Hoffell á landleið með 940 tonn

Hoffell er á landleið með 940 tonn af makríl. Aflinn fékkst í Smugunni um 360 sjómílum frá Fáskrúðsfirði þannig að langt er sótt. Smugan er alþjóðlegt hafsvæði norður af Færeyjum þar sem myndast smuga á milli landhelgi Íslands, Noregs og Færeyja. Hoffellið er tveimur vikum fyrr í Smugunni heldur en í fyrra og sagði Guðni Ársælsson stýrimaður á Hoffellinu ástæðuna vera þá staðreynd að lítið hafi veiðst af makríl í íslenskri lögsögu þannig að ákveðið hefði verið að freista gæfunnar í Smugunni. Sagði Guðni ennfremur að þeir hefðu verið smá stund að finna makrílinn en þegar hann var fundinn gengu veiðarnar vel.  Veðrið var gott við veiðarnar sem og spáin góð fyrir heimferðina sem tekur um 32 klukkustundir. Hoffellið verður í höfn á Fáskrúðsfirði um kl. 24 laugardaginn 18.ágúst.

Þegar þessum afla hefur verið landað hefur Hoffellið komið með 3.800 tonn af makríl að landi sem telst nokkuð gott miðað við fremur trega veiði við Ísland.

BÓA

Hoffell á landleið

Hoffellið er á landleið með 970 tonn af makríl. Aflinn fékkst við Grænlensku lögsöguna. Hoffellið verður í heimahöfn á Fáskrúðsfirði í fyrramálið, föstudaginn 10.ágúst.

Sandfell

Sandfell átti ágætan mánuð í júlí og landaði um 264 tonnum. Aflinn fór að mestu til vinnslu í frystihús LVF, 228 tonn af þorski, en annað, 36 tonn fór á fiskmarkað.
Verslunarmannahelgin var svo vel nýtt hjá Sandfellinu og landaði báturinn um 20 tonnum á laugardag og tæpum 23 tonnum á mánudag. Uppistaðan í þessum tveim veiðiferðum var þorskur og grálúða.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 92 tonnum af blönduðum afla. Uppistaðan karfi og ufsi. Skipið fer aftur á veiðar í dag, miðvikudaginn 8. ágúst kl 17:00

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í gær með um 800 tonn af makríl til vinnslu. Það kláraðist að landa úr skipinu í dag og hélt skipið strax til sömu veiða aftur.

Fyrsti makríltúr ársins hjá Hoffelli

Hoffellið er á leið í land með 600 tonn af makríl.  Skipið verður í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um miðnætti, sunnudaginn 22.júlí.   Er þetta fyrsti markíltúr Hoffellsins á þessu ári.  Veiðin gekk afar vel og sagði Bergur Einarsson skipstjóri að markríllinn væri stór og fallegur, um 420 grömm að meðalvigt.  „Við fengum þennan afla í tveimur hollum út af Kötlugrunni“ sagði Bergur og bætti því við að allt hefði gengið mjög vel og að hann væri bara glaður.  Hoffellið á 9000 tonna kvóta af makríl þannig að vertíðin er rétt að hefjast og reiknar Bergur með því að fast verði sótt á miðin á næstu vikum.

Makríllinn fer allur til manneldis og verður unnin hjá Loðnuvinnslunni.

BÓA

Ljósafell aflasækið

Ljósafell SU 70 hefur verið aflasækið það sem af er júlímánuði.  Á lista sem birtur var á vegum Aflafrétta kemur fram að Ljósafellið er í öðru sæti yfir aflahæstu togarana með 562 tonn.  Túrarnir hafa verið stuttir, tveir til þrír dagar, og aflinn verið á bilinu 74 til 124 tonn.  Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu svaraði því til, þegar hann var spurður út í hið góða gengi Ljósafells, að nægur fiskur væri á miðunum sem Ljósafellið hefði verið á. „Við höfum haldið okkur á Papagrunni, þar er sumargotssíld og fiskurinn sækir í æti tengt henni og við höfum nánast setið einir að borðinu“, sagði Ólafur.  Síðan bætti skipstjórinn því við að veðrið væri búið að vera með afbrigðum gott, „rjómablíða, það bærist ekki hár á hárlausu höfði“ sagði hann kátur.

Aðspurður að því hvort að áhöfnin kættist ekki yfir hinu góða gengi sagði hann svo vera en bætti því jafnan við að álagið væri mikið þegar svona mikið fiskast. „Fiskurinn fer ekki sjálfur ofan í lest, þetta eru mörg  handtök“ sagði Ólafur.  Hann lagði ennfremur áherslu á það að áhöfnin væri góð því svona árangur hæfist ekki öðruvísi.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell kom að landi laugardagskvöldið 14.júlí, með 100 tonn eftir aðeins tvo daga á miðunum. Megin uppistaða aflans var ýsa, þorskur og ufsi.

Sandfell

Sandfell er með 20 tonn eftir tvær lagnir og landar á  Vopnafirði í dag, fimmtudaginn 12.júlí.

Ljósafell

Ljósafell kom að landi í gærkvöldi, miðvikudaginn 11.júlí, með 100 tonn. Megin uppistaða aflans var ýsa og ufsi.

Landanir í bræðslu

Sigurður VE 15 landaði 1.100 tonnum af kolmunna föstudaginn 6.júlí og Heimaey VE 1 landar í dag, mánudag, 1.000 tonnun kolmunna.

Sandfell

Sunnudaginn 8.júlí landaði Sandfellið 18 tonnum á Vopnafirði eftir aðeins tvær lagnir.  Það sem af er júlímánuði hefur Sandfell landað 80 tonnum.