Hoffell SU

Í gærkvöld kom Hoffell til Fáskrúðsfjarðar frá Færeyjum nýmálað og fínt. Skipið er búið að vera 4 vikur í slipp í Þórshöfn.

Tekin verða veiðarfæri um borð og haldið síðan til makrílveiða.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í gær, mánudag, með rúm 90 tonn af þorski. Þarf af var 50 tonn þorskur, 35 tonn karfi og annar afli.

Nýr verkstjóri

Steinar Grétarsson er nýráðinn verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hans helsta starfssvið er að vera verkstjóri við vinnslu á uppsjávarfiski auk þess að sinna tilfallandi verkstjórn í frystihúsinu.

Steinar er ekki nýr í starfi hjá Loðnuvinnslunni, hann hefur starfað þar samanlagt í u.þ.b. 20 ár sem sjómaður, verkamaður í landi og nú síðast í vélgæslu.

Steinar er fæddur og uppalinn Fáskrúðsfirðingur, hefur búið hér við fjörðinn alla sína tíð utan skamms tíma annars staðar.  Hann fetaði veg sem margir ungir menn hafa fetað á undan honum; kláraði grunnskólann en vildi svo fara út að vinna. Þá lá beinast við að fara að vinna við fiskvinnslu, þar var næga vinnu að fá og launin bærileg. Á 17 ára afmælisdaginn fór hann síðan til sjós á skipi sem hér Klara Sveinsdóttir og förinni var heitið í Flæmska hattinn, túrinn varð ansi langur en sex mánuðum síðar kom Klara aftur til hafnar á Fáskrúðsfirði.

Steinar hóf síðan nám í vélvirkjun og fór á samning í vélsmiðju Lvf og samhliða því að vinna í smiðjunni stundaði hann afleysingar á Ljósafelli og gamla Hoffellinu þar sem hann fékk svo fasta stöðu og sjóinn stundaði hann um tíma. “Mér líkaði vel á sjó, en finnst samt betra að vera í landi. Það er alltaf best að leggjast á koddann heima hjá sér á kvöldin” sagði Steinar.

Eins og áður sagði starfaði Steinar við vélgæslu hjá Loðnuvinnslunni áður en hann tók að sér verkstjórastarfið. Í því felst að viðhalda, laga og huga að öllum vélbúnaði fyrirtækisins sem er allnokkur og fer stækkandi eftir því sem tækninni fleygir fram. “Allt frá frystitækjum til voga og allt þar á milli” svaraði Steinar þegar hann var inntur eftir því hvaða vélar það væru sem vélgæslumaður gætir.

Segja má að Steinar sé alinn upp við störf í síld, loðnu og makríl. Hann tekur við starfi sem faðir hans, Grétar Arnþórsson, hefur gengt á langt árabil. Grétar hefur lögnum verið einn helst síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar og Steinar tekur nú við keflinu og mun, ef að líkum lætur, njóta sömu velgengni og faðir hans.

Er Steinar var inntur eftir því hvort að hann væri tilbúinn í starfið svaraði hann: “já, ég er það, hluti af starfi verkstjóra við vinnslu á uppsjávarfiski er að ákveða í hvað fiskurinn fer, sér í lagi síld, á að setja hana í salt, krydd, í flök eða bita?” “Pabbi hefur reynt að kenna mér þetta í gegn um tíðina” bætti hann við kíminn.

En lífið er ekki bara vinna, það þarf líka að líta uppúr hversdagslegu amstri og Steinar var fljótur til svara þegar hann var spurður um áhugamál og hvað hann sýslaði utan vinnu. “Að vera með fjölskyldunni og helst í útilegu, það finnst mér gott og skemmtilegt. Þá skiptir tíminn engu máli, það þarf ekki að vera að gera eitthvað sérstakt, bara slaka á og njóta samvista við fólkið sitt” sagði hann og benti svo út um gluggann á stóran jeppa og bætti við: “þessi jeppi er líka áhugamál mitt, að vinna við þennan bíl sem við frændurnir (Daníel Ármannsson) eigum saman er mjög gaman, s.l. vetur skelltum við í hann nýrri vél, BMW mótor og nú er hann eins og sportbíll á 44” dekkjum” sagði Steinar og hlaut að launum aðdáunaraugnaráð greinahöfundar sem telur sig hafa nokkuð vit á jeppum.

Steinar á langveikt barn, hann og konan hans, Eydís Ósk Heimisdóttir, þurftu að dvelja mánuðum saman með stúlkubarnið á spítala í útlöndum og greinarhöfundur gat ekki látið hjá líða að spyrja Steinar að því hvort að lífreynsla sem þessi hefði breytt honum sem persónu.  “Það mótar mann, er lærdómsríkt, og það hægir á manni,  það er alveg á hreinu” svaraði hann og bætti því við fjölskyldan hefði áttað sig á því hvað þau hefðu það í raun gott miðað við aðstæður “við eigum svo gott bakland, ekki aðeins stórfjölskyluna sem stóð við bakið á okkur sem einn maður, heldur líka vinnustaðurinn, vinnufélagar og samfélagið allt hér við Fáskrúðsfjörð”.

Steinar er byrjaður í nýja starfinu, og þrátt fyrir að honum hefði líkað vel í vélgæslu starfinu fannst honum kominn tími til að breyta til og takast á við þá ábyrgð sem fylgir því að hafa mannaforráð. “Mér líst vel á þett og ég hlakka til að takast á við ný verkefni” sagði Steinar Grétarsson.

Þá er ekki annað eftir en að kveðja þennan geðþekka verkstjóra, óska honum velfarnaðar í nýju starfi og sparka léttilega í 44”hjólbarðanna í jeppanum þegar gengið var framhjá.

BÓA

Steinar Grétarsson

Hoffell SU

Senn líður að lokum 4. vikna slippferðar Hoffells til Færeyja. Áætluð heimsigling er n.k. laugardagskvöld.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn til löndunar í morgun. Aflinn er um 40. tonn þorskur og 10. tonn ýsa.

Ljósafell SU

Ljósafell kom að landi í gær, sunnudag með um 100 tonna afla. 50 tonn eru þorskur, 30 tonn karfi, 10 tonn ýsa og annar afli.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn til löndunar s.l. miðvikudag með 100 tonn. Þar af var 60 tonn þorskur, 25 tonn karfi og 15 tonn ufsi og annar afli.

Sandfell komið í 10 þúsund tonn

Þegar Sandfell kom að landi á sjálfan þjóðhátíðardaginn hafði þessi knái línubátur veitt samtals 10.000 tonn síðan hann kom til Fáskrúðsfjarðar í febrúar árið 2016. Þykir það góður árangur að fiska að jafnaði 2300 til 2400 tonn á ári.

Rafn Arnarson skipstjóri á Sandfelli sagði aðspurður að hann væri mjög sáttur við árangurinn, hann þakkaði þetta góðu samstarfi áhafnar og úrgerðar. “Sandfellið er mjög góður bátur og samstarf áhafnna er mjög gott, við vinnum þetta saman” sagði Rafn. En á Sandfellinu eru tvær áhafnir sem vinna í tvær vikur í senn.

Vegna þess glæsilega árangurs fékk áhöfnin fallega köku frá Loðnuvinnslunni sem Rafn sagði að hefði runnið ljúflega ofan í áhöfn og gesti. “Hún var mjög góð, og alltaf notalegt að fá hrós og viðurkenningu þegar vel gengur” sagði skipstjórinn.

Ekki una þeir lengi í landi, eins og segir í dægurlagatextanum, því strax að lokinni löndun, kaffi og kökusneið var farið út aftur. Og þegar Rafni skipstjóra var boðið að segja eitthvað að lokum sagði hann: “Gleðilegan þjóðhátíðardag” og við svörum að sjálfsögðu í sömu mynt og óskum Sandfellinu áframhaldandi velgengni.

BÓA

Áhöfnin á Sandfelli kampakát með kökuna
Kakan góða

Kaupfélagið styrkir

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga var haldin í Wathnesjóhúsinu þann 16.júní 2020. Líkt og endranær lét félagið  peninga af hendi rakna til góðra málefna. Samanlögð upphæð styrkja var 3,6 milljónir. Samanlagt afhentu Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrki að upphæð 22,4 milljón króna.

Fimleikadeild Leiknis fékk 1 milljón króna. Verður styrkurinn nýttur uppí kaup á dansgólfi. Um er að ræða sérstaktakan búnað sem minnkar álag á hné og liði þegar fimleikafólk gerir æfingar á gólfi.  Valborg Jónsdóttir veitti styrknum móttöku fyrir hönd deildarinnar.

Frjálsíþrótta og skíðadeild Leiknis fékk 1 milljón króna. Verður styrknum varið í að kaupa búnað sem nýtist frjálsíþróttafólki og skíðaiðkendur frá hluta af styrknum fyrir sína starfsemi. Tania Li Mellado tók á móti styrknum fyrir hönd deildarinnar.

Þá fékk afmælisnefnd Leiknis 1 milljón króna í styrk. Þórunn María Þorgrímsdóttir tók við styrknum fyrir hönd afmælisnefndar. Ungmennafélagið Leiknir fagnar 80 ára afmæli á þessu ári og er því af sömu kynslóð og Kaupfélagið, aðeins sjö árum yngra. Að vonum er ástæða til að fagna stórafmælum sem þessum með veglegum hætti og til stendur að efna til fagnaðar á haustmánuðum með skemmtiatriðum og veitingum og þá mun hluti af styrknum renna í að niðurgreiða fatnað með merki Leiknis, þar sem 80 farsælum árum er fagnað, sem og merki Kaupfélagsins. Nú þegar má sjá marga bæjarbúa, stóra sem smáa klæðast slíkum peysum og er það vel. Þarna sameinast á peysum og bolum tveir af öldungum sem hafa verið svo ríkur þáttur í lífi fólks í samfélaginu við Fáskrúðsfjörð.

Bókasafn Fáskrúðsfjarðar fékk 300.000 króna styrk til þess að kaupa húsgögn á safnið. Guðrún Gunnarsdóttir bókasafnsfræðingur tók við styrknum og sagði hún að peningunum yrði varið í að útbúa aðstöðu og umhverfi þar sem gestir safnsins gætu sest niður, flett bókum og blöðum og átt notalega stund á bókasafninu. Bókasafnið er opið öllum bæjarbúum og þangað er gott að koma.

Þá fékk Félag eldri borgara á Fáskrúðsfirði 75” sjónvarp að gjöf. Sjónvarpinu verður komið fyrir í félagsheimilinu Glaðheimum og mun að vonum nýtast félagsmönnum vel. Þórormur Óskarsson formaður tók við styrknum.

Styrkþegar eru afar þakklátir fyrir stuðningin og haft er eftir ungum íþróttaiðkanda að “það væri ömurlegt ef við ættum ekki Kaupfélag, þá væri ekki hægt að æfa neinar íþróttir”. Þarna sér barnið fegurðina í góðri samvinnu og samhug sem lítið samfélag, eins og lifir við Fáskrúðsfjörðin, vill státa sig af.

BÓA

Frá vinstri: Þórormur Óskarsson, Þórunn María Þorgrímsdóttir, Tania Li Mellado, Valborg Jónsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Steinn Jónasson stjórnarformaður.

Aðalfundur Kaupfélagsins

Aðalfundur KFFB var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16. júní 2020.  Hagnaður árið 2019 var  1.726 millj.  Eigið fé KFFB var 9.004 millj. sem er 99.8% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.
Í stjórn KFFB eru Steinn Jónasson stjórnarformaður, Elvar Óskarsson, Högni Páll Harðarson, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir og Óskar Guðmundsson. 
Varamenn Elsa Sigrún Elísdóttir, Jóna Björg Jónsdóttir og Ólafur Níels Eiríksson.

Félagsmenn fjölmenntu á fundinn og fór hann fram með hefðbundnu sniði eftir samþykktum Kaupfélagsins. Eru þær samþykktir byggðar á lögum samvinnufélaga og er í framkvæmd það sem kallað er fulltrúalýðræði. Þ.e. félagsmenn kjós sér fulltrúa til að fara með atkvæði á aðalfundi. Stjórnarformaður Steinn Jónasson fór yfir starfsemi félagsins og Friðrik Mar Guðmundsson fór yfir reikningana.

BÓA

Lvf veitir myndarlega styrki

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16.júní 2020. Var síðasta ár afar gott hjá fyrirtækinu en hagnaður þess var rúmlega 2 milljarðar króna og er það mesti hagnaður sem Loðnuvinnslan hefur skilað frá stofnun.  Og þegar vel gengur vill Lvf gjarnan að samfélagið fá að njóta afrakstursins og veitti á fundinum 18,8 milljónir í styrki til nokkurra félagasamtaka. Samanlagt afhentu Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrki að upphæð 22,4 milljón króna.

Knattspyrnudeild Leiknis fékk 11 milljónir í styrk. Magnús Ásgrímsson formaður knattspyrnudeildar tók á móti styrknum og þakkaði hann Loðnuvinnslunni kærlega fyrir dyggan stuðning í geng um árin. Meistaraflokkur knattspyrnudeildar Leiknis leikur í 1.deild þetta sumarið og kallar það á mikil ferðalög milli landshluta sem kosta peninga. Sagði Magnús að Lvf væri helsti og besti stuðningsaðili knattspyrnudeildar og án þessa sterka baklands yrði rekstur deildarinnar illmögulegur.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir í styrk til sinnar starfssemi. Smári Einarsson tók við styrknum fyrir þeirra hönd. Fer peningurinn til ferðar eða uppákomu til handa starfsfólki og er liður í þeirri viðleitni að þakka þeirra góðu störf.

Björgunarsveitin Geisli fékk 1 milljón króna. Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla  tók við styrknum fyrir þeirra hönd. Þakkaði hann vel fyrir styrkin og sagði hann mikilvægan í starfsemi björgunarsveitarinnar sem hefur lagt út í mikin kostnað við að eignast og viðhalda björgunarbátnum Hafdísi og þá hefur björgunarsveitin einnig fest kaup á svokölluðum “rescue runner”, sem eru einskonar sjóþotur, sem reynast afar vel við björgun og leitir.

Þá fékk Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar 800.000 krónur í styrk til þess að kaupa stoðtæki fyrir tölvur, búnaður sem er mikilvægur fyrir nemendur þegar þeir læra forritun og við hina ýmsu tölvuvinnslu. Nútíma námsefni. Eygló Aðalsteinsdóttir skólastjóri tók á móti styrknum og þakkaði fyrir þennan góða stuðning sem nýtast mun nemendum til framtíðar.

BÓA

Frá vinstri: Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Magnús Ásgrímsson, Smári Einarsson, Grétar Helgi Geirsson og Eygló Aðalsteinsdóttir.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16. júní 2020.  Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2019 var 2.067 millj á móti 700 millj árið 2018.  Tekjur LVF voru 12.816 millj sem er 8% aukning frá fyrra ári. Tekjur að frádregnum eigin afla voru 10.447 millj. Veltufé frá rekstri var 2.678 millj á móti 1.533 millj. 2018.  Eigið fé félagsins í árslok 2019 var 9.918 millj. sem er 52% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut.  Afkoma félagsins var mjög góð og er 2019 besta ár í sögu félagsins þrátt fyrir loðnubrest.  Allar deildir félagsins gengu vel.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa eða 140 millj.

Stjórn LVF er þannig skipuð Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Steinn Jónasson, Högni Páll Harðarsson, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir og Elsa Sigrún Elísdóttir.
Varamenn Jónína Guðrún Óskarsdóttir og Jóna Björg Jónsdóttir.

Fundurinn var allvel sóttur og greinagóð skýrsla stjórnarformanns um starfssemi síðasta árs var upplýsandi og fræðandi. Þar kom Elvar inná allar þær uppbyggingar og endurnýjanir í tækjum og búnaði sem fjárfest hefur verið í og sömuleiðis  leit hann svolítið til framtíðar, talaði um hvaða áætlanir stjórnin hefur til næstu ára. Ef allt gengur að vonum þá er verður hin bjarta nútíð Loðnuvinnslunnar að enn bjartari framtíð.

Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri fór yfir reikningana og fjallaði í stuttu máli um afla skipa og báta í rekstri fyrirtækisins, vinnsluna í landi, sölu afurða og fleira sem kemur að rekstrinum og skilar þeirri niðurstöðu sem talin er hér að ofan.

Að fundi loknum var öllum fundargestum boðið í mat á veitingastaðnum L´Abri.

BÓA