Hoffell

Hoffell landaði 1076 tonnum af kolmunna þann 19. desember. Þetta var síðasta löndun ársins hjá skipinu og er aflinn því orðinn rúm 41 þúsund tonn á árinu. Kolmunni er tæp 19 þúsund, Makríll rúm 10 þúsund, Loðna tæp 9 þúsund og síld rúm 3 þúsund.

Jólin til þín

Miðvikudaginn 18.desember voru haldnir jólatónleikar í Félagsheimilinu Skrúði. Var þar á ferðinni hópur af söngvurum og hljóðfæraleikurum sem fóru um landið með tónleika undir yfirskriftinni Jólin til þín. Hljómsveitin var skipuð einvalaliði hljóðfæraleikara og söngvararnir voru þau Eiríkur Hauksson, Regína Ósk, Rakel Páls og Unnur Birna.  Er óhætt að segja að tónleikarnir hafi verið þeir glæsilegustu og jólastemmningin einlæg.

Loðnuvinnslan, ásamt Starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, bauð öllu sínu starfsfólki á tónleikana og í fordrykk á undan.  Var þátttakan góð eða um 90 manns frá fyrirtækinu auk annarra gesta að sjálfsögðu. Heildarmæting á tónleikana var því nokkuð góð.  Haft er eftir allmörgum tónleikagestum að kvöldið hafi verið afar ánægjulegt og skemmtilegt, tónlistin hafi verið “unun ein á að hlíða” eins og haft er eftir ónefndum gesti.

Er það fastur liður í aðdrananda jóla hjá mörgum að fara á tónleika, að hlusta á jólalögin flutt af góðu tónlistarfólki er upplifun sem eykur á vellíðan og að gleyma sér eina kvöldstund við tónanna klið er slakandi og skemmtilegt. Að fá tónleikana Jólin til þín, hingað í heimabæinn okkar á desemberkvöldi  var afskaplega vel þegið og óhætt er að fullyrða að tónleikagestir hafið farið heim með jólagleði í hjarta.

BÓA

 

 

 

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 65 tonnum. Uppistaða aflans var þorskur til vinnslu í frystihús LVF.
Næsta veiðiferð verður svo milli jóla og nýárs.

Hljóðnemar í Grunnskólann

Á dögunum færði Loðnuvinnslan Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar fimm þráðlausa hljóðnema að gjöf.  Hljóðnemunum fylgir að sjálfsögðu sendir og annar búnaður sem þarf til þess að þeir virki sem skyldi. Er gjöfin að andvirði 250 þúsund króna. Eygló Aðalsteinsdóttir skólastjóri tók á móti gjöfinni fyrir hönd Grunnskólans og aðspurð sagði hún að gjöfin væri afar vel þegin og nemendur og starfsfólk skólans væri afskaplega þakklátt fyrir þessa góðu gjöf.  “Þegar við höldum árshátíð Grunnskólans er hefð fyrir því að setja upp eitthvert leikrit og til þess að talað mál skili sér vel út til áhorfenda er nauðslynlegt að hafa hljóðnema” sagði Eygló.  Í nóvember s.l. var árshátíð nemenda haldin þar sem sýnd voru atriði úr Konungi ljónanna og undanfarin ár hafa hljóðnemar verið leigðir en að þessu sinni bar svo við að þeir voru uppteknir og þá voru góð ráð dýr og því var ákveðið að leita til Loðnuvinnslunnar sem hefur stutt vel við Skólamiðstöðina um langt skeið. “Þessi gjöf nýtist að sjálfsögðu allri Skólamiðstöðinni” bætti Eygló við því að Leikskólinn, Tónlistarskólinn og Grunnskólinn nýta salinn og þann búnað sem þar er.  Þá sagði Eygó að það væri dýrmætt að eiga góða að og vildi gjarnan koma á framfæri þakklæti fyrir greiðsemi og liðlegheit varðandi akstur á börnum til og frá íþróttahúsi þegar færð er slæm og veður eru vond. “Ég hef ósjaldan hringt og spurt hvort að rúta Loðnuvinnslunnar geti ekið nemendum og ávalt fengið góðar viðtökur” sagði Eygló og er þakklæti allra þeirra sem vinna og starfa í Skólamiðstöðinni hér með komið á framfæri.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 72 tonnum. Uppistaðan er þorskur og karfi. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 11. desember kl. 13:00.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 700 tonnum af síld til söltunar. Með því er skipið komið í um 40 þúsund tonn veidd á árinu. Hoffellið mun fara á kolmunna að lokinni löndun.

Sandfell

Sandfell skilaði ágætlega í nóvember og endaði í 254 tonn, hæstur í sínum stærðarflokki. Sjá vefslóð http://www.aflafrettir.is/frettir/grein/batar-yfir-15-bt-i-novnr6/4150
Þá hefur báturinn farið vel af stað í desember með um 43 tonn í fjórum róðrum.

Endurnýjun í Bræðslunni

Sjóðarinn
Forsjóðarinn

Heilmikil endunýjun á tækjum og búnaði stendur nú yfir í Bræðslunni.  Í nóvember s.l kom nýr forsjóðari  sem leysir af hólmi tæki sem orðin voru slitin og úr sér genginn. Til að knýja forsjóðarann er nýtt svo kölluð  afgangsorka frá öðrum tækjum.   Forsjóðari þessi var smíðaður hjá Héðni í Reykjvík.

Í dag kom svo nýr sjóðari sem var smíðaður í Harslev í Danmörku. Er þetta heljarmikið tæki sem vegur um 50 tonn og kemur í stað þriggja sjóðara sem voru orðnir meira en 40 ára gamlir. Gömlu sjóðararnir voru keyptir notaðir í Bræðsluna þegar hún var byggð fyrir 22 árum síðan, þannig að þeir hafa þjónað sínu hlutverki vel.  Þegar greinarhöfundur leit við í Bræðslunni í dag voru starfsmenn í óða önn við að koma þessu afar stóra tæki inn í hús þar sem það verður tengt og tekið til notkunar við fyrsta tækifæri.  Aðspurður sagði Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri að töluverð endurnýjun hefði átt sér stað í öllum búnaði Bræðslunnar á undanförnu og nýi forsjóðarinn og sjóðarinn væri liður í því.  “Græjurnar voru orðnar gamlar og slitnar og allt er þetta liður í endunýjun, við erum að breyta og bæta” sagði Magnús.

Þá er verið að setja nýja sjólögn  út frá Bræðslunni.  “Það er verið að setja eina djúplögn í stað tveggja grinnri” sagði Magnús og bætti því við að þetta væri afar mikilvægt við manneldisvinnslu og þá sér í lagi við hrognavinnsluna. En við vinnslu á hrognum er lykilatriði að nota mikið af ferskum sjó. Mun því nýja lögnin ná enn lengra út í sjó og liggja mun dýpra sú en sem hún mun leysa af hólmi. Við enda lagnarinnar er svo þriggja metra há sjósía sem sér til þess að sjórinn sem notaður verður sé vel síaður og þar að auki verður nýtt geislatæki við lögnina í landi sem geislar allan sjó sem nýttur verður við manneldisvinnslu og getur geislað 400 tonn á klukkustund.

 

BÓA

Sandfell

Sandfelli hefur vegnað ágætlega að undanförnu. 11 tonn í gær og 12 tonn í fyrradag. Samkvæmt nýjustu samantekt Aflafrétta er báturinn kominn með 160 tonn í mánuðinum og er aflahæstur í sínum stærðarflokki. sjá slóð á frétt:http://www.aflafrettir.is/frettir/grein/batar-yfir-15-bt-i-novnr4/4106

Ljósafell

Ljósafell skaust inn í gærkvöld með um 40 tonn, aðallega þrosk. Skipið hélt aftur til veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell landaði um 56 tonnum á fimmtudag, 15 nóv og er kominn aftur til löndunar í dag, mánudaginn 19. nóvember. Aflinn að þessu sinni er um 75 tonn og uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 20. nóvember kl 13:00.

Hoffell

Hoffell landaði um 1300 tonnum af kolmunna á fimmtudaginn 15. nóvember. Skipið hélt síðan til síldveiða kl 13:00 á sunnudaginn 18. nóvember.