Ljósafell

Ljósafell er komi inn með síðasta farm kvótaársins, enda gamársdagur kvótakerfisins í dag. Aflinn er um 58 tonn af ýsu, þorski og ufsa. Skipið heldur aftur til veiða á laugardagskvöld.

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í fyrradag með um 920 tonn af makríl. Skipið fór svo aftur til sömu veiða í gærkvöld og er stefnan sett á Smuguna, en þar hefur makríllinn verið mestu magni að undanförnu.

Sandfell slær met

Sandfellið hefur náð þeim frábæra áfanga að vera aflahæsti krókabáturinn frá upphafi með 2400 tonna afla á fiskveiðiárinu! Hefur útgerðin á Sandfelli gengið langt umfram væntingar enda var litið á línubátaútgerð sem svolítið tilraunaverkefni þegar hún hófst en annað hefur aldeilis komið á daginn eins og áfhöfnin á Sandfelli hefur sýnt og sannað.

Í tilefni árangursins var áhöfninni á Sandfelli færð terta sem var “afbragðsgóð og fín í magann” eins og Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfellinu hafði á orði. Þegar hann var spuður að því hverju hann vildi þakka þennan góða árangur sagði hann að það væru nokkrir samverkandi þættir. “Við erum í frjálsum veiðum, sem þýðir að það er ekkert sem að stoppar okkur nema veðrið. Við erum með tvær frábærar áhafnir, góðan bát og útgerð sem sér um að koma aflanum til vinnslu, við þurfum sem sé aldrei að stoppa vegna þess að vinnslan hafi ekki undan eða þess háttar” sagði Örn. En langstærstur hluti þess afla sem Sandfell kemur með að landi er unnin í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Örn sagði líka að það fyrirkomulag að vera tvær vikur á sjó og tvær vikur í fríi væri gott fyrirkomulag og samstarf áhafna væri mjög gott.  Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvað það væri sem bryti upp dagana þegar sjórinn er sóttur svona fast eins og gert er á Sandfellinu og Örn var ekki í vafa um svarið: “það er matartíminn, við erum alltaf spenntir að komast í mat, kokkarnir  eru mjög góðir og elda góðan mat og svo er það auðvitað sá tími dagsins sem við höfum tækifæri til að spjalla svolítið saman”.

Og nú er Sandfell á leið í slipp á Akureyri. Það þarf að hlú að vél og skrokk svo að Sandfellið haldi áfam að vera það happafley sem það hefur verið til þessa. Og er Örn skipstjóri var inntur eftir því hvort að hann setti sér aflamarkmið fyrir næsta fiskveiðiár sagðist hann ekki myndi gera það “markmiðið er það eitt að gera sitt allra besta” sagði Örn Rafnsson.

BÓA

Þeir fiska sem róa

Nú þegar yfirstandandi fiskveiðiár er að renna sitt skeið á enda liggur fyrir sú staðreynd að Ljósafell Su 70 hefur slegið aflamet. Það er komið yfir 5 þúsund tonn af veiddum afla!  Fiskveiðiárið er frá 1.september til 31.ágúst ár hvert og þegar þessi orð eru rituð eru nákvæmlega fjórir dagar eftir til loka ársins þannig að einhver tonn eiga eftir að bætast við lokatöluna.  Er aflinn í ár u.þ.b 46% hærri en meðalafli seinustu 16 ára.  Að þessu tilefni var áhöfninni á Ljósafelli færð terta rétt áður en lagt var af stað í 51. túr ársins.  Það var létt yfir áhöfninni og masað á léttum nótum í messanum á meðan menn gæddu sér á tertunni og Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri skar fyrstu sneiðina og hafði það á orði að það mætti helst ekki skera í myndina af Ljósafellinu sem prýddi tertuna. Aðspurður sagði Ólafur Helgi að megin ástæða þess hversu vel hefði gengið væru auknar fiskheimildir og stíf sjósókn. Hann sagði líka réttilega að togurum hefði fækkað þannig að færri skip væru á miðunum.  Þá lagði skipstjórinn áherslu á hversu mikilvægt það væri að hafa góða áhöfn. „Topp mannskapur“ sagði Ólafur Helgi.

Ljósafell er farsælt og gott skip. Orðið 44 ára gamalt með 28 ára gamla vél sem gengið hefur 170 þúsund vinnustundir og þjónar ennþá vel.   „Við höfum aðeins einu sinni verið dregnir í land“ sagði Ólafur Helgi kíminn, „og þá fengum við tjábol í skrúfuna“.  Skipstjórinn var að fara í frí þannig að greinarhöfundur naut þeirrar forréttinda að standa við hlið hans á bryggjunni og horfa á eftir Ljósafellinu, skipinu sem hann hefur talist til áhafnar á í tæp 40 ár,  sigla út fjörðin í ljósaskiptunum og í huganum sendum við áhöfn og skipi góðar óskir um fengsæld og örugga heimkomu.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum af blönduðum afla. Mest af ufsa, 42 tonn.
Skipið siglir aftur á veiðar í kvöld, mánudag 27. ágúst kl 20:00.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 800 tonnum af makríl sem fékkst á Austfjarðamiðum. Skipið fer aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Hoffell á landleið með 940 tonn

Hoffell er á landleið með 940 tonn af makríl. Aflinn fékkst í Smugunni um 360 sjómílum frá Fáskrúðsfirði þannig að langt er sótt. Smugan er alþjóðlegt hafsvæði norður af Færeyjum þar sem myndast smuga á milli landhelgi Íslands, Noregs og Færeyja. Hoffellið er tveimur vikum fyrr í Smugunni heldur en í fyrra og sagði Guðni Ársælsson stýrimaður á Hoffellinu ástæðuna vera þá staðreynd að lítið hafi veiðst af makríl í íslenskri lögsögu þannig að ákveðið hefði verið að freista gæfunnar í Smugunni. Sagði Guðni ennfremur að þeir hefðu verið smá stund að finna makrílinn en þegar hann var fundinn gengu veiðarnar vel.  Veðrið var gott við veiðarnar sem og spáin góð fyrir heimferðina sem tekur um 32 klukkustundir. Hoffellið verður í höfn á Fáskrúðsfirði um kl. 24 laugardaginn 18.ágúst.

Þegar þessum afla hefur verið landað hefur Hoffellið komið með 3.800 tonn af makríl að landi sem telst nokkuð gott miðað við fremur trega veiði við Ísland.

BÓA

Hoffell á landleið

Hoffellið er á landleið með 970 tonn af makríl. Aflinn fékkst við Grænlensku lögsöguna. Hoffellið verður í heimahöfn á Fáskrúðsfirði í fyrramálið, föstudaginn 10.ágúst.

Sandfell

Sandfell átti ágætan mánuð í júlí og landaði um 264 tonnum. Aflinn fór að mestu til vinnslu í frystihús LVF, 228 tonn af þorski, en annað, 36 tonn fór á fiskmarkað.
Verslunarmannahelgin var svo vel nýtt hjá Sandfellinu og landaði báturinn um 20 tonnum á laugardag og tæpum 23 tonnum á mánudag. Uppistaðan í þessum tveim veiðiferðum var þorskur og grálúða.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 92 tonnum af blönduðum afla. Uppistaðan karfi og ufsi. Skipið fer aftur á veiðar í dag, miðvikudaginn 8. ágúst kl 17:00

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í gær með um 800 tonn af makríl til vinnslu. Það kláraðist að landa úr skipinu í dag og hélt skipið strax til sömu veiða aftur.

Fyrsti makríltúr ársins hjá Hoffelli

Hoffellið er á leið í land með 600 tonn af makríl.  Skipið verður í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um miðnætti, sunnudaginn 22.júlí.   Er þetta fyrsti markíltúr Hoffellsins á þessu ári.  Veiðin gekk afar vel og sagði Bergur Einarsson skipstjóri að markríllinn væri stór og fallegur, um 420 grömm að meðalvigt.  „Við fengum þennan afla í tveimur hollum út af Kötlugrunni“ sagði Bergur og bætti því við að allt hefði gengið mjög vel og að hann væri bara glaður.  Hoffellið á 9000 tonna kvóta af makríl þannig að vertíðin er rétt að hefjast og reiknar Bergur með því að fast verði sótt á miðin á næstu vikum.

Makríllinn fer allur til manneldis og verður unnin hjá Loðnuvinnslunni.

BÓA