Hoffell er á landleið með 1.150 tonn.

Hoffell er á landleið með 1.150 tonn.  Aflinn er 1.000 tonn Makríll og 150 tonn Síld. Um 900 tonn  af aflanum fengust við íslenskri landhelgi. Veiðin hefur verið 70 mílur frá landi.

Hoffell fer út strax eftir löndun.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.

Ljósafell er á landleið með fullfermi 110 tonn.

Ljósafell er á landleið með fullfermi 115 tonn. Aflinn er 35 tonn Þorskur, 30 tonn Ýsa, 25 tonn Karfi, 20 tonn Ufsi og annar afli.

Ljósafell fer aftur út á mánudagskvöldið.

Mynd: Þorgeir Baldursson.

Ljósafell með fullfermi

Ljósafell kom inn í gær með fullfermi 110 tonn.  Aflinn er 45 tonn ýsa, 45 tonn karfi, 10 tonn ýsa, 4 tonn þorskur og annar afli.

Skipið fer aftur út kl. 16.00 í dag.

Norðingur á landleið með 1.900 tonn af Kolmunna.

Norðingur er á landleið með 1.900 tonn af kolmunna til bræðslu.  Skipið verður um kl. 1 í nótt. Aflinn fékkst um 300 mílur frá Fáskrúðsfirði austur af Færeyjum.

Mynd: Hafþór Hreiðarsson.

Ljósafell kemur inn um hádegi með tæp 100 tonn.

Ljósafell kemur inn um hádegi með tæp 100 tonn, aflinn er 35 tonn karfi, 30 tonn ýsa, 17 tonn þorskur, 15 tonn ufsi og annar afli.

Skipið fer út aftur á morgun kl. 18.

Mynd: Kjartan Reynisson.

Gleði og gaman

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar er kraftmikill félagsskapur sem stendur fyrir alls konar skemmtunum, uppákomum og ferðalögum fyrir sína félagsmenn. Laugardagskvöldið 3.júní hélt félagið glæsilega skemmtun í tilefni sjómannadagsins. Tilvalið er að bjóða til veisluhalda og skemmtunnar þegar sem flestir félagsmenn eru viðlátnir. Allir sjómenn í landi og fólkið sem vinnur verkin í landi viðlátið. Vel var mætt af starfsfólki LVF og mökum og ekki mátti annað sjá en að fólk nyti kvöldsins.

Veislustjóri var ekki af verri endanum, Selma Björnsdóttir leik- og söngkona stjórnaði samkomunni af mikilli fagmennsku og gleði. Sjálf sagði hún að stemmningin hefði verið frábær, fallegt og gott fólk og maturinn geggjaður. “Og stelpurnar sem tóku nútímadansinn við Loreen/Tattoo lagið áttu kvöldið skuldlaust” sagði Selma og vísaði þar til hóps kvenna sem tjáðu sig í dansi við áðurnefnt lag við mikila lukku viðstaddra.

“Svo var veðrið auðvitað tryllt” sagði Selma og bætti við: “ Takk fyrir mig og takk fyrir ykkur”.

Maturinn kom frá Bautanum á Akureyri og var um að ræða þriggja rétta máltíð sem borin var á borð og almenn ánægja var með matinn sem rann ljúflega ofan í fólk.

Að lokum var leikið fyrir dansi, þar voru á ferð Jóna Hilmar Kárason og Matti Matt ásamt félögum.  Rúsínan í pylsuendanum var að Selma söng með þeim nokkur lög og nokkuð er víst að einhverjar tær hafi verið orðnar danslúnar þegar heim var farið í bjartri sumarnóttinni eftir afar vel heppnaða skemmtun og gómsætan mat.

BÓA

Matseðill kvöldsins. Glæsilegur og girnilegur.

Hér gefur að líta gítarleikarann fingrafima Jón Hilmar Kárason og Selmu Björnsdóttur veislustjóra. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Engin verður svikin af því að hlusta á Selmu taka lagið. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Veislugestir ásamt veislustjóranum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur

Mikið er til að ljóðum og textum um sjómenn og sjómennsku. Það er að öllum líkindum ekki til önnur starfsstétt sem á sér jafnmikið af slíkum kveðskap. Í þessum ljóðum og textum er ávallt talað um karlmenn, hetjur sem sigla um heimsins höf, gjarnan nokkuð uppá kvenhöndina og nokkuð fyrir sopann. Þarna birtast staðalímyndir sem eiga ekki við nein rök að styðjast í raunveruleikanum því sjómennsku stunda allskonar fólk, af öllum kynjum.  En mannfólkinu þykir gaman að raula þessi lög og þessa texta og sér í lagi á sjómannadegi. Enda er býr margt í þeim sem er fallegt og satt eins og í þessu textabroti eftir Jóhönnu Erlingsson:

“Því sem sjómaður sigli ég um hafið

og af sjónum ég  heim aftur sný.

Ég uni ekki lengi í landi

hafið lokkar og laðar á ný”.

(Hafið lokkar og laðar á ný)

Sjómannadagur er dagur sjómanna, fjölskyldna þeirra, útgerða og íslendinga allra.  Því allt frá landnámi hefur verið stunduð sjómennska við strendur Íslands. Hvað er þá betur við hæfi en að bjóða gestum og gangandi í siglingu. Loðnuvinnslan hefur um langt árabil boðið í slíka siglingu í tenglsum við sjómannadag. Í ár er sérstakur hátíðarbragur yfir siglingum skipanna Ljósafells og Hoffells vegna þess að Ljósafellið heldur upp á að 50 ár er síðan það kom til Fáskrúðsfjarðar og fór í sína fyrstu siglingu á sjómannadegi með fjöldan allan af gestum. 

Siglingar skipanna fóru fram á laugardagsmorgni þann 3.júní, daginn fyrir hinn eiginlega sjómannadag, og er það gert til þess að áhöfnin, sem sem sér til þess að gestirnir komist í siglingu, eigi frí á sjálfan sjómannadaginn.

Sólin skein, fuglarnir sungu og lognið breyddi út faðm sinn þegar gestir steymdu niður á bryggju til þess að fara í siglingu. Á móti gestum tók ilmur af grilli og sumri þar sem tveir starfmenn Loðnuvinnslunnar stóðu og grilluðu pylsur handa hverjum þeim sem vildu. Auk þess var boðið uppá súkkulaði, gosdrykki og safa. Voru veitingunum gerð góð skil og sælir gestir gengu til borðs. Siglt  var út Fáskrúðsfjörðin þar sem fallegu fjöllin stóðu vörð um sjófarendur og fánum prýdd systurskipin Ljósafell og Hoffell voru glæsileg ásýndar. Og til þess að gæta fyllsta öryggis var björgunarbáturinn Hafdís á vaktinni.

Um það bil 400 manns þáðu boð í siglingu, bæði heimamenn á Búðum sem og gestir hvaðanæva af Austurlandi. Þar á með bæjarstjóri Fjarðabyggðar Jóna Árný Þórðardóttir sem óskaði eftir því að fá að sigla með afmælisfleyinu Ljósafelli enda er það merkilegur áfangi að ná 50 ára samfelldri sjó ástundun. Er Jóna Árný var innt eftir því hvernig siglingin hefði verið svaraði hún: “Það var afar ánægjulegt að taka þátt í siglingunni á Ljósafellinu og veðrið og fjörðurinn skartaði sínu fegursta. Skipið hefur þjónað samfélaginu dyggilega í 50 ár og það var mér mikill heiður að fá að sigla með því á þessum merkisdegi. Ég vil óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn”.

Full ástæða er til að taka undir orð Jónu Árnýjar bæjarstjóra og senda sjómönnum öllum innilegar hamingjuóskir með daginn og gæfu og gengis í öllu sínum störfum.

BÓA

Ljósafell og Hoffell. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir

Frá vinstri: Kristján Gísli Gunnarsson starfandi skipstjóri á Ljósafelli, Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Guðjón Anton 2.stýrimaður á Ljósafelli. Ljósmynd frá Jónu Árnýju

Smári Einarsson var skipstjóri á Hoffelli í siglingunni, hér er hann ásamt konu sinni Rakel Nguyen Halldórsdóttur. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Gaman að skoða fiska. Heimir Jón Bergsson starfandi 1.stýrimaður á Hoffelli á sjómannadaginn ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar Jóna Árný Þórðardóttir ásamt ungum Fjarðabyggðarbúum í starfni Ljósafells. Ljósmynd frá Jónu Ánýju.

Sjómannadagshelgi – sigling

Siglingin verður á laugardaginnn 3. júní, daginn fyrir Sjómannadag, kl 10:00.

Loðnuvinnslan óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Mynd: Þorgeir Baldursson.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.

Ljósafell 50 ára

Mörg eru þau mannanna verk sem endast ekki lengi.  Það þarf ekki á neinn hátt að rýra gildi þeirra en þau verk sem fá alúð og góða umsjón geta enst um ár og síð.  Skip og bátar eru þar engin undantekning og til þess að færa sönnur á þau orð að alúð og góð umsjón hafi vægi, beinum við sjónum að fallegu skipi sem hefur vaggað í sjónum í hálfa öld, en Ljósafell SU 70  á fimmtíu ára afmæli í dag, 31.maí 2023.  Afmælisdagurinn reiknast frá þeim degi þegar það lagðist í allra fyrsta sinn að heimahöfn á Búðum í Fáskrúðsfirði þann 31.maí 1973.  Klukkan sex að morgni þann vordag var veðrið  í Fáskrúðsfirði NV 7,  2 stiga hiti og léttskýjað.

Nafnið Ljósafell prýddi áður  trébát í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og  hefur þessum fleyjum er bera þetta fallega, bjarta nafn farnast vel.  Í norðanverðum Fáskrúðsfirði stendur reislulegt fjall sem ber heitið Ljósafjall og er nafnið dregið þaðan, líkt og hefð er orðin fyrir hjá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni, dótturfélagi þess, þar sem skip og bátar hljóta nöfn af fjöllum sem standa vörð um Fáskrúðsfjörð.

Ljósafell er ísfisktogari og  er byggt í Muroran í Japan. Það var tíunda og seinasta skip sinnar tegundar sem byggt var í Muroran og komu til Íslands en í dag eru þau aðeins tvö eftir á landinu, en það eru Ljósafell og Múlaberg frá Siglufirði.

Þegar allt var reiðubúið til að hleypa Ljósafellinu af stokkunum  Muroran var mætt þar áhöfn sem átti að sigla skipinu heim. Voru það:

 Skipstjóri: Guðmundur Ísleifur Gíslason

Fyrsti stýrimaður: Pétur Jóhannsson

Annar Stýrimaður: Haraldur Benediktsson

Vélstjóri: Gunnar Ingvarsson

Annar vélstjóri: Rafn Valgeirsson

Þriðji vélstjóri: Jón Erlingur Guðmundsson, sem jafnframt var útgerðarstjóri.

Matsveinn: Hjalti Kristjánsson

Háseti: Gunnar Geirsson

Allra fyrsta færslan í  Leiðarbók skipsins er á þessa leið:

„Föstudagurinn 6.apríl 1973.

Kl. 16.00 að staðartíma var skipið afhent með undirskrift.  Sögð nokkur orð af Jóni Erlingi og nokkrum Japönum.  Skálað í kampavíni.  Síðan buðu seljendur í kvöldverð.  Fór hann að öllu leiti vel fram. Skipshöfnin flutti um borð“.

Og ef litið er á þá næstu:

Laugardaginn 7.apríl.

Íslenski fáninn dreginn að húni.  Tekið um borð síðustu nauðsynjar fyrir skipið.  Lögð síðasta hönd á alla vinnu.  Allt virðist í besta lagi“.

Svo rennur upp bjartur og fagur sunnudagurinn 8.maí 1973 og þá eru landfestar leystar kl. 12.30 og stýrt eftir radar að Kyrrahafi.  Fyrsti áfangastaður er Honolulu á Hawai eyjum.

Sú staða var uppi í heimsmálunum í aprílmánuði 1973 að Súesskurðurinn var lokaður vegna deilna og því ekki hægt að sigla þá leið sem styst væri að fara, þ.e. Rauðahafið í gegn um Súes í Miðjarðarhaf og þaðan á Atlantshafið heim.   Þess í stað beið Ljósafells og áhafnar lengri leiðin heim.

Eins og fyrr segir var stefnan sett á Honolulu, þangað var  ellefu daga sigling og lesa má í leiðarbókinni að vel hafi gengið, veðrið afar gott, reyndar svo gott að áhöfnin skellti upp sundlaug á efra dekki.  En á þriðja degi siglinga fannst laumufarþegi um borð.  Reyndist það vera rotta sem hafði laumað sér með en treglega gekk að handsama gestinn og tókst það ekki fyrr en á fimmta degi og eins og segir í leiðarbókinni: „Í dag var laumufarþeginn handsamaður og varpað í vota gröf látinn“.

Á leiðinni til Honolulu hafði olíuþrýstings rör valdið vandræðum, svo að telex var sent til Japan til að fá nýtt og því stoppaði skipið í fimm daga í sólarparadísinni meðan beðið var eftir nýju. Því næst var svo stefnan sett á Panama.  Eftir átján sólahringa siglingu var loks komið að Panama þar sem hafsögumenn komu um borð til þess að leiðbeina á siglingunni um Panamaskurðinn.  Hófst sú ferð kl. 9.45 og kl. 20.15 var lagst við festar í Cristobal, sem er ein stærsta hafnarborg Panama, Atlantshafs megin.

Þar var tekin olía og nauðsynjar til næsta áfanga og lagt af stað til Íslands þann 14.maí 1973.  Löng sigling er frá Panama upp Atlantshafið og gekk hún vel samkvæmt Leiðarbókinni og svo kl. 07.00 að morgni 31.maí er siglt hjá Hafnarnesi og inn í Fáskrúðsfjörð.  Þar var slegið af ferð til að hengja upp flögg svo að skipið kæmi í sparifötum fram fyrir bæjarbúa í fyrsta sinni.  Tollafgreiða þurfti skipið og að því loknu var loks lagst að bryggju kl.11.00 og þá var „fagnað með fánum og ræðuhöldum og síðan var skipið til sýnis fyrir alla“ (úr Leiðarbók).

Á því herrans ári 1973 bar sjómannadag upp á 3.júní og þá fór Ljósfell í skemmtisiglingu með fullt skip af fólki og hefur gert það allar götur síðan.  Og svo þann 7. júní fór skipið í sinn fyrsta veiðitúr og kom að landi með 106 tonn af afla viku síðar. Og núna fimmtíu árum eftir fyrsta túrinn hefur Ljósafell Su 70 komið með 198.471 tonn og 470 kíló af fiski til hafnar.

Og enn er Ljósafell að draga björg í bú en segja má um skip eins og hús að þau séu einskins virði ef ekki býr eða starfar þar fólk, en mikil áhafnagæfa hefur fylgt skipinu.  Á þessum fimmtíu árum hafa einungis verið fjórir fastráðnir skipstjórar á skipinu. Það eru þeir Guðmundur Ísleifur Gíslason, Albert Stefánsson, ( báðir látnir)  Ólafur Helgi Gunnarsson og Hjálmar Sigurjónsson.  Starfandi skipstjóri á Ljósafelli í dag er Kristján Gísli Gunnarsson í forföllum Hjálmars.

Ólafur Helgi var á Ljósafellinu í 40 ár.  Aðspurður sagði hann að það væri gott skip en hefði orðið svo miklu betra við lenginguna sem það hlaut árið 1989. „Þá var skipið lengt um 6,6 metra, það var skipt um brú, sett á það pera, skipt um aðalvél og togspil“ sagði Ólafur.  Hann sagði að við þessa breytingu hefði skipið breyst mikið t.d. hafi það haldið mikið betri ferð á togi og látið svo miklu betur í brælu.  

Síðan voru aftur gerðar breytingar á skipinu árið 2007 og þá var eldhúsið endurnýjað og matvæla kælar færðir aftur í. „Það var svo önugt fyrir kokkinn að þurfa alltaf að fara fram í stefni til þess að sækja matvæli í kælinn“ sagði Ólafur.  Þá komu líka ný togspil sem þóttu afar góð, tæki í brú yfirfarinn og endurnýjuð og aðalvélin yfirfarin.

Þegar Hjálmar Sigurjónsson var inntur eftir sinni skoðun á Ljósafelli sagði hann snöggur upp á lagið: „Snilldarfleyta, það fer mjög vel með mann og er mjög gott sjóskip“.  Hjálmar sagi líka að hann hefði siglt á nokkrum togurum í gegn um tíðina og sér fyndist Ljósafellið bera af.

Gæfa hefur fylgt þessu skipi.  Ekki hafa orðið stór skakkaföll hjá skipi eða áhöfn og mikill stöðugleiki í mannskap.  Allnokkrir  hafa verið stóran hluta af sinni starfsævi á Ljósafelli.

Þegar Ljósafell kom heim á Fáskrúðsfjörð kom það með von um betri tíð.  Reksturinn í sjávarútvegi hafði verið strembinn árin á undan og draumurinn um öflugt skip sem gat farið hvert sem er að sækja fisk til að vinna í frystihúsinu á Búðum var að rætast.  Hálfri öld síðar hefur vonin og draumurinn sína táknmynd í Ljósafelli SU 70 sem enn sinnir sínu hlutverki og mun vonandi gera það áfram um langt skeið.

Til hamingju áhöfn og útgerð og Fáskrúðsfirðingar allir með fallega, reislulega skipið sem vaggar hljóðlega á sjónum í dag sem og aðra daga.

Að lokum langar mig að birta hér ljóð sem Björn Þorsteinsson frá Þernunesi orti í tilefni að heimkomu Ljósafells úr breytingu  árið 1989.

Nú í dag við hátíð höldum

þá heima er Ljósafellið aftur.

Enn á sollnum sjávaröldum

sigrað hefur manndómskraftur.

Og skipið fært til heimahafnar,

-því heim er jafnan stefni snúið-

en síðan það úr djúpi drafnar

dregur auð í þjóðarbúið.

Þetta skip er farsæl fleyta,

sem fært hefur mikinn afla að landi.

Og núna er því búið að breyta

svo betur undir kröfum standi.

Lengja það og styrkja og stækka,

það stefnir vonandi allt til bóta.

En líka þyrftir helst að hækka

hlutaskipti og aflakvóta.

En kringum landið fiskum fækkar.

Það fæst af útgerð lítill gróði.

Og skuldabagginn stóri stækkar.

Menn stöðugt biðja um hjálparsjóði.

En það er öllum erfitt gaman

afarkostum þurfa að sæta.

Og því við skulum þjappast saman,

úr þrengingunum reyna að bæta.

En núna á ekki við að vera

volaður og niðurdreginn.

Heldur kraft í brjósti bera.

Bjartsýn horfa fram á veginn

og gleðjast hér á góðri stundu.

Gleyma öllu böli að sinni.

Fagna meður léttri lundu

Ljósafelli og skipshöfninni.

Björn Þorsteinsson, Þernunesi.

BÓA

Ljósafell. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir

Á afmælisdögum er til siðs að fá sér köku.