Ljósafell

Ljósafell kom til löndunar í morgunn með um 62 tonn af blönduðum afla. Allur aflinn verður seldur á fiskmarkaði að þessu sinni þar sem allt er á kafi í makrílvinnslu. Skipið siglir til Akureyrar í slipp að löndun lokinni.

Ljósafell er nú að landa um 50 tonnum og uppistaðan er þorskur. Skipið fer aftur á veiðar á morgunn kl 13:00

Hoffell

Hoffell kom að landi í morgunn með tæp 700 tonn af makríl til vinnslu.
Skipið fer aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum og er uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur til veiða í dag kl 15:00.

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í gær með um 700 tonn af makríl. Löndun klárast væntanlega í dag svo skipið kemst aftur til sömu veiða í kvöld.

Úr sveitastörfum í fiskvinnslu

Elísabet Fides Pálsdóttir er ein af fjölmörgu starfsfólki Loðnuvinnslunnar og hefur það starf með höndum að elda mat handa starfsfólki LVF og ferst það vel úr hendi.  Hollur og góður matur handa vinnandi fólki er það sem hún býður uppá enda mun það reynast satt sem segir í málshættinum góða: „matur er mannsins megin“.

Seinna nafn Elísbetar, eða Elsu eins og hún er oftast kölluð, vakti athygli greinarhöfundar og þegar Elsa var innt eftir því hvaðan Fides nafnið kæmi, svaraði hún því til að hún héti  það eftir frænku sinni sem hét þessu fallega nafni, og bætti því við að þær væru aðeins þrjár konurnar á Íslandi sem bæru þetta nafn.

Elsa er fædd í Reykjavík árið 1972. Sex ára gömul flutti hún í Skaftafellssýslu með foreldrum sínum sem gerðust þar bændur. Í íslenskri sveit sleit hún barnsskónum, við læk og laut, innan um kindur og kýr. Skóla sótti hún í Kirkjubæjarklaustur.

Á unglingsárum kynntist hún fyrrverandi eiginmanni sínum, bóndasyni úr sömu sveit, og tvítug að aldri tóku þau við búi foreldra hans. Þar var Elsa bóndi um margra ára skeið og ekki er laust við að andlit hennar lýsist svolítið upp við að rifja upp þau góðu ár. Hún ól þar upp þrjú börn, sem nú eru orðin fullorðin,  tvo drengi og eina stúlku.  En lífið er breytingum undirorpið þannig að þegar þau hjónin skildu tók Elsa þá ákvörðun að kveða kvæði sínu í kross og skella sér í fiskvinnslu austur á firði.

Elsa hefur starfað hjá LVF í þrjú ár og s.l. tvö hefur hún starfað í mötuneytinu. Hún eldar að meðaltali fyrir eitt hundrað manns á dag og býður uppá allan almennan heimilismat auk þess sem hún tekur til hressingu með kaffinu líka. „Þegar það eru svona margir í mat fæ ég góða hjálp og það er oft svo mikið líf og fjör í matsalnum“, segir Elsa, „þetta er aðal samkomustaðurinn, hingað kemur fólk til að tuða og til að hlæja og auk þess að njóta matarins nýtur það samfélgas hvert við annað“.

Hvernig líður svo sveitastelpunni við sjávarsíðuna? „Mér líður mjög vel hérna í firðinum“ svarar hún og bætir svo við að hún eigi ættir að rekja hingað á Fáskrúðsfjörð. „Langamma mín var frá Fögrueyri“ sagði hún, en Fagraeyri er eyri sunnan megin í Fáskrúðsfirði. „Ég sakna þess oft að vera ekki meira innan um dýr, en til að bæta það aðeins upp á ég tvo ketti heima. Það er svo gott að tala við dýr því þau hlusta bara“ sagði Elsa og hló sínum bjarta hlátri.

Í annríkinu í eldhúsinu þurfa handtök oft að vera snör og Elsa segist geta unnið hratt en stundum sé hún þó svolítil „brussa“. Þeirri fullyrðinu til staðfestingar segir hún svo frá:“Einn daginn var ég að opna ofninn sem var stilltur á 200° og var svo snögg að stinga hausnum inn til að athuga hversu langt eldamennskan væri komin að ég brenndist illa í nefgöngunum og á tungunni. Ég þurfti að ganga með ísmola í nefinu“ sagði Elsa og hló og bætti því við að allt hefði nú farið vel og núna væri þetta atvik sem gaman væri að rifja upp. Og sannarlega er þetta skemmtileg saga, í það minnsta gat greinarhöfundur ekki annað en brosað af tilhugsuninni um Elsu gangandi um með vatnstaumana á hökunni eftir bráðnandi ísmola í nefinu.

BÓA

 

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 50 tonnum af ufsa og karfa. Skipið fer aftur á veiðar á morgunn, föstudag 11. ágúst kl 13:00

Sandfell

Sandfell er enn að gera það gott. Báturinn landaði 8 tonnum á föstudagskvöld, 21 tonni á sunnudag og 12 tonnum á mánudag, frídag verslunarmanna.

Ljósafell

Ljósafell landaði í morgunn um 100 tonnum og var uppistaða aflans þorskur og ufsi. Skipið fór svo aftur á sjó að löndun lokinni.

Hoffell

Hoffell er að landa makríl til vinnslu í dag. Aflinn er áætlaður um 355 tonn.

Sandfell

Í júlí var afli Sandfells rúmlega 270 tonn sem verður að teljast nokkuð gott af bát af þessari stærð. Þá er báturinn kominn yfir 1000 tonn á þessu ári og því kominn í 3000 tonn frá því að hann kom til Fáskrúðsfjarðar í febrúar í fyrra. Af því tilefni var haft gott með kaffinu þegar áhöfnin landaði á Stöðvarfirði í gær.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 45 tonnum af blönduðum afla eftir stuttan túr. Fór aftur til veiða að löndun lokinni.