Löndunarbið á Fáskrúðsfirði

Líflegt er við höfnina á Fáskrúðsfirði í dag. Verið er að landa um 1500 tonnum af loðnu úr Vilhelm Þorsteinssyn EA 10, en einnig var landað úr skipinu frosinni loðnu, sem fór um borð í flutningaskip í morgun. Þá bíða tvö færeysk skip löndunar á loðnu, Krunborg með um 2400 tonn og Júpiter með um 1500 tonn.

Finnur Fríði kominn aftur

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Færeyska skipið Finnur Fríði kom til Fáskrúðsfjarðar um kl. 20.00 í gærkveldi með um 2470 tonn af kolmunna úr fjórðu veiðiferð sinni. Skipið landaði fullfermni á Fáskrúðsfirði 16. febrúar s.l.

Afkoma LVF 2003

Hagnaður LVF 129 milljónir króna.Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði árið 2003 nam kr. 129 millj. eftir skatta, en árið 2002 var hagnaður LVF kr. 295 millj. Í samanburði á afkomunni á milli ára munar mest um að fjármagnsliðir eru nú kr. 135 millj. óhagstæðari en árið á undan, en þá voru fjármagnsliðir jákvæðir um kr. 118 millj. Þá hefur styrking íslensku krónunnar einnig mikil áhrif á útkomuna, þar sem mun færri krónur fást fyrir afurðirnar.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru tæpir kr. 2,7 milljarðar og höfðu aukist um 17% frá árinu áður. Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (EBITDA) varð kr. 452 millj. eða 17% af tekjum og lækkaði um kr. 28 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam kr. 378 millj. sem er 14% af tekjum, en árið 2002 var fjármunamyndunin kr. 423 millj. eða 18%. Afskriftir voru kr. 267 millj. og höfðu lækkað um kr. 17 millj.

Eigið fé félagsins var í árslok kr. 1.470 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Eigið fé hækkaði um kr. 128 millj. á milli ára eða um 10%. Arðsemi eigin fjár var 8,8%.

Nettó skuldir LVF voru í árslok kr. 946 millj. og höfðu lækkað um kr. 284 millj. frá árinu á undan. Fjárfestingar félagsins árið 2003 voru kr. 74 millj.

Á launaskrá LVF komu 305 manns á síðasta ári, en að jafnaði vinna hjá félaginu um 170 manns.

Hluthafar í árslok voru 226. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er stærsti hluthafinn með um 84% hlutafjárins.

Sjá uppgjör undir ársskýrslur.

LVF hlýtur viðurkenningu

Hinn 17. febrúar s.l. afhenti Ævar Agnarsson frá Iceland Seafood Corporation, USA, nokkrum fyrirtækjum í sjávarútvegi viðurkenningarskjöld fyrir framúrskarandi gæði framleiðslu sinnar árið 2003 fyrir Bandaríkjamarkað. Þau fyrirtæki sem viðurkenningu hlutu voru auk Loðnuvinnslunnar hf., Guðmundur Runólfsson hf.,

Útgerðarfélag Akureyringa hf., Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf og Sjóvík. Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri og Þorri Magnússon, framleiðslustjóri, tóku á móti viðurkenningu LVF. Gísli Jónatansson þakkaði stjórnendum Iceland Seafood fyrir hönd viðtakenda. Athöfnin fór fram á Lækjarbrekku í Reykjavík.

Á myndinni eru frá vinstri Ævar Agnarsson ISC., Ellert Vigfússon Sjóvík, Ingólfur Hjaltalín FH., Guðm. Smári Guðmundsson GR., Móses Geirmundsson GR., Pétur Pétursson FH., Gunnar Larsen ÚA., Magnús Baldursson ÚA., Gísli Jónatansson LVF., og Þorri Magnússon LVF.

Fyrsti kolmunninn

Fyrsti kolmunninn sem hingað berst til lands á árinu kemur til Fáskrúðsfjarðar í dag. Það er færeyska skipið Finnur Fríði sem kemur til Fáskrúðsfjarðar um kl. 12.30 með 2300 tonn, sem veiddust vestur af Írlandi. Finnur Fríði er nýtt skip, sem kom til heimahafnar í Færeyjum 20. desember s.l. og er þetta þriðja veiðiferð skipsins. Skrokkur skipsins var byggður í Rúmeníu, en var svo dreginn til Noregs um mánaðarmótin ágúst-september 2003, þar sem skipið var klárað. Skipstjóri á Finni Fríða er Arne Hansen, sem áður var með Trónd í Götu, skip sömu útgerðar. Útgerðarmaður skipanna er Jákup Jacobsen í Götu í Færeyjum.

Myndin er tekin er Finnur Fríði kom til heimahafnar í desember s.l. Tróndur í Götu er í baksýn

Japansfrysting á loðnu hafin.

Byrjað var að frysta loðnu fyrir Japansmarkað í morgun, en þótt hrognafylling sé ásættanleg er loðnan frekar smá. Verið er að landa úr norska bátnum Torbas u.þ.b. 450 tonnum.

Loðnulöndun

Norski loðnubáturinn Nordfisk kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 500 tonn af loðnu.

Loðnuvertíð

Það sem af er árinu hefur Loðnuvinnslan h/f tekið á móti tæplega 5000 tonnum af loðnu og af því hafa verið fryst um 1400 tonn til landa Austur-Evrópu. S.l.sunnudag 1. febrúar lestaði m/s Ice Crystal liðlega 600 tonn af frystri loðnu.


Hinn 26. janúar lestaði m/s Sylvia 1400 tonn af fiskimjöli og n.k. föstudag er væntanlegt hingað m/s Delmar og lestar um 800 tonn af mjöli.

Fryst á vöktum hjá LVF

Undanfarna daga hefur verið mjög mikið að gera við loðnufrystingu hjá LVF og búið að frysta um 1000 tonn frá því á laugardag. Norska loðnuskipið Rav landaði í gær um 400 tonnum af loðnu og fór meirihluti aflans í frystingu. Skipverjar á Ljósafelli bættust í vikunni í hóp þess vaska fólks sem vinnur við frystinguna.

Aflahæstu hafnir 2003

Skv. síðasta tölublaði Fiskifrétta eru aflahæstu hafnir landsins 2003 þessar:1. Neskaupstaður 256.000 tn.

2. Vestmannaeyjar 198.000 tn.

3. Eskifjörður 171.000 tn.

4. Seyðisfjörður 150.000 tn

5. Grindavík 148.000 tn.

6. Fáskrúðsfjörður 129.000 tn.

7. Akranes 121.000 tn.

8. Reykjavík 115.000 tn.

9. Akureyri 99.000 tn.Ef íbúafjölda þessara byggðarlaga er deilt í aflatölurnar og fundinn út afli á íbúa er röðin þessi:

1. Fáskrúðsfjörður 200 tn. pr. íbúa

2. Seyðisfjörður 198 tn. pr. íbúa

3. Neskaupstaður 183 tn. pr. íbúa

4. Eskifjörður 171 tn. pr. íbúa

5. Grindavík 62 tn. pr. íbúa

6. Vestmannaeyjar 45 tn. pr. íbúa

7. Akranes 22 tn. pr. íbúa

8. Akureyri 6 tn. pr. íbúa

9. Reykjavík 1 tn. pr. íbúa

Loðnufrysting

Loðnufrysting hófst hjá LVF laugardaginn 24. janúar, en þá kom Hoffell með um 600 tonn. Fryst var í báðum frystihúsum LVF þ.e.a.s. í frystihúsinu á Fiskeyri og frystihúsinu Fram. Í dag er Víkingur AK að landa um 700 tonnum af loðnu og frysting hafin. Starfsfólk vantar tilfinnanlega í vinnu við loðnufrystingu á Fáskrúðsfirði.

Myndin er tekin af loðnuflokkun í dag.

Góðri síldarvertíð lokið.

Síldarvertíðinni er lokið á þessari haustvertíð. Búið er að taka á móti 10.750 tonnum og salta í 23.000 tunnur og frysta 500 tonn af flökum annað hefur farið í bræðslu. Hoffell var að landa 115 tonnum og er að útbúa sig á loðnu. Það er eins með síldina núna og áður að erfitt er að treysta henni. Í haust hefur stór síld nánast ekki látið sjá sig en aftur á móti hefur verið mikið af 4ra ára síld sem er 28 til 30 cm löng. Af þessu leiðir að erfitt hefur verið að fylla upp í samninga þar sem hefur þurft að nota stóra síld. Við sem við þetta vinnum spáum auðvitað í það hvar demant síldin sé, sumir segja að hún sé dreifð með öllum landgrunnskantinum og sé bara ekki í veiðanlegu ástandi.

Ef maður lætur hugann reika aftur í tíma í kringum 1968-1969 þá hvarf Suðurlandssíldin svokallaða og var algjört veiðibann í nokkur ár eftir það. Á sama tíma bar það svo við að góð síldveiði hófst í Norðursjónum og þar stunduðu íslensk skip síldveiðar til ársins 1974 eða 1975. Nú er sama ástand í Norðursjónum allt fullt af síld, er eitthvað samband þarna á milli ? Svo spyr maður sig að þegar síldin við Vestamannaeyjar var búin að hrygna í hitteðfyrra og fór þaðan, að á sama tíma tekur einn þekktur hvalur stefnuna til Noregs, hvað var Keikó heitinn að elta þegar hann tók strauið til Noregs ? E.Ó.