Ljósafell

Ljósafell landaði rúmum 100 tonnum á sunnudag 1. desember. Uppistaða aflans var ufsi og karfi sem fór á markaði. Ljósafell var svo mætt aftur í morgunn 5. desember með um 40 tonn, aðallega þrosk til vinnslu í frystihús LVF. Brottför aftur í dag kl 18:00.

Línubátar

Línubátarnir Sandfell SU 75 og Hafrafell SU 65 hafa lagt upp talsverðan afla í nóvember. Sandfellið var samtals með 248 tonn í mánuðinum og fóru 215 tonn af því í vinnslu í frystihús LVF. Hafrafellið var með samtals 218 tonn í mánuðinum og fóru af því 185 tonn til vinnslu í frystihús LVF.

Hoffell

Í dag klárast að landa um 750 tonnum af síld úr Hoffelli. Aflinn hefur farið til söltunar. Skipið heldur aftur til sömu veiða nú að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa. Aflinn er um 85 tonn og uppistaðan þorskur til vinnslu í frystihúsi LVF. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, miðvikudaginn 27. nóvember kl 13:00

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 640 tonnum af síld til söltunar. Skipið heldur aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Síldarverkun

Grétar Arnþórsson er verkstjóri síldarverkunar hjá Loðnuvinnslunni. Óhætt er að fullyrða að hann sé einn helst síldarsérfræðingur fyrirtækisins.  Og núna er mikið að gera hjá Grétari við að stjórna vinnu við 650 tonn af síld sem Hoffell kom með að landi að kvöldi sunnudagsins 17. nóvember.  Um er að ræða íslenska síld sem er sumargotsíld og skilur þar á milli norsk- íslensku síldarinnar sem er vorgotssíld. Því eru þessir mánuðir snemma vetrar aðal veiðitími íslensku síldarinnar.  

Grétar sagði síldina vera fína og er hún söltuð í flök og bita fyrir Kanada markað sem og Svíþjóð og Danmörk.  Gæðaeftirlit með vinnslu á síld, sem og öðrum framleiðslum LVF, er mikið. Teknar eru síendurteknar prufur þar sem gæðin eru skrásett og haldið til haga. Og þegar Grétar var inntur eftir því hvernig gengi í vinnslunni sagði hann að það gengi vel. Vinnslan er vel búin tækjum og vélum og mannshöndin þarf lítið að koma þar að nema til eftirlits og til að mata vélarnar á hráefni. Greinarhöfundur og Grétar ræddu litla stund um breytta tíma í síldarverkun, breytinguna frá þeim tíma að konur stóðu og skáru og söltuðu síld og karlar sáu um  önnur störf í kring. Þá var hægt að spjalla saman og gjarnan kallað hátt þegar það vantaði tunnu eða salt. En nútíminn er annar, nú sinna bæði konur og karlar vélunum og vegna hávaða er ekki hægt að spjalla við vinnuna, “en þetta er samt miklu betra” sagði Grétar “hin aðferðin var miklu erfiðari”.  Nú hefur starfsfólk á höfðinu græjur til þess að hlusta á það sem það kýs og spjallar saman í kaffi- og matartímum.

Grétar áætlar að Loðnuvinnslan muni salta í u.þ.b 17.000 tunnur á þessu ári en  þessi törn mun taka þrjá daga, þá verður hlé á síldarvinnslu þangað til Hoffell kemur aftur að landi með nýjan skammt. Þannig gengur hjólið.

BÓA

Grétar Arnþórsson

Síldin er að koma

Hoffell er á landleið með um 650 tonn af síld. Verður skipið í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um kl. 19.00 sunnudaginn 17.nóvember.

Er þetta fyrsti túr Sigurður Bjarnasonar skipstjóra á Hoffelli við veiðar á íslenskri síld. Að því tilefni sló greinarhöfundur á þráðinn til Sigurðar þar sem Hoffell var á siglingu úti fyrir Stokksnesi.  Þegar skipstjórinn var spurður um hvernig túrinn hefði gengið svaraði hann: “Ekkert sérstaklega vel, við lentum í brasi með veiðafærin og þurftum að skipta um troll í miðjum túrnum” og það ku vera nokkuð bras að gera slíkt á hafi úti.  “Svo lentum við í brælum inná á milli svo að þess túr var nokkuð brösóttur” bætti Sigurður við. En það var enginn vonleysis tónn í skipstjóranum, “það fer vel um okkur um borð og skipið er gott, þó svo það hefði mátt ganga betur”.

Síldin er 310 til 340 grömm að þyngd og þykir það meðalfiskur fyrir íslenska stofninn og var aflinn fenginn djúpt vestur af Reykjanesi. Aflinn fer allur til söltunar.

Sigurður reiknar með u.þ.b tveimur dögum í löndun og síðan verður stefnan tekin aftur á miðin og þá er viðbúið að allt muni ganga betur.

BÓA

Sigurður Bjarnason skipstjóri

Hoffell á landleið

Hoffell er nú á landleið með um 650 tonn af íslenskri síld til söltunar og verður byrja að landa úr skipinu í fyrramálið.

Hafrafell SU 65

Línubáturinn Hafrafell SU 65 kom til löndunar í gær með um 15 tonn. Aflanum var landað beint inn í frystihús LVF og unninn samdægurs. Ferskara getur það varla orðið. Báturinn hélt aftur til veiða í nótt eftir stutt löndunar og brælustopp.

Ljósafell

Ljósafell kom inn í nótt með um 80 tonn af blönduðum afla. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 12. nóvember kl 11:00

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Starfsmannaferð til Tenerife

Þann 14.október s.l fór hópur á vegum starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til Tenerife. Það voru um 100 sveitungar og samstarfsfélagar sem hittust á Egilsstaðaflugvelli árla þennan mánudagsmorgun, tilbúin til þess að eyða einni viku í sólarparadísinni.  Flugferðin til Tenerife gekk vel og rétt eins og hendi væri veifað var hópinn kominn í skjól á Hótel Bitacora sem er staðsett á Amerísku ströndinni, svona til glöggvunar fyrir þá sem eru staðkunnurgir. 

Heilt yfir var mannskapurinn afar ánægður með ferðina, hlýtt í veðri og sólin á sínum stað þrátt fyrir að ský hafi dregið fyrir sólu stöku sinnum.  Fólk var nokkuð duglegt að hafa ofan af fyrir sér, menn fóru í Go-kart, stunduðu sjósport, óku um eyjuna, böðuðu sig í sólinni, versluðu lítillega og síðast en ekki síst gerðu menn vel við sig í mat og drykk. Morgunverðar-, og kvöldverðarhlaðborð var framreitt á hótelinu og flestir nýttu sér það vel. Loðnuvinnslan bauð síðan öllum hópunum út að borða eina kvöldstund á frábærum veitingastað þar sem veitingarnar voru hinar glæsilegustu bæði hvað varðar útlit og bragð.

Steinar Örn Sigurbjörnsson er í starfsmaður í bræðslunni. Hann hefur farið í margar ferðir með starfsmannafélaginu og greinarhöfundur greip hann glóðvolgan í andyri hótelsins og innti hann eftir því hvernig ferðin væri búin að vera hjá honum? “Bara æðisleg” svaraði hann að bragði. “Ég er allur að koma til eftir sólbruna, ég gáði ekki alveg nógu vel að mér fyrsta daginn þegar ég var að þvælast í sjónum” sagði Steinar og sýndi greinarhöfundi rauðleitann upphandlegg.  Steinar var ánægður þrátt fyrir óþægindin sem hann hafði gengið í gegn um og sagði að hótelið væri fínt og maturinn fínn. “Ég hef ekki yfir neinu að kvarta” sagði hann að lokum og hélt út í sólina.

Ari Sveinsson er háseti á Sandfelli.  Hann var líka gripinn á göngu sinni um hótelið og spurður út í dvölina. “Þetta er búið að vera mjög fínt” svaraði hann, “maður hefur bara verið að slaka á, ekki gert svo mikið”.  En bætti svo við að hann og Oddrún Ósk Pálsdóttir kona hans ætla að vera aðra viku svo þau hafa nægan tíma til að gera það sem þau langar.  Ari var ánægður með hótelið og matinn og sagðist bara njóta þess ganga um og  spjalla við vini og kunningja.

Tania Li Mellado sér um ræstingar í bræðslunni og hún var ásamt manni sínum Vilberg Marinó Jónassyni að snæða morgunverð þegar þau fengu greinarhöfund sem óvæntan gest við borð sitt. “Þetta er búið að vera ljómandi góð ferð” svöruðu  þau aðspurð.  “Við leigðum okkur bíl og ókum til borgarinnar Santa Cruz og versluðum aðeins”. Vilberg hafði skellt sér á Jet Ski og svo  voru þau búin að skoða sig um og ganga heilmikið um svæðið.  Er þetta fyrsta ferð þeirra hjóna til Tenerife því gjarnan liggja leiðir þeirra í sólina til meginlands Spánar þangað sem Tania á ættir að rekja. Tania talar líka spænsku svo að hún á ekki í neinum vandræðum með tjáskipti í spænskumælandi landi.

Við heimkomu til Egilsstaða heilsaði vetur konungur ferðalöngum með sínum köldu krumlum. Hitastig nálægt frostmarki og nokkuð stífur vindur. Allt gekk samt vel og greiðlega og allir komust heilir heim, sem er auðvitað það besta sem hægt er að segja að ferðalokum.

BÓA

Hópurinn fyrir framan hótel Bitacora
Steinar Örn Sigurbjörnsson
Ari Sveinsson
Tania Li Mellado og Vilberg Marinó Jónasson

Starfsfólk Austurbrúar í heimsókn

Miðvikudaginn 18.september komu 22 starfsmenn frá Austurbrú í heimsókn í Loðnuvinnsluna. En Austurbrú gegnir viðamiklu hlutverki á Austurlandi þar sem eitt af markmiðum þess er að “vera í forsvari fyrir þróun samfélags, atvinnulífs, háskólanáms, símenntunar, rannsókna og menningarstarfs á Austurlandi”. (Tekið af heimasíðu Austurbrúar)

“Við ákváðum að nota starfsdag í að kynna okkur fyrirtæki á svæðinu” svaraði Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar aðspurð um ástæðu heimsóknarinnar. “Það hefur ekki farið framhjá okkur þær miklu breytingar sem orðið hafa hjá LVF á undanförnum árum með tilliti til tækninýjunga” bætti hún við.  Og þar að auki hefur Austurbrú séð um fræðsluáætlun fyrir fyrirtækið. 

Jóna Árný sagði að hópurinn hefði fengið höfðinglegar móttökur hjá Loðnuvinnslunni, Friðrik Guðmundsson framkvæmdastjóri tók á móti þeim og kynnti starfsemina, pælingar um aukna endurnýjun og tækni, hvað væri framundan og síðan var þeim boðið að skoða frystihúsið. “Það er frábært að sjá svona  frystihús með áherslu á íslenska tækni” sagði Jóna Árný og sagði ennfremur að gaman væri að sjá samvinnuna við samfélagið. “Þetta er hið áhugaverðasta mál” bætti hún við.

Austurbrú hefur sjö starfsstöðvar allt frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri. Því gefst samstarfsfólki Austurbrúar ekki mikill tími eða tækifæri til þess að kynna sér hina margvíslegu starfssemi á Austurlandi sem hópur, þó svo að þau séu sérfræðingar á þessu sviði hvert í sínu lagi. “Við höfum tvo starfsdaga á ári og þeim er sannarlega vel varið á þennan hátt”, sagði Jóna Árný, “það gefur okkur einstaka innsýn”.

Hópurinn frá Austurbrú heimsótti líka safnið um Frakka á Íslandsmiðum auk þess sem þau fóru til Stöðvarfjarðar og heimsóttu þar Sköpunarmiðstöðina.

BÓA

Hópurinn tilbúinn að skoða frystihúsið. Í viðeigandi fatnaði að sjálfsögðu