Key Breeze

Key Breeze er að taka tæp 2.900 tonn af lýsi til Evrópu.

Sandfell og Hafrafell á toppnum

Listi númer 2,

bátar yfir 21 BT í júní.nr.2.2022

Roslaega lítið um að vera og veiðin hjá  bátunum ekkert til þess að hrópa húrra fyrir

kemur ekki á óvart enn Sandfell SU með 16,7 tonn í 3 og kominn yfir 100 tonnin.

Hafrafell SU 19,3 tonn í 2

Kristján HF 17,9 tonní 2

Háey I ÞH 11,6 tonn í 2

Óli á Stað GK 8,3 tonn í 2

Ljósafell með 90 tonn

Ljósafell kom inn í morgun með 90 tonn, aflinn var 43 tonn þorskur, 25 tonn ufsi, 13 tonn ýsa, 5 tonn karfi og annar afli.
Skipið fer út aftur kl. 13 á morgun.

Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson


Nýtt Hoffell komið til heimahafnar

Fáskrúðsfjörður skartaði sínu fegursta í dag þegar nýtt uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar sigldi fyrsta sinni til nýrrar heimahafnar. Skipið hefur fengið nafnið Hoffell og leysir af hólmi eldra skip Loðnuvinnslunnar sem bar sama nafn.

Margir stóðu á bryggjunni og fögnuðu komu skipsins, séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir blessaði skip og áhöfn, Fanney Linda Kristinsdóttir, starfsmaður Loðnuvinnslunnar,  gaf skipinu nafnið Hoffell og síðan fluttu ávörp þau Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri LVF og Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri.  Þá var öllum viðstöddum boðið að ganga um borð, skoða skipið og þiggja veitingar.

Nýja Hoffellið er fagur grænt líkt og hið eldra, stærra, sterkara og betra að öllu leiti, enda var það markmiðið með skipaskiptunum, að betrumbæta og endurnýja.

Skipið er smíðað í Danmörk árið 2008 og er 2.530 rúmmetrar og ber u.þ.b. 2500 tonn af afla sem er all nokkuð  stærra en fyrra skip.

Kjartan Reynisson er útgerðarstjóri LVF og var að vonum sporléttur og brosmildur í tilefni dagsins. Hann sagði nýja skipið væri umtalsvert lengra og breiðara og burðargeta þess væri um 53% meiri heldur en fyrra Hoffell.  „Stóra málið fyrir okkur er að sækja meiri afla í færri ferðum og gildir það jafnt hvort heldur við erum að veiða kolmunna eða makríl og þó sér í lagi á loðnuveiðum þar sem hrogna tíminn er takmarkaður“ sagði Kjartan. Þá nefndi hann það líka að olíueyðsla á veitt tonn yrði minni á þessu nýja skipi.

Sigurður Bjarnason er skipstjóri á Hoffelli og kom siglandi á því frá Florö í Noregi, þar sem það var tekið í slipp og málað,  til Íslands og sagði hann skipið láta afar vel í sjó. „Ég er mjög ánægður með skipið, það er ekki hægt annað“ sagði skipstjórinn og lét þess getið að það hefði verið bræla nánast alla leið milli Noregs og Íslands og skipið hefði látið vel í sjó og farið mjög vel með mannskapinn.  Hann sagði líka að skipið væri vel tækum búið og  nú væri bara að klára formsatriði varðandi skráningu skipsins á Íslandi og skoðun á búnaði og að því loknu yrði siglt beint á makrílveiðar.  „Ég hef góða tilfinningu gangvart þessu skipi, og er með góða áhöfn, ég geri ekkert einn“ sagði Sigurður skipstjóri og gekk um boð síðastur manna.

Smári Einarsson er skipverji á Hoffelli og greinarhöfundur greip hann á bryggjunni og spurði hvernig honum litist á að vinna á nýju skipi. „Mér líst mjög vel á það“ sagði Smári, „þetta er gott skip, betri vinnuaðstaða að öllu leiti og það var mjög gott í brælunni á leiðinni heim“ sagði hann og bætti svo við „þetta skip var í brælu eins og hitt í blíðu“.

Högni Páll Harðarson er yfirvélstjóri og hans ríki er mest í iðrum skipsins. Þar er Mak aðalvél sem er 8100 hestöfl auk tveggja ljósavéla sem eru um 1200 hestöfl hvor og svo sú þriðja  sem er nokkuð minni. Högni sagði að starf vélstjóra væri í raun hið sama þó svo að skipið væri stærra, þó sannarlega væri verið að vinna með nýrri búnað og tæki. „Starfið felst að stóru leiti í vöktun á búnaði, sinna viðvörunum ef þær gera vart við sig alls konar græjum er snýr beint að aflanum eins og að undirbúa lestar, kæla sjó og kæla aflann“.  Þá sagði Högni að skipið væri töluvert öflugra en hið eldra og stöðugra. „Það getur reynst erfitt að sinna viðhaldi ef maður þarf að nota aðra höndina til þess að halda sér því skipið veltur svo mikið“ sagði yfirvélstjórinn og bætti svo við kankvís  „stundum skiptir stærðin máli“.

Allt virðist vera rúmgott í þessu stóra skipi, hvergi þarf að smeygja sér eða troða og á yfirferð um skipið gekk greinarhöfundur fram á mótorhjól, tryggilega fest niður og auðvitað vakti það forvitni. Getur verið að þegar áhöfn Hoffells sagði að í því væri allt til alls  að mótorhjól væri hluti af því?.  En sú reyndist ekki raunin.

Högni Páll hefur lengi stundað sjómennsku en tók hlé á sjómennskunni um nokkurra ára skeið og vann í landi. Árið 2020 ákvað hann að hætta að vinna og fara að njóta lífsins lystisemda, sem í hans tilviki er að ferðast um á mótorhjóli. Hann fór ásamt konu sinni í 2ja mánaða ferðalag sem þau enduðu í Osló og ákváðu að geyma hjólin þar, skreppa heim og taka síðan upp þráðinn og halda ferðinni áfram. En allt kom fyrir ekki, heimsfaraldur setti þar strik í reikninginn og tveimur árum síðar voru hjólin enn í Osló. Það kom þó ekki að sök því hjónin eiga fleiri hjól upp á að hlaupa svo ekki féll mikið ryk á hjálmana. „Formúlan um það hversu mörg hjól mótorhjóla manneskja þarf er N + 1, þar sem N stendur fyrir núverandi fjöldi“ upplýsti Högni Páll og greinarhöfundur tók þessari formúlu fegins hendi og sá fyrir sér að þessa formúlu megi færa upp á skó, hljóðfæri eða hvað annað sem mannveru langar að eiga í meira en einu eintaki. Högni Páll skrapp svo til Oslo í maí og náði í hjólið sitt  en sá sér svo leik á borði þegar hann var í Noregi að sækja Hoffell að fljúga yfir til Osló og aka hjólinu til Florö og hífði það svo bara um borð.

Það er stór dagur í byggðarlagi sem hefur afkomu sína af sjávarútvegi að fá nýtt skip til heimahafnar og full ástæða til að óska öllum íbúum til hamingju. En sérstakar kveðjur og óskir fær áhöfn og skip, megi framtíðin vera ykkur farsæl og fengsæl.

Föðurland vort hálft er hafið,

helgað þúsund feðra dáð.

Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,

þar mun verða stríðið háð.

Yfir logn og banabylgju

bjarma skín af Drottins náð.

Föðurland vort hálft er hafið,

hetjulífi og dauða skráð.

(Jón Magnússon)

BÓA

Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson
Hoffell komið að bryggju, fánum prýtt.
Mótorhjólið víðförla.

Nýtt Hoffell SU-80 siglir inn í brakandi blíðu

Það var sannkölluð rjómablíða þegar nýtt og glæsilegt Hoffell sigldi inn fjörðinn rétt fyrir kl 10:00 í morgun.

Í dag kl. 14:00 verður móttökuathöfn við Bæjarbryggjuna þar sem hið glæsilega skip verður blessað og því gefið nafn. Að athöfn lokinni verður skipið til sýnis og eru allir velkomnir. Sjómenn úr áhöfninni munu fara um skipið með gestum.

Við hvetjum Fáskrúðsfirðinga ásamt íbúum Fjarðabyggðar og aðra gesti til að koma og samgleðjast með okkur á þessum stóru tímamótum í sögu fyrirtækisins.

Hér siglir skipið inn fjörðinn ný málað og glæsilegt með fajllið Hoffell í baksýn. Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Fákrúðsfjörður skartar sínu fegursta er hann tekur á móti glæsilegu uppsjávarskipi Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósmynd: Óskar Þór Guðmundsson
Ljósmynd: Óskar Þór Guðmundsson

Ingólfur hengir upp hattinn

Ingólfur Hjaltason er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði.  Hann er einn af átta systkinum og hér í þessum firði hefur hann dvalið mestan part lífs síns og segir sjálfur að hann sé “heimaríkur  og mikill Fáskrúðsfirðingur”.  Hann sagðist líta á það sem forréttindi að geta unnið svona nálægt heimilinu og geta gengið í vinnuna.

Hann stundaði nám í vélvirkjun í Iðnskólanum á Neskaupsstað og Iðnskólanum Í Hafnarfirði og útskrifaðist þaðan. Ingólfur sagði það hafa verið hálfgerð tilviljun að hann hóf nám í vélvirkjun á sínum tíma en þannig hafi það verið að þegar hann var 19 ára gamall hafi Jón Erlingur (Guðmundsson, þá útgerðarstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga) komið að máli við sig og sagt rétt sí svona: “finnst þér nú ekki kominn tími til að hætta þessu rugli Ingólfur minn. Viltu ekki koma á samning í smiðjunni”?  Var Jón Erlingur þarna að vísa til lifnaðarhátta Ingólfs sem ungur maður.  Ingólfur skellti sér á samning hjá Alberti Kemp og þar með hófst starf hans hjá Kaupfélaginu og síðar Loðnuvinnslunni.   

“Mér hefur liðið vel hjá fyrirtækinu og velti því aldrei fyrir mér í neinni alvöru að flytja mig um set” segir Ingólfur og hlær við. 

En nú er komið að leikslokum, Ingólfur hefur hengt upp hattinn sinn eftir 47 ára starf.

En þessi 66 ára gamli maður er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og gæti eflaust unnið einhverja áratugi til viðbótar hefði hann kært hann sig um. En af hverju að hætta og hvað tekur við? „Þetta var orðið gott og tímabært að yngri menn tækju við keflinu. Ég var orðin þreyttur á mikilli vinnu og vildi hætta á meðan ég hefði enn heilsu til að gera allt þetta skemmtilega, og nú ætla ég að einbeita mér að áhugamálum mínum“ svaraði Ingólfur.  En vinnan var skemmtileg, og ég hef verið svo lánsamur að vinna með góðum mönnum og lærlingarnir eru á bilinu 20 til 30 sem ég hef kennt og leiðbeint.  

Áhugamál Ingólfs eru mörg, eins og ræktun af ýmsu tagi eins og glögglega má sjá allt í kring um heimilið, blóm í öllum regnbogans litum sem Ingólfur fóstrar frá fræjum og laukum til blómstrandi plantna og tré sem mynda voldugan skjólgarð fyrir gróðurhúsið.  Þá hefur Ingólfur unun af útivist og hreyfingu hvers konar. Og á sínum yngri árum var hann liðtækur fótboltamaður og spilaði fótbolta með Leikni auk þess að spila t.d. í Færeyjum eitt sumar.  Þar að auki starfaði hann sem dómari í flestum deildum knattspyrnunnar í 30 ár.  Þegar hann setti skóna á hilluna og hætti að starfa sem dómari hlaut hann gullmerki KSÍ fyrir vel unnin störf við dómgæslu. Á heimasíðu KSÍ er þetta sagt um gullmerkið:  “Heiðursmerki þetta veitist aðeins þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingamikil störf.” Svo þarna hlaut Ingólfur mikinn heiður og var vel að honum kominn.  

Þó svo að Ingólfur hlaupi ekki lengur á eftir bolta, þá er hann á sífelldri hreyfingu, hann gengur og hjólar og er búinn að fá sér kayak sem hann rær á. „Maður reynir að velja heilbrigt líferni til þess að teygja aðeins á þessu lífi“ segir Ingólfur og brosir.

Hann hefur líka gaman af því að ferðast, Kína, Bali, Kúba, Bahama eru meðal þeirra landa sem hann hefur heimsótt. Og honum þykir líka gaman að ferðast innanlands með hjólhýsið í eftirdragi. „En nú hef ég mikið meiri tíma til að ferðast heldur en Steina (eiginkona Ingólfs er Steinunn Elísdóttir) því hún er enn að vinna, ég sendi henni þá bara kort“  laumaði Ingólfur út úr sér og uppskar hlátur frá greinarhöfundi.  “Þá er alveg dásamlegt að fá barnabörnin í heimsókn” segir hann og fær þetta blik í augað sem afar og ömmur gjarnan fá þegar talið berst að barnabörnum.

Þegar greinarhöfundur leitaði Ingólf uppi til að eiga við hann stutt spjall  fannst hann upp í stiga að pússa þakskeggið, rykugur upp yfir haus en glaður og reifur og sagði: „það besta við að hætta að vinna er að ég get valið í hvað dagurinn fer“.  Og er það ekki einmitt málið, að reyna að vernda líf og heilsu svo að við getum öll, á einhverjum tímapunkti, valið hvað dagurinn fer í.

BÓA

Hjónin Ingólfur Hjaltason og Steinunn Björg Elísdóttir, harðir stuðningsmenn íslenska knattspyrnulandsliðsins
Bakgarðurinn hjá Ingólfi og allar fallegu pönturnar sem hann ræktar.

Nýtt Hoffell – móttökuathöfn

Sunnudaginn 19. júní siglir nýtt Hoffell SU-80 inn Fáskrúðsfjörð og að því tilefni verður efnt til móttökuathafnar kl. 14:00 þar sem hið glæsilega skip verður blessað og því gefið nafn.

Að athöfn lokinni verður skipið til sýnis og eru allir velkomnir. Sjómenn úr áhöfninni munu fara um skipið með gestum.

Við hvetjum Fáskrúðsfirðinga ásamt íbúum Fjarðabyggðar og aðra gesti til að koma og samgleðjast með okkur á þessum stóru tímamótum í sögu fyrirtækisins.  

Ljósmynd: Tekin í dag 16.06.2022 af Sigurði Bjarnasyni, skipstjóra.

Nýtt Hoffell að taka á sig mynd

Spennan er farin að magnast fyrir heimkomu nýs Hoffells sem er heldur betur að taka á sig mynd þessa dagana. En þessa mynd tók útgerðarstjórinn, Kjartan, í Noregi í gær.

Ljósmynd: Kjartan Reynisson

Byrjar vel í júní

Bátar Loðnuvinnslunar byrja sem fyrr á toppnum og lika búnir að fara í flesta róðranna auk Jónínu Brynju ÍS 

Tryggvi Eðvarðs SH með stærsta róðurinn enn sem komið er um 27 tonn,

nokkrir bátar komnir á Siglufjörð

Bíldsey SH mynd Gísli Hauksson
Sæti áðurNafnHeildarafliRóðrarMesti afliHöfn
1Sandfell SU 7584.0818.9Stöðvarfjörður, Fáskrúðsfjörður
2Hafrafell SU 6571.1721.4Stöðvarfjörður, Neskaupstaður, Fáskrúðsfjörður
3Kristján HF 10059.9616.7Neskaupstaður
4Tryggvi Eðvarðs SH 254.4426.8Ólafsvík
5Fríða Dagmar ÍS 10348.6612.6Bolungarvík
6Einar Guðnason ÍS 30340.6512.0Suðureyri
7Jónína Brynja ÍS 5537.979.0Bolungarvík
8Háey I ÞH 29528.5410.8Raufarhöfn
9Óli á Stað GK 9927.766.2Siglufjörður
10Gullhólmi SH 20122.4212.4Siglufjörður
11Vigur SF 8017.4117.4Hornafjörður
12Bíldsey SH 6510.0110.0Siglufjörður

Vel heppnuð Sjómannadagshelgi að baki

Það er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið með Fáskrúðsfirðingum þessa helgi þar sem veðurspáin um úrhellisrigningu gekk ekki eftir og fengu gestir okkar flott veður í Sjómannadagssiglingunni. Eftir löndun úr Ljósafelli á laugardagsmorgun fór áhöfnin beint í að þrífa skipið hátt og lágt áður en gestum var boðið að koma um borð og í siglingu út fjörðinn. Að vanda var boðið uppá gos og getterí sem tilheyrir þessum degi og mátti sjá bros í andliti barnanna sem virtust skemmta sér vel í siglingunni.

Um kvöldið hélt starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar veglega skemmtun fyrir starfsólk sitt í félagsheimilinu Skrúð þar sem Jógvan Hansen var veislustjóri og spilaði hann ásamt Jóni Hilmari Kárasyni og hljómsveit fram á nótt. Allir virtust skemmta sér konunglega og var mikil ánægja starfsfólks með þessa skemmtun. Sjórn starfsmannafélagsins tilkynnti einnig að Sjóamnnadagsskemmtunin væri komin til að vera. Meðal skemmtiatriða var að setja saman hljómsveit með Jógvani og Jóni Hilmari sem tóku síðan lagið Smoke on the water með Deep Purple, þetta vakti mikla lukku og tókst þetta atriði einstaklega vel.

Á sjálfan Sjómannadaginn var hátíðleg messa í Fáskrúðsfjarðarkirkju þar sem var mjög góð mæting, gestir héldu síðan í veglegt kaffihlaðborð sem Slysó konur stóðu fyrir í Skólamiðstöðinni.

Ljósafell SU-70 á siglingu ásamt Björgunarsveitinni Geisla. Mynd Fjóla Þorsteinsdóttir.
Börnin brostu sínu breiðasta og hver veit nema þau verði framtíðar sjómenn okkar Fáskrúðsfirðinga. Á myndinni er Emil Eide ásamt félögum.
Loðnuvinnslubandið að covera Deep Purple á vel heppnaðri Sjómannadagsgleði í Skrúði. Bandið var skipað af Jóni Hilmari á gítar, Friðrik Mar á trommur, Magnea María á bassa, Fannar Haukur á hljómborð og Jógvan Hansen sá um sönginn.
Sjómenn gengu úr kirkju með blómsveig, sem lagður var við minnisvarðann um drukknaða sjómenn og þá sem látist hafa við störf sín til sjós. Þar er vaninn að enda sjómannadagsmessuna með stuttri bænastund og söng. Á myndinni frá vinstri til hægri má sjá Eðvarð Þór, séra Alfreð Örn, Berglindi Ósk, Andra Snæ, Elsu Sigrúnu, Kristel Ben og Ingigerði Jónsdóttur.

Ljósmynd: Sverrir Gestsson

Á myndinni má sjá Gunnar Óla Ólafsson til vinstri og honum við hlið stendur Eðvarð Þór Grétarsson, saman lögðu þeir fallegan blómsveig við minnisvarða um þá sem látist hafa við störf sín til sjós.
Veglegt kaffihlaðborð á vegum Slysavarnardeildarinnar Hafdísar