Norðingur

Færeyska uppsjávarskipið Norðingur KG 121 er nú að landa um 1.900 tonnum af kolmunna. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem skipið landar hjá Loðnuvinnslunni hf.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 100 tonnum af blönduðum afla. Uppistaðan ufsi, þorskur og karfi. Skipið heldur aftur til veiða í dag, þriðjudag, kl 13:00.

Síðasti mánuður var ágætur hjá Ljósafelli með afla uppá 612 tonn samtals.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1650 tonnum af kolmunna. Skipil heldur aftur til sömu veiða í kvöld að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell kom inn í kærkvöld með um 100 tonn. Uppistaða aflans var þorskur og ufsi. Skipið heldur aftur til veiða á miðnætti að kvöldi 1. maí.

Ljósafell SU 70

Hoffell

Hoffell landaði 1670 tonnum af kolmunna á aðfaranótt sunnudags. Skipið hért aftur til sömu vieða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell landaði á Fáskrúðsfirði í gær um 33 tonnum. Annars hefur skipið landað í Þorlákshöfn að undanförnu tæpum 200 tonnum í þrem löndunum, 5. apríl, 8 apríl og 11 apríl. Skipið heldur aftur til veiða á miðnætti á föstudaginn 19. apríl.

Gæðastjóri óskast

Gæðastjóri óskast til starfa hjá Loðnuvinnslunni hf. Fáskrúðsfirði

Helstu verkefni og ábyrgð
Gæðastjóri hjá Loðnuvinnslunni ber ábyrgð viðhaldi og þróun á gæðakerfi fyrirtækisins í samstarfi við aðra starfsmenn. Því er mikilvægt að viðkomandi vinni vel í teymi sem og sjálfstætt.

Starfssvið
Innleiða vottanir
Viðhald og þróun á gæðakerfi
Samskipti við viðskiptavini
Koma að þróun á nýjum ferlum
Vera leiðtogi í gæðamálum og innleiða gæði í allri starfsemi fyrirtækisins

Hæfniskröfur
Menntun á sviði matvælafræði eða sambærileg háskólamenntun
Þekking á matvælavinnslu er æskileg
Þekking og/eða reynsla á innra eftirliti byggðu á HACCP
Æskilegt að þekkja BRC og/eða ISO
Reynsla af verkefnastjórnun er kostur
Gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
Sjálfstæði í vinnubrögðum, frumkvæði, jákvæðni og góð samskiptahæfni

Loðnuvinnslan er rótgróið sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð og fer öll starfsemi fyrirtækisins fram á Fáskrúðsfirði. Áhugavert tækifæri fyrir metnaðarfullan einstakling. Starfið hentar umsækendum af báðum kynjum.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Ragnheiður Elmarsdóttir í síma 892-7484 en umsóknir ásamt ferilskrá skal senda á netfangið ragna@lvf.is

Umsóknarfrestur til og með 10. apríl 2019.

Ljósafell

Ljósafell kom inn í morgunn með um 14 tonn og er þá búið með árlegt togararall fyrir Hafró. Nú tekur hefðbundin veiði við og fer skipið út um miðnætti á sunnudagskvöld í leit að þeim gula til að leggja upp hjá frystihúsi Loðnuvinnslunnar hf.

Ljósafell

Ljósafell notaði bræluna í gær til að skjótast inn og landa. Aflinn var um 42 tonn. Skipið er enn í “Togararalli” fyrir Hafrannsóknarstofnun og er nú búinn með 120 togstöðvar af þeim 149 sem skipið á að taka. Ef ekkert óvænt kemur uppá klárast það verkefni á föstudaginn.

Kolmunnalandanir

Á síðustu þremur dögum hefur verið landað um 5.000 tonnum af kolmunna hjá Loðnuvinnslunni hf. Norderveg kom á laugardagskvöldið með tæp 1.900 tonn, Knester kom á mánudaginn með um 2.000 tonn og Hoffell kom í gærkvöldi með um 1.050 tonn. Samtals er nú búið að taka á móti 15.300 tonnum, en fyrsta löndun á kolmunna þetta árið var 15. febrúar þegar Hoffellið landaði 1.580 tonnum.

Ljósafell á ralli

Undanfarna daga hefur Ljósafell verið á hinu svokallaða togararalli á vegum  Hafrannsóknastofnunar. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir að  helsu markmið með rallinu sé: “að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi. Erfðasýni verða tekin úr nokkrum fisktegundum, athuganir gerðar á botndýrum og mat lagt á magn ýmiskonar rusls á sjávarbotni”.

Hafa rannsóknatúrar af þessu tagi verið farnir á vegum Hafrannsóknarstofnunar síðan 1985 og byggja kvótastærðir næsta fiskveiðiárs á þeim niðurstöðum sem þar fást.

Ljósafellið landaði í Reykjavík í dag, fimmtudaginn 7.mars, 85 tonnum af blönduðum afla en þó mestmegnis karfa.  Hjálmar Sigurjónsson var skipstjóri í þessum túr og bar hann sig vel þegar greinarhöfundur hafði uppá honum. Hann sagði að allt hefði gengið vel og það væri búið að toga á 81 stöð af 147.  Og þegar hann var spurður að því hvort að aflinn sem Ljósfell hefur fengið í rallinu gæfi vísbendingar til aukins þorskkvóta á næsta kvótaári, hló hann við og sagði það ekki vera í sínum verkahring að áætla neitt í þeim efnum. “Við erum með 7 einstaklinga frá Hafrannsókastofnun um borð sem safna upplýsingum og síðan lesa úr þeim vísindamenn og aðrir sérfræðingar” bætti Hjálmar við.

Ljósafell fer aftur af stað í kvöld og mun þá ljúka við að toga í þeim hólfum sem eftir eru. Til gamans fylgir hér með mynd af þeirri leið sem Ljósafell hefur farið og þegar myndin er skoðuð virðist nokkuð augljóst af hverju þessir rannsóknaleiðangrar hafa fengið viðurnefnið “rall” því þetta lítur út fyrir að vera óttalegt “rally”.

Myndin er fengin af heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

BÓA

Hinn japanski Mikki

Hér á Búðum er staddur maður nokkur að nafni Mikio Fusada. Hann japanskur fiskkaupandi og starfar hjá fyrirtæki sem heitir Kyokuyo co. LDT. Mikio er mikill Íslandsvinur, svo að tekið sé upp orðfæri sem stundum er haft um hina ríku og frægu. Hann hefur dvalið hér á landi í lengri eða skemmri tíma á hverju ári í rúma þrjá áratugi, hann er orðinn svo heimavanur hér að kunningjar og vinir á Íslandi eru farnir að kalla hann Mikka. 

Fyrir hönd fyrirtækisins sem Mikki starfar hjá kaupir hann síld, makríl og síðast en ekki síst, loðnu.  Hann hefur keypt af Loðnuvinnslunni síðan árið 1995 og hann sagðist ávalt hafa verið ánægður með gæði, enda sagðist maðurinn ekki kaupa neitt nema það sem væri fyrsta flokks því hans viðskiptavinir vildu ekkert annað og ættu ekkert minna skilið.  En Mikki er áhyggjufullur. Hann hefur stórar áhyggjur af loðnubresti því að Japanir neyta loðnu í miklum mæli.  Hann hefur líka áhyggjur af því að verði loðna veidd af aðeins einni þjóð af þeim sem hann er vanur að kaupa af, (Ísland, Noregur og Kanada)  en ekki öðrum, verði verðið svo hátt að hinn almenni neytandi í Japan geti ekki keypt sér loðnu til matar.  Um þetta ræddum við Mikki  á kaffistofunni í frystihúsinu í góðu yfirlæti.

Hann Mikki hefur líka skoðun á fiskveiðistjórnun, enda maðurinn sérfræðingur í þeim efnum, og hann fræddi greinarhöfund heilmikið um aðferðir við að kanna stofnstærðir og þess háttar sem ekki verður farið nánar út í að svo stöddu. Hann talaði um nútíma aðferðarfæði og þær sem notaðar voru áður fyrr og sagði að þær aðferðir dyggðu jafn vel núna og áður. “Það þarf ekki annað en að taka stóran þorsk í febrúar og mars og opna hann, ef hann er fullur af loðnu, þá er stofninn góður, en ef það finnst engin loðna í þorskinum þá er engin loðna” sagði Mikki.  Hann talaði líka um hvað margt hefur breyst á Íslandi, sem og í heiminum öllum, á þessum áratugum sem hann hefur starfað við að ferðast um heiminn.  En hann Mikki ferðast ekki bara til Íslands til að kaupa fisk, hann fer um allan heim.  “Ég er svona 5 til 6 mánuði heima en hina mánuði ársins er ég á ferð og flugi um heiminn, auk þess sem ég ferðast líka innan Japan.   En heima á Mikki konu, uppkomna dóttur og tvö barnabörn. Hann sýndi greinarhöfundi stoltur myndir af barnabörnunum í símanum sínum, 15 ára stúlka og 13 ára drengur, afar myndarlegir unglingar.  En við það að kíkja á skjáinn hjá Mikka mátti sjá að uppistaðan í myndunum hans voru myndir af fiskum… loðnu og aftur loðnu. Misjafnt höfumst við að, mannfólkið.

Eftir nokkuð langt spjall um áhyggjur Mikka af framtíðinni hvað loðnubrest varðar, við Íslendingar getum kannski sett okkur í þau spor að fá ekki þorsk, eða lambakjöt, eða kartöflur, eða eitthvað sem okkur sem þjóð þykir ómissandi, þá tókum við upp léttara hjal. Við fórum að tala um bíla. Þá skemmtilegu staðreynd að japanskir bílar eru vinsælir á Íslandi.  Að vonum var Mikki ánægður með það og sagði brosandi að það væri ekkert vit í öðru. Sjálfur ætti hann Lexsus og konan hans Toyota bíl. Hann hafði orð á því að þegar hann kom fyrst til Íslands fyrir margt löngu síðan þá hafi hér verið mikið af rússneskum bílum, “en nú eru Subaru komnir í staðinn fyrir Lada” sagði Mikio Fusada að lokum og brosti svo breitt að augun hurfu á bak við brosið.

BÓA