Landanir í bræðslu

Sigurður VE 15 landaði 1.100 tonnum af kolmunna föstudaginn 6.júlí og Heimaey VE 1 landar í dag, mánudag, 1.000 tonnun kolmunna.

Sandfell

Sunnudaginn 8.júlí landaði Sandfellið 18 tonnum á Vopnafirði eftir aðeins tvær lagnir.  Það sem af er júlímánuði hefur Sandfell landað 80 tonnum.

Ljósafell

Laugardagskvöldið 7.júlí kom Ljósafell að landi  með 100 tonn af blönduðum afla eftir aðeins tvo daga á veiðum.

Ljósafell

Ljósafell landaði 100 tonnum mánudaginn 2.júlí  og kom aftur að landi í dag, fimmtudag, með 60 tonn. Uppistaðan í báðum þessum túrum var ýsa.

Hoffell

Undanfarnar vikur hefur Hoffellið verið í slipp í Færeyjum.  Þar er verið að sinna almennu viðhaldi á skipinu og það málað í sínum fallega græna lit. Gert er ráð fyrir að skipið fari niður úr slippnum í lok næstu viku.

Sandfell

Sumarið hefur verið fengsælt hjá Sandfelli. Þann 23.júní landaði Sandfellið 18 tonnum, þann 24.júní kom Sandfell einnig með 18 tonn að landi og 25.júní voru voru 10 tonnum landað úr Sandfellinu.

Góður gangur hjá Ljósafelli

Vel hefur gengið hjá Ljósafellinu undanfarið. Þann 18.júní kom það að landi með 18 tonn og þann 22.júní landaði Ljósafellið 54 tonnum. Í gær, þann 28.júní,  landaði svo Ljósafellið 60 tonnum af blönduðum afla eftir aðeins 36 klukkustunda úthald.

Hoffell

Hoffell landaði í gær 1232 tonnum af kolmunna. Þessi afli var geymdur um borð í kælingu yfir helgina meðan sjómannadegi var fagnað. Skipið kom raunar inn á laugardagsmorgni og fór beint í skemmtisiglingu með fólk í tilefni sjómannadags. Nú er verið að taka veiðarfæri og búnað í land sökum þess að skipið er að fara í slipp til Færeyja.

Sjómannadagurinn

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík 6.júní 1938. Þannig að sjómannadagurinn á sér 80 ára sögu. Í Alþýðublaðinu  7.júní 1938 var grein um þennan fyrsta sjómannadag og þar stóð: „ Fyrsti sjómannadagurinn varð glæsilegur hátíðisdagur sem hertók borgina – og alla íbúa hennar“.  Síðan halda greinarskrifin áfram og lýsa vel hvernig þessi hátíðarhöld fóru fram.  Það voru ræðuhöld og skrúðganga þar sem raðað var í gönguna eftir sjómannafélögum og hver og ein fylking hafði í fararbroddi fána síns félags og  lýsingin í Alþýðublaðinu hljómaði svona: „ Var þetta geysi stór fylking og myndarleg, djarflegir menn og hraustlegir flestir og þó nokkrir hrumir sjómenn og bognir“.  Og nú 80 árum síðar höldum við enn uppá þennan dag sem tileinkaður er hetjum hafsins.

Greinarhöfundur spjallaði við sjómenn í tilefni dagsins. Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffellinu svaraði aðspurður að  í sínu hjarta væri sjómannadagurinn mikill hátíðsdagur.  „Þetta er lögbundinn frídagur sjómanna þannig að maður getur allaf gengið að því vísu að vera heima með fólkinu sínu á þessum degi“ sagði Bergur og bætti svo við að deginum fylgi líka ákveðin tímamót, það er talað um fyrir og eftir sjómannadag. Þá hafði Bergur líka orð á því að það væri gaman að fá alla þessa gesti um borð í skipið og vísar þar í boð Loðnuvinnslunnar til handa gestum og gangandi að fara í skemmtisiglingu með skipum og bátum Lvf á sjómannadegi.   Áhöfnin á Hoffellinu ætlar að fara saman út að borða í kvöld til þess að fagna deginum sem tilheyrir þeirra starfi.

Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu tekur í sama streng og segir að sjómannadagurinn sé í hans hjarta sannarlegur hátíðisdagur.  Hann heldur þó mest uppá hinn eiginlega sjómannadag sem er allra  jafnan fyrsti sunnudagur í júní.  „Nú er farið að dreifa hátíðarhöldum á alla helgina sem er fínt“ sagði Ólafur Helgi.  Hann bæti því líka við að sjómannadagurinn sé ekki aðeins hátíð sjómanna heldur líka fjölskyldna þeirra þvi það væri hluti af hátíðinni að hafa fólkið sitt með. „Allir taka þátt“ sagði hann réttilega.  Ólafur Helgi hefur verið skipstjóri á Ljósafelli um langt árabil og á dögunum átti Ljósafellið 45 ára afmæli. Það lá því beint við að spyrja skipstjórann aðeins út í afmælisbarnið.  „Það fiskaðist vel á afmælisdaginn eins og jafnan þegar skipið hefur verið til sjós á afmælisdaginn og við flögguðum auðvitað”.  Ljósafellið hefur 2svar farið í yfirhalningu en stálið í skrokknum er að mestu 45 ára gamalt og er gott ennþá. En þykktarmælingar á stálinu segja til um hversu gott það er. „Ljósafell á allmörg ár eftir enn“ sagði skipstjórinn bætti við til gamans að vindmælirinn í brúnni væri 45 ára og virki enn.  Áhöfnin á Ljósafellinu ætlar að gera sér dagamun með því að borða saman í kvöld.

Rafn Arnarson er skipstjóri á Sandfellinu.  Á Sandfellinu eru tvær áhafnir, aðra leiðir Rafn sem skipstjóri en hina áhöfnina leiðir faðir hans Örn Rafnsson. Greinarhöfundur náði í Rafn á heimaslóðum í Grindavík. Þegar Rafn var spurður að því hvort að honum þætti sjómannadagurinn hátíðisdagur og hvort að hann ætlaði að halda uppá hann svaraði hann að bragði: „Já, já, það verður feikilega mikið party hjá mér í kvöld“ en bætti því svo við að hann og konan hans væru að halda uppá 40 ára afmæli þeirra hjóna.  „Upplagt að slá þessu saman við sjómannadaginn „ sagði Rafn „auk þess er þetta eini dagurinn sem við pabbi eru báðir heima í einu fyrir utan jólin“.  Þar sem þeir feðgar róa til skiptis á sama bátnum vill þetta verða svona.  Aðspurður sagði Rafn að honum líkaði afar vel að vera á Sandfellinu, „það er svo gaman, engir tveir dagar eru eins, við förum á mismunandi mið, veðrið er allskonar, við löndum aflanum ekki alltaf á sama stað, þannig að tilbreytingin er mikil“ sagði fertugur maðurinn með bros í röddinni.

Skip Loðnuvinnslunnar buðu gestum og gangandi í grillaðar pylsur, gos og sælgæti áður en haldið var af stað í siglingu út fjörðinn og til baka. Þátttakendur í siglingum skipanna þessa sjómannadagshelgina voru um 350 manns.  Þar af voru einhverjir erlendir ferðamenn sem stöldruðu við á bryggjunni til þess að fræðast um það sem þar var í gangi og voru að vonum boðnir að taka þátt.  Það voru því margir saddir, sælir og ánægðir  „sjómenn“ sem stigu í land eftir vel heppnaða siglingu.

Greinarhöfundur óskar sjómönnum til hamingju með daginn og þakkar vel unnin störf.

BÓA

 

Sigling

Sigling í tilefni sjómannadags.
Á laugardag 2. júní kl 11:00 munu skip Loðnuvinnslunnar hf, Hoffell SU 80 og Ljósafell SU 70 ásamt Sandfelli SU 75 sigla með gesti um fjörðinn. Boðið verður uppá pylsur og gos. Siglt verður frá Bæjarbryggjunni.

Ljósafell

Ljósafell kom inn til löndunar í morgunn með fullfermi. Aflinn er blandaður, þorskur, ýsa, ufsi og karfi.
Túrinn er merkilegur fyrir þær sakir að í gær, 31. maí voru liðin 45 ár frá því að Ljósafellið kom fyrst til Fáskrúðsfjarðar. Ekki verður annað sagt en að skipið beri aldurinn vel og ekkert vantar uppá að skipið fiskar vel. Aflinn í maí var um 650 tonn, og við það bætist svo löndun í dag.

Sandfell

Sandfell landaði á Stöðvarfirði í gærkvöldi og var aflinn um 16 tonn. Mánuðurinn hefur verið ágætur og er heildar aflinn í maí um 256 tonn uppúr sjó. Báturinn landar aftur á morgunn, síðasta túr fyrir sjómannadag.