Hafrafell á sjó

Hafrafell Su 85 er krókaaflamarksbátur sem Loðnuvinnslan eignaðist í haust. Og nú þegar hráefnisskortur er á mörkuðum sem og í Frystihúsi LVF var ákveðið að senda Hafrafellið til sjós. Skipstjóri er Guðni Ársælsson og með honum um borð er Sverrir Gestsson. „Það gekk mjög vel, kannski bara of vel“ svaraði Guðni þegar hann var inntur eftir því hvernig fyrsti túrinn hefði gengið. „Í gamla daga höfðu menn þá hjátrú að best væri ef fyrsti túr gengi svolítið brösulega, þá yrði framhaldið betra, en við erum mjög sáttir við gott gengi“. Hafrafellið kom að landi með u.þ.b. 4 ½ tonn úr þessum fyrsta túr sem verður að teljast góður árangur.

En til að koma svona bát á sjó þarf fólk í landi til vinna við línur og króka.  Í bryggjuhúsinu á Tangabryggjunni er búið að koma upp aðstöðu til að stokka upp línur þar sem ekki er slík aðstaða um borð.  Þar vinna tveir menn við uppstokkun þeir Ari Sveinsson og Guðjón Gíslason. „Við stokkum bara upp, við þurfum ekki að beita því það er beitningatrekt um borð í Hafrafellinu“ sagði Ari landformaður, en hér áður fyrr var það starfsheiti þeirra sem báru ábyrgð á línum og beitu. Ari sagði að mikill gestagangur væri búin að vera í skúrinn til þeirra í dag,  „það eru margir sem hafa gaman af því að kíkja við og líta á þessi handbrögð sem eru smátt og smátt að hverfa með aukinni tækni“ sagði Ari um leið og hann splæsti auga á línuenda.

Aflanum sem Hafrafellið kom með var landað á Stöðvarfirði og þaðan var honum ekið í Frystihúsið á Fáskrúðsfirði. „ það spáir brælu í nótt, svo við förum ekki út aftur fyrr en í fyrramálið“ sagði skipstjórnn er hann var spurður að því hvænær ætti að leggja úr höfn í nýjan túr, „ef ekki væri fyrir bræluna myndum við bara stoppa í svona fjóra tíma og fara svo aftur“.  Og í þessu samhengi rifjaði Guðni upp sögu af trillukarli einum sem hafði ungan mann með sér á sjónum. Það var stíft sótt og lítið um hvíld. Þegar ungi maðurinn fór að inna karlinn eftir því hvort að ekki færi að koma frí svaraði karlinn: „hvað er þetta drengur, getur þú ekki vakað eina vorvertíð“.

BÓA

Viðurkenningar

Nýlega tók Friðrik Guðmundsson framkvæmdastjóri við viðurkenningum frá Creditinfo fyrir hönd Loðnuvinnslunnar hf og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Viðurkenningin nefnist “framúrskarandi fyrirtæki 2016” en aðeins um 1,7% Íslenskra fyrirtækja standast þær kröfur sem gerðar eru til að öðlast þessa viðurkenningu. Af þeim 624 fyrirtækjum sem fengu, þá var Loðnuvinnslan hf í 25. sæti 2016, og hafði hækkað um 11 sæti frá fyrra ári. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er í 31. sæti 2016.

Líf í frystihúsinu

Þrátt fyrir yfirstandandi verkfall sjómanna hefur verið unnið í Frystihúsinu undanfarna tvo daga. Aflinn kom frá krókaaflamarksbátnum Dögg Su 118. Sjómennirnir á Dögginni eru í Landsambandi smábátaeigenda og eru því ekki í verkfalli.  „Að fá þennan afla til vinnslu er mjög mikilvægt fyrir okkur“ segir Þorri Magnússon framleiðslustjóri „sérstaklega það að starfsfólkið fái vinnu, svo þurfum við að bjarga okkar viðskiptavinum um fisk, þ.e. að fylla uppí samninga sem þegar hafa verið gerðir“. Starfsfólk Frystihússins hefur verið atvinnulaust undanfarnar vikur og sagði Þorri að allir hefðu mætt glaðir og kátir til vinnu og að vel hefði verið mætt.

Frystihúsið hefur gengið í gegnum miklar breytingar síðan í sumar. Keyptar voru svokallaðar vatnsskurðavélar sem taka við af mannshöndinni við að skera fiskinn. Aðspurður svaraði Þorri að vélarnar reyndust vonum framar og t.a.m. skiluðu útlitsfegurri afurð en mannshöndin náði að gera. Með tilkomu þessa véla munu afköst aukast og þar með muni einstaklingsbónus hækka svo að ávinningur er fyrir bæði starfsfólk og fyrirtæki, auk þess munu skapast fjölbreyttari störf á vertíðartímum.

„Nú höldum við bara ótrauð áfram“ sagði Þorri Magnússon framleiðslustjóri, „það mæta allir til vinnu á mánudaginn og vonandi gengur okkur vel að ná okkur í hráefni til vinnslu þangað til verkfall sjómanna leysist og skip Loðnuvinnslunnar halda til hafs á ný“.

BÓA

Mjölskip

Flutningaskipið Laxfoss lestaði 1.650 tonn af fiskimjöli á Fáskrúðsfirði í gær.

Sandfell

Sandfell landaði á Djúpavogi 2. maí, 10 tonn.

3. maí, 11,8 tonn og 4. maí 6,8 tonn. Aflinn hefur að mestu verið unninn í Frystihúsi LVF.

“Áströlsku stelpurnar”

Þann 19.janúar 1977 kom fyrsti hópurinn af „áströlsku stelpunum“  til Fáskrúðsfjarðar til þess að vinna í fiski og eru því full 40 ár síðan.   Í allmörg ár eftir það komu hópar til sömu vinnu og voru ávalt kallaðar „áströlsku stelpurnar“ þó að staðreyndin væri sú að þær komu frá hinum ýmsu löndum. Að þessu tilefni spjallaði undirrituð við Esther Brune sem kom til Fáskrúðsfjarðar 13.janúar 1981. Esther ásamt tveimur vinkonum sínum ákváðu að fara á vit ævintýrana sem þá fólst í því að þær réðu sig til vinnu í fiski einhversstaðar á Íslandi. Fóru þessar ráðningar fram í gegn um umboðsskrifstofu í London og þegar stúlkurnar réðu sig til starfa vissu þær ekki hvar á Íslandi þær myndu hafna. Ráðingin var uppá sex mánuði í senn. „Við vinkonurnar vildum fara til Íslands og vinna í fiski í sex mánuði, safna okkur peningum og fara svo í ferðalag um Evrópu“ sagði Esther þegar hún var spurð hvers vegna hún hefði kosið að koma til Íslands.  „Og við gerðum það, keyptum okkur „rúgbrauð“ bifreið og ferðuðumst um Evrópu“ bætti hún við dreymin á svip.

Í hópnum sem kom í janúar árið 1981 voru ungar konur frá Ástralíu, Englandi, vinkonurnar þrjár frá Suður-Afríku en flestar komu fá Nýja Sjálandi. Eftir undirritun samnings í London, þar sem ungu konurnar þurftu líka að fara í læknisskoðun,  lá leiðin til Reykjavíkur þar sem gist var hjá Hjálpræðishernum, sú dvöl var einni nótt lengur en áætlað var vegna veðurs. Þaðan var farið með flugi til Egilsstaða þar sem rúta beið þeirra og ekið var til Reyðarfjarðar og gist á hótel Búðareyri, sem þá var og hét. Veðrið var með þeim hættinum að ekki var hægt að komast lengra fyrr en næsta dag og þá loks komu þær til Fáskrúðsfjarðar. Allt var þakið snjó og margar úr hópnum höfðu ekki séð snjó áður og var Esther ein að þeim. „Þetta var allt svo öðruvísi og skrítið, bara það að það voru engin tré þótti okkur mjög skrítið“

Það var ekki mikið um að vera í litlu íslensku sjávarþorpi fyrir hóp af ungum konum svo að þær voru duglegar að gera sér dagamun sjálfar. Elda fínan mat og leggja fallega á borð, svo höfðu þær búningakvöld þar sem þær dunduðu sér við að búa til einhverja búninga á sig úr því sem þær náðu í.  Þær voru líka fjótar að kynnast fólki. Auðvitað samstarfsfólki sem tók þeim öllum vel og spjallaði þrátt fyrir að tala ekki sama tungumál að ógleymdu unga fólkinu, sér í lagi ungu mönnunum, sem voru duglegir að heimsækja þær og halda þeim félagskap. Í verbúðina Valhöll var líka ráðinn ungur maður til að „gæta“ þeirra. Umræddur ungi maður og Esther rugluðu saman reitum sínum og gera enn 40 árum síðar.

Aðspurð að því hvort að það hafi verið auðveld ákvörðun að setjast að svona fjarri heimahögum í Suður-Afríku svaraði Esther: „aldeilis ekki, það var mjög erfið ákvörðun. Í heimalandinu var allt sem ég þekkti og þótti vænt um, fjölskylda og vinir en í  fjarlæga kalda Íslandi var ástin, þetta var alls ekki auðvelt, en ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni“.  „En það sem var erfiðast að venjast var veðurfarið, á veturnar var það dumbungurinn og gráminn en á sumrin var það birtan, það kom ekki nótt. Það tók mig um það bil 10 ár að venjast þessu og nú læt ég ekki veðrið á mig fá, ég gleðst yfir fallegri birtu hvort heldur að vetri eða sumri eins og aðrir Íslendingar“ sagði Esther Brune sem hóf sína göngu hér á Fáskrúðsfirði sem „áströlsk stelpa“.

BÓA

Green Frost

Green Frost lestaði í gær um 455 tonn af loðnuhrognum og 100 tonn af makrílafurðum. Skipað var út úr nýja frystiklefanum og lestaði skipið við löndunarbryggu fiskimjölsverksmiðjunnar.

Nýr lágtíðnisónar í Hoffellinu

Sífelld þróun er í fiskileitartækjum rétt eins og öðrum tækjum. Hoffellið fékk á dögunum nýjan tækjakost, svokallaðan lágtíðnisónar. Tæki þetta heitir Simrad SU 90 og býr yfir þeim eiginleika að  það sendir bæði lárétta og lóðrétta geisla sem þýðir að ekki er nauðsynlegt að vera yfir fiskitorfu til að sjá hana því tækið horfir samtímis niður og til hliðar.  Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffellinu segir tækið leysa af hólmi eldra tæki sem ekki var nærri eins fullkomið. „Þetta tæki mun nýtast við alla uppsjávarveiði“ sagði Bergur en tók það líka skýrt fram að enn hefur tækið ekki verið prófað  við veiðar vegna  sjómannaverkfallsins sem nú er yfirstandandi.  Bergur sagði svona sónartæki gera skipstjórnendum kleift að leita af fiskitorfum á miklu stærra svæði í einu heldur en áður. Þessi sónar getur leitað í 3000 metra radíus og við bestu hugsanlegu aðstæður allt uppí 8000 metra,  en gamla tækið náði aðeins að skanna um 950 til 1200 metra radíus. „Nú hlakka ég bara til að komast til sjós og sjá við raunaðstæður hvernig þetta sónartæki virkar“ sagði skipstjórinn knái Bergur Einarsson að lokum.

Mjölútskipun

Búið er að skipa út rúmum 1.300 tonnum í mjölskipið Arion. Mjölið fer til Noregs. Von er á öðru skipi síðar í mánuðinum og mun það taka um 1.600 tonn af mjöli

Gleðileg jól

Loðnuvinnslan hf óskar starfsfólki og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökkum fyrir samstarfið á árinu. Óskum einnig viðskiptavinum gleðilegra jóla með þökk fyrir viðskiptin á árinu.

Vinnum verkið heima

Um jól og áramót nota margir tímann til góðra verka. Þar á meðal er Bergsteinn Ingólfsson yfirvélstjóri á Ljósafellinu og samverkamenn hans í vélarrúminu. „Við erum að taka upp vélina“ sagði Bergsteinn, „ og tilgangurinn er að skoða aðalvélahluta eins og hedd og slífar, hluti vélarinnar sem við getum ekki skoðað nema taka hana í sundur“.  Verkið er allt unnið í heimabyggð af starfsmönnum Vélaverkstæðis LVF undir dyggri stjórn hins unga yfirvélstjóra og öllu á að vera lokið þann 1.janúar 2017. Þá verður happafleyinu Ljósafelli ekkert að vanbúnaði að halda til hafs með nýsmurða og yfirfarna vél.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 600 tonnum af síld til söltunar og frystingar. Með því er síldveiðum lokið þetta árið. Skipið fer nú til Akureyrar til að sinna hefðbundnu viðhaldi um jól og áramót. (eins og í fyrra )