystihúsinu er ansi margþætt starf. Hún heldur utan um tímaskráningu starfsmanna, reiknar bónsus og hvíldartíma. Þá þarf að skrá inn nýja starfsmenn þegar þeir koma. Hún sér um allar rekstarvörur séu til á lager eins og hanskar, svuntur og annar fatnaður sem þarf, hreinlætisvörur og kaffi. Aðspurð að því hvort að þessi vinna væri skemmtileg svaraði hún því til að auðvitað væri hún misskemmtileg eins og önnur vinna en að jafnaði væri gaman. „Þetta er nokkuð fjölbreytt starf ég sit ekki bara fyrir framan tölvuna og það er skemmtilegt“.  Þetta er líka ábyrgðarstarf. Að reikna út bónus og annað sem telur í launaumslaginu getur verið viðkvæmt.  „Ég fæ stundum skammir ef ég geri mistök og þá verð ég leið, ég reyni alltaf að gera allt 100%, en ég er mannleg og get gert mistök eins og aðrir“ segir Dagný alvörugefin.  Svo þegar það er mikið um að vera í fyrirtækinu eins og þegar vertíðir standa yfir þá þarf Dagný stundum að rjúka til og redda pappírum og öðru slíku. „Það er í góðu lagi“ segir hún, „ekki er ég bundin yfir smábörnum“.

En líf Dagnýjar er ekki allt dans á rósum frekar en hjá flestu öðru mannfólki. Dagný er með afar slæma vefjagigt. Hún hefur þrautir í líkamanum á hverjum degi auk þess sem hún þjáist af ógleði og svefn óreglu auk annarra fylgifiski þessa hvimleiða sjúkdóms.  En Dagný Hrund lætur engan bilbug á sér finnast.  „Ég er í sjúkraþjálfun, ég fer í ræktina og á göngur og reyni að hafa streitulaust í kring um mig“ segir Dagný þegar hún er innt eftir því hvernig hún vinni að bættri heilsu.   „Svo á ég lítil systrabörn sem ég reyni að heimsækja á hverjum degi, það bætir geðheilsuna“ og greinarhöfundur getur fúslega tekið undir þá fullyrðingu því fátt nærir sálina betur en nærvera við börn sem með einlægni sinni og hispursleysi lýsa upp daginn.

Þegar Dagný er spurð um áhugamál er hún fljót að svara:“fjölskyldan og heimilið“. Og heimilið ber þess merki að húsfreyjan er liðtæk með tusku og þvegla. Allt var svo hreint og storkið og fallegt. Greinilegt að umhyggja og alúð gerðu þetta hús að heimili. „Og svo finnst mér gaman að ferðast, sér í lagi til útlanda“ segir hún.  Og hún segir frá því að þau hjónin séu ekki mikið að ferðast innanlands. „Við áttum einu sinni ferðavagn og Hjálmar gat ekki slappað af því hann var alltaf að spá í veðrið og leita að sólinni“ segir hún hlæjandi, „það var aldrei hægt að stoppa því það var alltaf meiri sól annars staðar“ bætti hún við.  En því ber nú að halda til haga að Hjálmar er útivistamaður og nýtur þess að ganga um fjöll og firnindi og þá gjarnan með sól í hjarta.

Dagný segir líka að þau hjónin hafi gaman af að spila í góðra vina hópi og svo að fylgjast með börnunum sínum í fótbolta. „Ég reyni að mæta á alla leiki hjá þeim og Hjálmar líka þegar hann er í landi“ segi Dagný.

Dagný Hrund á sínar þráhyggjur eins og við hin.  Hún þolir ekki skítuga glugga. Og þegar hún segir þetta lítur greinarhöfundur ósjálfrátt á stóra glugga hússins, þeir eru margir og þeir eru stórir. Og tandurhreinir.  Hún segir því til staðfestingar að Hjálmar hafi verið að vaska upp og hún sá að það slettist svolítið vatn á rúðuna og hann ætlað að fara að þurrka það þegar hún sagði að það hefði hreinlega brotist fram af vörum sér: „stopp! Ég skal gera þetta“, því hún var þess fullviss að hann myndi ekki gera það rétt. Og hún skellihlær við minninguna og greinarhöfundur líka.

Tal okkar barst að göngustígnum sem liggur fyrir ofan hús þeirra hjóna. Þessi fíni göngustígur sem bæjarbúar eru duglegir að nota sér til hreyfingar og útiveru.  Fyrir marga sem búa í efstu húsum bæjarins var þetta alveg ný upplifun að sjá fólk á göngu fyrir ofan hús sín og einhverjir brugðust við og settu upp gluggatjöld til þess að eiga þann kost að draga fyrir. En ekki Dagný og Hjálmar, í eldhúsinu eru hefðbundnar eldhúsgardínur rétt eins og áður.  Dagný sagði að Hjálmar hefði einu sinni verið spurður að því hvort að þau hyggðust ekki gera ráðstafanir svo að fólk á göngstígnum gæti ekki séð innum gluggana hjá þeim en hann hefði svarað að bragði: „nei, nei, ég læt bara Dagnýju í brjóstarhaldara áður en hún fer inní eldhús“.  Svo mörg voru þau orð.

Skammdegisélið hafði ekki látið deigan síga, þvert á móti. Greinarhöfundur mátti setja undir sig höfuðið á leið í bílinn, tautaði ofurlítið við sjálfa sig um að ólíkt huggulegra hefði verið að sitja við elhúsboðið hjá Dagnýju með gott kaffi og hálfmána kökur heldur en að fá ískalda drífuna í andlitið. En það verður ekki á allt kosið.

BÓA

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í gærkvöldi með um 1200 tonn af kolmunna. Skipið heldur síðan til veiða á Íslenskri síld að löndun lokinni.

Ingólfur í Smiðjunni

Ingólfur Hjaltason

Í lágreistu húsi á athafnasvæði Loðnuvinnslunnar er vélaverkstæði. Í daglegu tali gengur það undir nafninu Smiðjan. Í Smiðjunni vinna tíu starfsmenn og fremstur meðal jafningja þar er verkstjórinn Ingólfur Hjaltason. Mikið hefur mætt á starfsmönnum Smiðjunnar síðustu misseri rétt eins og öðrum starfsmönnum LVF og segir Ingólfur það vera óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinna umsvifa fyrirtækisin. “Það eru næg verkefnin og ég gæti hæglega bætt við nokkrum starfsmönnum, en fólk með iðnmenntun er ekki á hverju strái” segir Ingólfur.

Verkefni þeirra Smiðjumanna eru af margvíslegum toga, en eðli málsins samkvæmt tengjast verkefnin vélbúnaði og málmvinnslu. “Okkar hlutverk er að halda við öllum vélbúnaði fyrirtækisins, í bræðslunni, fiskvinnsluhúsunum og skipunum. Og svo er alltaf eitthvað um nýsmíði líka. Og svo reynum við að þjóna bæjarbúum eins og hægt” útskýrir verkstjórinn þegar greinarhöfundur upplýsir vanþekkingu sína á starfsemi vélaverkstæða. Aðspurður að því hvort að allir starfmennirnir væru með iðnmenntun sagði hann ekki svo vera en sagði: “þetta eru flottir strákar, þeir eru duglegir og geta allt”.   “Sumir eru betri í gera við vélar, aðrir eru betri í að smíða.” Og uppá vegg í skrifstofu Ingólfs má líta viðurkenningaskjöl um þátttöku starfsmanna í hinum ýmsu námskeiðum.

Ingólfur er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði. Hann er einn af átta systkinum. Hér í þessum firði hefur hann dvalið mestan part lífs síns og segir að hann sé “heimaríkur og mikill Fáskrúðsfirðingur”. Hann sagðist líta á það sem forréttindi að geta unnið svona nálægt heimilinu og geta gengið í vinnuna.

Hann stundaði sitt nám í vélvirkjun í Iðnskólanum á Neskaupsstað og Iðnskólanum Í Hafnarfirði og útskrifaðist þaðan. Ingólfur sagði það hafa verið hálfgerð tilviljun að hann hóf nám í vélvirkun á sínum tíma en þannig hafi það verið að þegar hann var 19 ára gamall hafi Jón Erlingur (Guðmundsson, þá útgerðarstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga) komið að máli við sig og sagt rétt sí svona: “finnst þér nú ekki kominn tími til að hætta þessu rugli Ingólfur minn. Viltu ekki koma á samning í smiðjunni”? Var Jón Erlingur þarna að vísa til lifnaðarhátta Ingólfs sem ungur maður. Ingólfur skellti sér á samning hjá Alberti Kemp og hefur verið starfandi hjá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni æ síðan eða í heil 42 ár.

“Mér hefur liðið vel hjá fyrirtækinu og aldrei velt því fyrir mér í neinni alvöru að flytja mig um set og það tekur því nú ekki úr þessu” segir Ingólfur og hlær við. En þessi 61árs gamli maður er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og getur eflaust unnið einhverja áratugi til viðbótar kæri hann sig um.

Ingólfur hefur alla tíð verið mikil áhugamaður um knattspyrnu. Hann spilaði fótbolta með Leikni auk þess að spila t.d. í Færeyjum eitt sumar. Þar að auki starfaði hann sem dómari í flestum deildum knattspyrnunar í 30 ár. Þegar hann setti skóna á hilluna og hætti að starfa sem dómari hlaut hann gullmerki KSÍ fyrir vel unnin stöf við dómgæslu. Á heimasíðu KSÍ er þetta sagt um gullmerkið: “Heiðursmerki þetta veitist aðeins þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingamikil störf.” Svo þarna hlaut Ingólfur mikinn heiður og var vel að honum kominn.

En stundum á Ingólfur frí, sem betur fer, og hvað vill hann nota þann tíma til “ég hef unun af því að ganga út í náttúrinni, fara á fjöll, hjóla og hreyfa mig . Ég fer í líkamsræktastöðina nokkrum sinnum í viku og ég fer í sund. “Ég er svo ofvirkur, ég þarf alltaf að vera á hreyfingu” sagði Ingólfur brosandi. Og þá loks rann upp fyrir greinarhöfundi hvað ungi maðurinn átti við þegar hún spurði hann hvar Ingólfur væri þegar hún gekk inn í Smiðjuna en hann svaraði: “ADHD hraðlestin þaut hér framhjá rétt áðan”.

Svo hefur Ingólfur græna fingur. Hann ræktar blóm og ávexti í gróðurhúsi og hlúir að trjám. “Svo er gaman að ferðast og sér í lagi á framandi staði”. Kína, Bali, Kúba, Bahama eru meðal þeirra landa sem hann hefur heimsótt. Og honum þykir líka gaman að ferðast innanlands með hjólhýsið í eftirdragi. “Þá er alveg dásamlegt að fá barnabörnin í heimsókn” segir hann og fær þetta blik í augað sem afar og ömmur gjarnan fá þegar talið berst að barnabörnum.

 

Þú hlýtur nú að hafa frá einhverju skemmtilegu að segja eftir 42 ár á sama vinnustað Ingólfur? “já, já,” svarar hann og segir svo frá: “ Eitt sinn var ég að brasa eitthvað hér frammi og var alveg sótsvartur á höndunum þegar Tryggvi Sigmundsson gengur hér inn og segir að bragði: Ingólfur, á ég ekki að merkja á dagatalið hjá þér? Ég hváði við og hann bætti við: Já, á ég ekki að merkja á dagatalið að þú ert að vinna!” Og önnur saga: “Oft hafa verið hér í vinnu menn sem hafa verið spaugsamir mjög og uppátækjasamir. Eitt sinn voru tveir ungir menn að vinna hér og þeir voru alltaf eitthvað að rugla í mér og einn daginn spurðu þeir: Ingólfur, megum við ekki hafa kanínur hér? Ég svaraði snarlega: jú, jú. Svo vissi ég ekki af fyrr en þeir voru búnir að setja upp hænsanet undir einhvern bekkinn og koma þar fyrir kanínum. Það hvarlaði aldrei að mér að þeir væru að tala í alvöru þegar þeir spurðu.” Og til gamans hafði greinarhöfundur hafði uppá öðrum unga manninum sem hann talaði um og spurði hvað hefði orðið um kanínurnar og það stóð ekki á svarinu: “Ingólfur bannaði okkur að hafa þær svo þær fengu nýtt heimili”.

“Dagur án hláturs er dagur án tilgangs” sagði Charlie Chaplin, og ef sú speki er rétt hafði dagurinn sem greinarhöfundur spjallaði við Ingólf Hjaltason sannarlega haft ríkan tilgang því að hlátur hafði ómað í litla kontór verkstjórans þegar hann rifjaði upp miklu fleiri skemmtilegar sögur af lífinu í Smiðjunni.

 

BÓA