Aflamet hjá Sandfelli

Sandfell Su 75 var aflahæsti línubáturinn í maí mánuði með 324,3 tonn. Þetta er líka persónulegt met þeirra Sandfellsmanna en þetta er mesti afli sem þeir hafa fengið á einum mánuði.  Fyrra met var 274 tonn. Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfelli var að vonum sáttur við aflametið og sagði að veðrið  í maí  hefði verið afskaplega hagstætt sjófarendum og þeir því verið á sjó alla dagana í maí. “Við lögðum línuna 31 sinni” sagði Örn og vildi þakka góðu gengi veðurblíðunni og þeirri staðreynd að ekkert tafði þá í sjósókninni eins og bilanir eða annað óvænt.  Aðspurður sagði Örn að auðvitað væri ánægjulegt þegar vel gengi og bætti því við áhöfnin gerði ávalt eins vel og hún gæti  en hann vildi ekki kannast við að þeir væru miklir keppnismenn um borð.  

En nú er sjórinn úfinn og vindur blæs úr norðri og þá er ekki sjólag fyrir báta á stærð við Sandfell svo að nú liggur það bundið við bryggju og bíður átekta. Þegar Örn var inntur eftir því hvað áhöfnin hefði fyrir stafni við slíkar aðstæður sagði hann að þeir væru að dytta að einu og öðru sem gæfist ekki tími til þegar fast væri sótt. Örn skipstjóri hafði líka orð á því að það væri nú all óvenjulegt að komast ekki til sjós í 5 – 6 daga samfellt í júní, og maðurinn sá veit hvað hann syngur í þeim efnum því hann hefur verið sjómaður síðan 1974.

BÓA

Sjómannadagurinn

Í tilefni Sjómannadagsins verður skipum Loðnuvinnslunnar siglt frá Frystihúsbryggjunni á laugardaginn 1. júní, kl 11:00. Almenningi er boðið að sigla með um fjörðinn. Pylsur og gos á bryggjunni í boði útgerðar !!!

Loðnuvinnslan hf og Hjálmar ehf óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær rúmlega 100 tonnum. Uppistaða aflans var þorskur, karfi og ufsi. Skipið hélt aftur til veiða um miðnættið í gærkvöldi að löndun lokinni.

Ný flæðilína væntanleg

Þegar umsvif aukast þarf oft að breyta og bæta til að mæta þeim. Frystihús Loðnuvinnslunnar hefur tekið miklum breytingum s.l ár hvað varðar tæki og búnað. Og enn er verið að bæta. Á dögunum festi LVF kaup á flæðilínu með 6 + 8 stæðum, þ.e. sitt hvoru megin við línuna, skoðunarstöð, skotbönd og önnur færibönd til að tengja roðvél við skurðavél og síðan frá flæðilínu til marningsvélar.  Búnaðurinn er allur keyptur hjá Völku í Kópavogi og verður til afhendingar þann 16.september n.k.

BÓA

Friðrik Mar Guðmundsson og Guðjón Ingi Guðjónsson sölustjóri Völku . Myndin var tekin þegar samningur um kaup á flæðilínunni var undirritaður, föstudaginn 24.maí 2019.

Hoffell

Hoffell er komið til löndunar með fullfermi af kolmunna sem fékkst í Færeysku lögsögunni. Nokkur bið verður í næsta úthald, og verður farið að sinna ýmsu viðhaldi á næstunni.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 17. maí sl.  Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta var 700 millj.  sem er 135% hærra en 2017.  Hreint veltufé frá rekstri var 1.523 milllj. sem er 88% meira en 2017.

Tekjur LVF af frádegnum eigin afla voru  9.099 millj. sem er 24% veltuaukning milli ára.  Eigið fé félagsins í árslok 2018 var 7.955 millj.  sem er 54% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut.

Samþykkt var að greiða 15% arð til hluthafa eða 105 millj.

Rekstur Loðnuvinnslunnar hefur verið ágætur síðustu ár, hagnaður hefur verið samtals 5,6 milljarðar síðustu 5 ár,  fjármunamyndun 7 milljarðar og eigið fé hefur vaxið úr tæpum 3 milljörðum í tæpa 8 milljarða.

Stjórn Loðnuvinnslunnar er þannig skipuð Elvar Óskarsson formaður, Steinn Jónasson, Högni Páll Harðarson, Elsa Sigrún Elísdóttir og Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Varamenn Jónína Óskarsdóttir og Unnsteinn Kárason.

Gudmundur Jóelsson

Guðmundur Jóelsson hefur starfað sem endurskoðandi fyrir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, og síðar Loðnuvinnsluna, síðan 8. apríl 1980. Og nú,  39 árum síðar,  er komið að leiðarlokum.  Á síðasta aðalfundi LVF og KFFB gaf hann ekki kost á sér til endurkjörs en í hans stað var kjörinn samstarfsmaður hans til fjölda ára,  Jón H.  Skúlason  löggiltur endurskoðandi.

Guðmundur Jóelsson er fæddur í Reykjavík þann 30. nóvember 1948. Hann ólst upp í Garði og Sandgerði hjá móður sinni og fósturföður. Hann er alinn upp við sjávarsíðuna en segist þó sjaldan hafa migið í saltan sjó. Fósturfaðir Guðmundar rak verslunina Nonni og Bubbi  í Sandgerði og snemma var Guðmundur farinn að grúska þar í tölum. Talnaglöggur pilturinn þótti liðtækur í bókhaldi og reikningi. Guðmundur fór í Samvinnuskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan vorið 1967 og var þá tvístígandi um hvaða leið hann ætlaði að velja sér til framtíðarframa. Samvinnuskólagengið fólk var vinsælt í atvinnulífinu og þar sem hann hafði áhuga á tölum og hafði alist upp við verslunarrekstur, leitaði hugurinn í þá áttina.  Við nánari athugun kom í ljós að endurskoðendur höfðu mikið að gera og afkoman virtist fín og þar með voru örlögin ráðin og starfsvettvangur valinn.  Á þessum tíma þurftu menn að komast að hjá löggiltum endurskoðanda í starfsnám auk þess að taka námskeið í Háskólanum til þess að læra að vera endurskoðandi og síðan þurfti að fá  löggildingu eftir kúnstarinnar reglum. Þetta gekk Guðmundur í gegnum, hlaut löggildingu vorið 1975 og fór svo að starfa sjálfstætt. Hann hefur í gegn um tíðina séð um uppgjör og framtöl fyrir um eða yfir 300 kennitölur.  Og þar sem við spjölluðum um endurskoðun, reikningshald, uppgjör og framtöl kom fram,  að þetta getur verið afar persónulegt starf.  Fólk kemur til að fá aðstoð við fjárhagsmál sem eru persónuleg og “stundum verða fundirnir eins og sálfræðitímar. Fólk opnar sig og talar um sín innstu hjartans mál” segir Guðmundur og bætir því við að heilt yfir hafi ævistarfið hans verið gríðarlega víðtækt.

“Og manstu uppá dag hvenær þú byrjaðir að vinna fyrir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga”? spyr greinarhöfundur.  “Já, ég held dagbók og þar gat ég nú flett því upp.  Við Gísli Jónatansson vorum bekkjarbræður á Bifröst og hann hringir í mig einn daginn og segir mér að endurskoðandi Kaupfélagsins hafi verið að hætta og að það vanti nýjan”.  “Og hvenær er það”? spurði ég,  “ Á morgun” svaraði Gísli “og daginn eftir flaug ég austur í fyrsta sinn og hef síðan komið u.þ.b sex sinnum á ári síðan í nokkra daga í senn”.   Að auki hefur Guðmundur mætt á aðalfundi og við önnur tilefni þar sem þurfa þykir þannig að þótt að greinarhöfundur sé langt frá því að vera talnaglögg og kunna reikningskúnstir, þá segir reiknivélin í símanum mér að Guðmundur sé búinn að koma hátt í 250 ferðir til Fáskrúðsfjarðar á s.l. 39 árum. 

“Mér þykir orðið afskaplega vænt um þetta pláss, hér á ég orðið marga vini og kunningja og hér áður fyrr fór ég í fótbolta með strákunum þegar ég dvaldi hér” segir hann dreymandi á svip því að fótboltadagar Guðmundur Jóelssonar eru liðnir. Guðmundur rifjar líka upp dvöl hér á Fáskrúðsfirði eitt fallegt sumar. Hann kom hingað með  fjölskylduna þegar stelpurnar hans voru litlar og þau fóru í Skrúðinn með Baldri bónda Rafnsyni á Vattarnesi. “Það er okkur öllum mjög eftirminnilegt” sagði endurskoðandinn og bætir við: “Ég er ákaflega þakklátur fyrir kynni mín af fólki hér á Fáskrúðsfirði, það er mér mikils virði að mynda góð tengsl við gott fólk”.

Guðmundur er kvæntur Önnu Margréti Gunnarsdóttur grunnskólakennara og eiga þau þrjá dætur og tvö barnabörn og eitt á leiðinni. “Ég fann hana Önnu mína í Kópavoginum” segir Guðmundur kankvís.  Og það hefur verið happafundur því saman hafa þau  lagt fjóra áratugi að baki. 

Er Guðmundur er inntur eftir áhugamálum sínum svarar hann að bragði: “Það er útivist allskonar.  Ég hef gengið um fjöll og firnindi síðan ég var ungur maður. T.a.m vann ég á Egilsstöðum árið 1975 og þá gekk ég um allar víkurnar í Borgarfirði og á hin ýmsu fjöll í fjórðungnum líka. Þá var ekki eins vinsælt að ganga um óbyggðir eins og það er í dag.  Toppnum náði ég þó ekki fyrr en árið 2010 þegar mér tókst að klífa Hvannadalshnjúk. Því miður hefur dregið mjög úr gönguferðum í seinni tíð en stefnan er klárlega að auka þær aftur ef heilsan leyfir“.

Svo segist Guðmundur líka vera í Bridgeklúbbi. Klúbbur sem gengur undir nafninu Krummaklúbburinn og hefur verið starfandi síðan 1964 og okkar maður er að vonum formaður og nefnist Stórkrummi. “Minnsti maðurinn í klúbbnum er Stórkrummi” segir Guðmundur hlæjandi og við vorum sammála um það að manneskja þyrfti ekki að vera hávaxin til að vera “stór”.   “Svo eigum við hjónin hús á Skáni í Svíþjóð ásamt nokkrum öðrum og þar dveljum við um tíma á hverju sumri. Það er dásamlegt að vera þar og svo búa tvær dætur okkar í Kaupmannahöfn og barnabörnin og þá er styttra á milli” bætir hann við.

Guðmundur stefnir að því að fara á eftirlaun í haust. Nú er hann að koma viðskiptavinum sínum fyrir hjá nýjum aðilum og hann ætlar að sinna áfram uppgjörsmálum fyrir LVF og KFFB um tíma.  

Allt tekur enda um síðir, líka starfsævi Guðmundur Jóelssonar, en hann er hvergi nærri hættur.  Nú tekur við tíminn þar sem áhugamálin fá pláss, ferðalög,  tíminn til að horfa lengur og betur á barnabörnin og tíminn til að njóta.

Loðnuvinnslan og Kaupfélagið þakka Guðmundi fyrir hans góðu störf og óska honum velfarnaðar, gæfu og gengis.

BÓA

Gudmundur Jóelsson að störfum á skrifstofu LVF

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum. Uppistaða aflans er þorskur og ufsi. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 21. maí kl 22:00.

Samfélagsstyrkir KFFB

Á síðasta aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga sem haldinn var 17.maí s.l voru afhentir samfélagsstyrkir. Eftirfarandi félagasamtök og stofnanir hlutu styrk.

Áhugahópur um Fjölskyldugarð á Fáskrúðsfirði fékk 1,9 milljónir króna í styrk til uppbyggingar á Fjölskyldu og útivistagarðinum.  Á móti styrknum tók Hrefna Eyþórsdóttir og sagði hún uppbygginguna á garðinum ganga vonum framar og þakkaði þar dyggan stuðning Kaupfélagsins. 

Franskir dagar fengu 1 milljón króna til að halda bæjarhátíðina Franskir dagar. María Ósk Óskarsdóttir veitti styrknum viðtöku.

Blakdeild Leiknis fékk  1 milljón króna. Við styrknum tók Birkir Snær Guðjónsson

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón  til að bæta og fegra félagsheimili okkar Fáskrúðsfirðinga. Tinna Smáradóttir tók við styrknum fyrir hönd Hollvinasamtakana.

Þá fékk Dvalarheimilið Uppsalir 1 milljón króna. Ragnar Sigurðsson framkvæmdastjóri hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð veitti styrknum viðtöku.  

Allir styrkþegar kunna Kaupfélaginu allra bestu þakkir fyrir veittan stuðning.

Að þessu sinni úthlutaði Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga  styrkjum samtals að upphæð 5,9 milljónir króna. Loðnuvinnslan úthlutaði styrkjum samtals að upphæð 17 milljónir króna.  Samanlagt gengu tæplega 23 milljónir króna úr fjáhirslum fyrirtækjanna út í hin margvíslegustu verkefni  í nærsamfélaginu þar sem þau koma íbúum Fáskrúðsfjarðar að góðum notum. 

BÓA

Handhafar styrkja ásamt Steini Jónassyni stjórnarformanni KFFB

Samfélagsstyrkir LVF

Á síðasta aðalfundi Loðnuvinnslunnar , sem haldinn var föstudaginn 17.maí s.l  voru samfélagsstyrkir afhentir.  Eftirfarandi félagasamtök fengu styrk.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir króna og sagði Steinar Grétarson fulltrúi félagsins í þakkarorðum sínum að félagsmenn kynnu afar vel að meta styrkinn og að hann kæmi að vonum vel.

Franskir dagar fengu 1 milljón króna til þess að halda okkar árlegu bæjarhátíð, við þeim styrk tók María Ósk Óskarsdóttir.

Fimleikadeild Leiknis fékk 1 milljón króna til tækjakaupa. Valborg Jónsdóttir tók á móti styrknum fyrir hönd Fimleikadeildarinnar og sagði hann vera afar kærkominn þar sem allur búnaður til fimleikaiðkunnar sé dýr en deildin vex og dafnar og hefur sífellt þörf fyrir nýjan búnað.

Björgunarsveitin Geisli fékk 1 milljón krónur í rekstur á björgunarbátnum Hafdísi. Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla tók á móti styrknum og sagði hann það ómetanlegt fyrir björgunarsveitina að hafa slíkan bakhjarl sem Loðnuvinnslan hefur reynst Geisla. 

Þá fékk knattspyrnudeild Leiknis  styrk að andvirði 8 milljónir króna og er sá styrkur frábrugðinn hinum að því leiti að ekki er um hreinan peningastyrk að ræða heldur er búið að reikna saman í fyrirgreinda tölu allt sem Loðnuvinnslan lætur af hendi rakna til Knattspyrnudeildarinnar eins og lán á rútu, búninga kaup og fleira í þeim dúr. Hans Óli Rafnsson gjaldkeri Knattspyrnudeildar Leiknis tók á móti styrknum að sagði það afar dýrmætt að njóta styrktar og velvilja LVF og sagði að  án hans væri illgert að reka fótboltalið í 2.deild og tók sem dæmi að ferðakostnaður liðsins árið 2018 hefði verið 10 milljónir króna. 

BÓA

Handhafar styrkja ásamt Elvari Óskarssyni stjórnarformanni LVF

Farsæll ferill að baki

Það þykir nokkrum tíðindum sæta þegar sjómaður lætur af störfum eftir 40 ár á sama skipi.  Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafelli er stiginn í land og hefur látið stjórnartaumana á Ljósafelli í annarra hendur. Þannig að frá og með þessari stundu er hann fyrrverandi skipstjóri.

Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvernig þessi tímamót færu í manninn og spurði bara hreint út.  “ Þau leggjast býsna vel í mig “ svaraði hann hlæjandi, “ég er þakklátur og glaður og ég hef verið heppinn, það hefur gengið nokkuð vel og ég hef aldrei orðið fyrir manntjóni og það er ekki sjálfgefið” bætti hann við alvarlegur í bragði.

“Og hvað tekur nú við”? Lá beinast við að spyrja að næst.  “Ég á haug af barnabörnum sem ég hef hug á að sinna og fylgjast með þeim vaxa úr grasi” svaraði Ólafur og bætti því við aðþegar hann var yngri og með sín eigin born lítil, hefði hann haft  minni tíma, þá var verið að koma sér upp húsi og heimili og það krafðist þess að hann ynni mikið eins og algengt er.  “Svo er fjölskyldan að fara tilDanmerkur í sumar og svo eru við hjónin að skipta um hús svo að það er nóg framundan” sagðiÓlafur.

Tal okkar snérist stutta stund um verkefni sumarsins en tók svo þá stefnu að spjalla um komandi vetur, þegar myrkrið, kuldinn og snjórinn setja mark sitt á umhverfi og manneskjur og Ólafur var inntur eftir því hvort að hann kviði því að mæta þeim árstíma án þess að sækja sjóinn reglulega, en hann sagði svo ekki vera. “ Ég hef bara meiri tíma til að fara á skíði og svo á ég svakalega fínan snjóblásara” sagði hann léttur í lund og greinarhöfundur gerir sér í hugarlund að nýjir nágrannar í Króksholtinu, þangað sem þau hjón eru að flytja, muni eiga eftir að sjá skipstjóra á eftirlaunum ganga oft og títt um götuna með blásarann á undan sér.

Ljóst er á spjalli okkar Ólafs að hann tekur starfslokunum fagnandi, sér þau sem nýjan kafla í sínu lífi og er bara spenntur að fletta  síðunum í þeim kafla.  Það má svo glögglega sjá í orðunum sem hann notaði þegar við kvöddumst. “ Ég kvíði því ekki að eldest með henni Jónu minni”.

Þetta fallega ljóð eftir Sveinbjörn Á. Benónýsson sem hann orti í tilefni sjómannadagsins 1953 er að þessu sinni tileinkað Ólafi Helga og öllum þeim sjómönnum sem hann hefur starfað með á 40 ára veru á Ljósafelli SU 70.

Til sjómanna

Nú skal þakka þeim hlýtt,

sem að út hafa ýtt

á hinn ólgandi en gjöfula sæ,

til að fyrra oss nauð,

til að færa oss brauð,

til að fegra og stækka vorn bæ.

Og þeirra skal minnst,

sem úr höfninni hinnst,

sigldu helþrunginn stórviðrisdag.

Fyrir börn sín og víf,

hvar þeir létu sitt líf,

fyrir lands sins og alþjóðar hag.

 Loðnuvinnslan þakkar Ólafi Helga Gunnarssyni fyrir hans góðu störf í þágu fyrirtækisins og óskar honum velfarnaðar.

BÓA

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í gær með um 1.693 tonn sem fengust í Færeysku lögsögunni. Skipið hélt aftur til sömu veiða að löndun lokinni kl 19:00.