Hoffell

Hoffell kom til löndunar á mánudaginn með um 950 tonn af makríl. Með því eru komin tæp 6000 tonn í land á vertíðinni. Veiðar og vinnsla hefur gengið vel og makríllinn stór og góður.

Gengur vel hjá nýjum skipstjóra á Hoffelli

 Í brúnni á Hoffelli situr Sigurður Bjarnason, nýráðinn skipstjóri,  og siglir í land með 790 tonn af makríl. Er þetta fyrsti makríltúr Sigurðar á Hoffellinu.  Þegar greinarhöfundur heyrði í Sigurði var Hoffellið úr af Berufirði og reiknaði skipstjórinn með að þeir yrðu í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um kl. 20.30 sunnudagskvöldið 14.júlí.   Aðspurður sagði Sigurður að það hefði gengið vel. “Við vorum í tvo og hálfan sólarhring á veiðum og fengum þennan afla suðvestur af Vestmannaeyjum” sagði Sigurður.  Hann sagði að veðrið hefið verið gott, nokkur kaldi á leiðinni út en síðan bara blíða.  Hann sagði líka að skipið hefði reynst vel og áhöfnin væri góð. “Þetta eru flottir strákar og mér líst mjög vel á þetta allt saman” bætti skipstjórinn við.  Löndun úr Hoffellinu hefst fljótlega eftir að það leggst við bryggju og þegar aflinn verður kominn í land verður haldið á miðin á nýjan leik. “Ég er mjög sáttur og  það eru næg verkefni framundan” sagði Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffellinu að lokum og full ástæða til að óska honum og áhöfninn til hamingju með samstarfið.

BÓA

Hoffell

Hoffell er komið í land með um 780 tonn af kolmunna. Þá tekur við að útbúa skipið á makríl, en farið verður að horfa eftir honum í næstu viku.

Ljósafell

Ljósafell er komið til löndunar með um 100 tonn. Uppistaða aflans er ufsi og þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, miðvikudaginn 3. júlí kl 16:00.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum. Uppistaða aflans er ufsi. Skipið heldur aftur til veiða í kvöld, 18 júní, kl 21:00.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Bergur tekur við Venusi NS 150

Nýr skipstjóri, Sigurður Bjarnason, hefur verið ráðinn á Hoffell SU 80. Hann tekur við starfinu af Bergi Einarssyni sem er að taka við skipsstjórastöðu á Venusi NS 150. Loðnuvinnslan hf, býður Sigurð velkominn til starfa um leið og Bergi Einarssyni er þakkað kærlega fyrir öll þau ár sem hann hefur verið farsæll skipstjóri hjá fyrirtækinu og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Nýr skipstjóri á Hoffelli

Sigurður Bjarnason hefur verið ráðinn skipstjóri á Hoffell Su 80.  Hann tekur við starfinu af Bergi Einarssyni sem leitar nýrra ævintýra á öðru skipi.  En hver er Sigurður Bjarnason? “Ég er Húsvíkingur” svaraði Sigurður, “fæddur og uppalinn þar, fyrir utan nokkur ár sem ég bjó á Þórshöfn sem barn”. Sigurður, eða Siggi eins og hann er gjarnan kallaður, hefur frá blautu barnsbeini verið viðloðandi sjómennsku og útgerð því að foreldrar hans áttu og ráku útgerð lengi vel.  “Stefnan var snemma tekinn á sjóinn, það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina” sagði Siggi þegar hann var inntur eftir því hvort að hann hefði ávallt verið sjómaður.  Hann tók fyrsta stig í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum en útskrifaðist svo úr Stýrimannaskólanum á Dalvík árið 1988. “Ég flutti mig frá Vestmannaeyjum til Dalvíkur því að þá hafði ég kynnst konunni minni, Þóru Ragnheiði Aðalgeirsdóttur, og vildi gjarnan geta farið heim til Húsavíkur um hverja helgi” sagði Siggi brosandi og það hafa verið ferðir til fjár því að rúmum þremur áratugum síðar rugla þau enn saman reytum. 

Sigurður og Þóra Ragnheiður fluttu til Hafnarfjarðar árið 1999 og komu sér þar upp húsi og heimili og ólu þar upp börnin sín tvö.  Og nú eru barnabörnin orðin tvö.  

Eins og áður sagði áttu foreldrar Sigga útgerð sem hét Langanes og þar hófst sjómennska okkar manns.  Hann byrjaði sem háseti og vann sig upp í að verða skipstjóri á Björgu Jónsdóttur sem var í eigu Langaness, en til gamans má geta þess að skipin sem Langanes átti og nefnd voru Björg Jónsdóttir urðu alls sjö.

Útgerðin var svo seld til Skinney-Þinganes árið 2006 og þá var nafni skipsins breytt í Jóna Eðvalds og hefur Siggi verið annar tveggja skipstjóra á henni til dagsins í dag. 

Siggi og Þóra Ragnheiður ætla að flytja búferlum á Fáskrúðsfjörð. “Við erum að undibúa sölu á húsinu okkar í Hafnarfirði og ætlum að kaupa okkur hús fyrir austan” sagði Siggi og ekki var laust við að svolítillar eftirvæntingar gætti í röddinni. Hann sagði þau hjónin vera tilbúin til að flytja og þrátt fyrir að börn og barnabörn byggju á höfuðborarsvæðinu væri tilhlökkun í þeim að hefja nýjan kafla í sínu lífi.

Siggi er búinn að heilsa uppá áhöfnina á Hoffellinu og honum leist vel á. “Skipið er öflugt, vel við haldið og áhöfnin er flott” sagði hann og bætti því við að verkefnastaða Hoffellsins væri að jafnaði nokkuð góð og hann hlakkaði til að takast á við þau verkefni.

“Hefur þú komist í hann krappan á sjónum? “Nei, sem betur fer hef ég ekki gert það” svaraði skipstjórinn, “ég hef aldrei lent í sjóskaða og aldrei misst mann” sagði hann en sagði greinarhöfundi þó frá því að oft hefði Hornarfjarðarósinn yljað honum undir uggunum.  Það hafi á stundum þurft að gera allmargar tilraunir til að komast um ósinn áður en það tókst. 

En lífið er ekki eintóm sjómennska, þó að sjómennskan sé alls ekkert grín, eins og segir í dægurlagatextanum, hvað gerir Sigurður Bjarnason í tómstundum? “Ég hef mjög gaman af veiði.  Mest stunda ég stangveiði og svo veiði ég rjúpur líka” svaraði hann og bætti um betur með að segja frá þeim ám sem hann hefur rennt fyrir fisk í og fyrir amatör í hvers kyns veiðum líkt og greinarhöfundur er, má leiða að því líkum að árnar séu álíka margar og fiskimiðin sem hann hefur sótt um starfsævina.  “Og svo fótbolti, ég spilaði fótbolta með Völsungi þegar ég var ungur en nú læt ég mér nægja að fylgjast með mínum mönnum hjá Liverpool” sagði hann og brosið sem lýsti upp allt andlitið má vafalaust rekja til velgengni liðsins á dögunum “og svo hef ég gaman af því að fara á skíði” sagði hinn nýráðini skipstjóri á Hoffelli. 

En nú var tebollinn tómur, kaffið orðið kalt og fátt eitt eftir nema óska Sigga til hamingju með starfið og bjóða hann og Þóru Ragnheiði hjartanlega velkomin til Fáskrúðsfjarðar.

BÓA

Sigurður Bjarnason í brúnni á Hoffelli Su 80

Aflamet hjá Sandfelli

Sandfell Su 75 var aflahæsti línubáturinn í maí mánuði með 324,3 tonn. Þetta er líka persónulegt met þeirra Sandfellsmanna en þetta er mesti afli sem þeir hafa fengið á einum mánuði.  Fyrra met var 274 tonn. Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfelli var að vonum sáttur við aflametið og sagði að veðrið  í maí  hefði verið afskaplega hagstætt sjófarendum og þeir því verið á sjó alla dagana í maí. “Við lögðum línuna 31 sinni” sagði Örn og vildi þakka góðu gengi veðurblíðunni og þeirri staðreynd að ekkert tafði þá í sjósókninni eins og bilanir eða annað óvænt.  Aðspurður sagði Örn að auðvitað væri ánægjulegt þegar vel gengi og bætti því við áhöfnin gerði ávalt eins vel og hún gæti  en hann vildi ekki kannast við að þeir væru miklir keppnismenn um borð.  

En nú er sjórinn úfinn og vindur blæs úr norðri og þá er ekki sjólag fyrir báta á stærð við Sandfell svo að nú liggur það bundið við bryggju og bíður átekta. Þegar Örn var inntur eftir því hvað áhöfnin hefði fyrir stafni við slíkar aðstæður sagði hann að þeir væru að dytta að einu og öðru sem gæfist ekki tími til þegar fast væri sótt. Örn skipstjóri hafði líka orð á því að það væri nú all óvenjulegt að komast ekki til sjós í 5 – 6 daga samfellt í júní, og maðurinn sá veit hvað hann syngur í þeim efnum því hann hefur verið sjómaður síðan 1974.

BÓA

Sjómannadagurinn

Í tilefni Sjómannadagsins verður skipum Loðnuvinnslunnar siglt frá Frystihúsbryggjunni á laugardaginn 1. júní, kl 11:00. Almenningi er boðið að sigla með um fjörðinn. Pylsur og gos á bryggjunni í boði útgerðar !!!

Loðnuvinnslan hf og Hjálmar ehf óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær rúmlega 100 tonnum. Uppistaða aflans var þorskur, karfi og ufsi. Skipið hélt aftur til veiða um miðnættið í gærkvöldi að löndun lokinni.

Ný flæðilína væntanleg

Þegar umsvif aukast þarf oft að breyta og bæta til að mæta þeim. Frystihús Loðnuvinnslunnar hefur tekið miklum breytingum s.l ár hvað varðar tæki og búnað. Og enn er verið að bæta. Á dögunum festi LVF kaup á flæðilínu með 6 + 8 stæðum, þ.e. sitt hvoru megin við línuna, skoðunarstöð, skotbönd og önnur færibönd til að tengja roðvél við skurðavél og síðan frá flæðilínu til marningsvélar.  Búnaðurinn er allur keyptur hjá Völku í Kópavogi og verður til afhendingar þann 16.september n.k.

BÓA

Friðrik Mar Guðmundsson og Guðjón Ingi Guðjónsson sölustjóri Völku . Myndin var tekin þegar samningur um kaup á flæðilínunni var undirritaður, föstudaginn 24.maí 2019.

Hoffell

Hoffell er komið til löndunar með fullfermi af kolmunna sem fékkst í Færeysku lögsögunni. Nokkur bið verður í næsta úthald, og verður farið að sinna ýmsu viðhaldi á næstunni.