Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur fjárfest í nýsköpunarfyrirtækinu Responsible Foods ehf. sem framleiðir nasl úr fiskafurðum. Responsible Foods var stofnað árið 2019 af Dr. Holly T. Kristinsson með það að markmiði að umbylta naslmarkaðnum með nýju heilsunasli sem fyrirtækið hefur þróað undir vörumerkinu Næra TM.   Fyrirtækið notar nýja tækni sem gerir það mögulegt að vinna og þurrka matvæli og önnur hráefni hraðar og við lægra hitastig en áður hefur verið hægt sem gerir það að verkum að hægt er að framleiða vörur með mjög hátt næringargildi og langt geymsluþol við stofuhita.

Responsible Foods hefur byggt upp verksmiðju í Húsi Sjávarklasans í Reykjavík sem framleiðir nasl úr öðru hráefni en fiski, þannig að þar er reynsla og kunnátta fyrir hendi. Fyrirhugað er að sú framleiðsla komi á markað í haust.

Á næstu mánuðum verður unnið að uppsetningu vinnslu á Fáskrúðsfirði sem mun vinna nasl úr sjávarfangi en þar mun að sjálfsögðu verða notast við gæðahráefni frá Loðnuvinnslunni.  Við framleiðsluna á Fáskrúðsfirði gætu skapast allt að 10 ný störf á næstu árum.

Nasl sem inniheldur hátt hlutfall próteins og annarra næringarefna, auk þess að teljast “lítið unnin”  og  “hrein” matvæli njóta mikilla vinsælda og er mikill vöxtur á markaði sem býður uppá hollari valkost.

Kaupfélagið og Loðnuvinnslan eru með þessari fjárfestingu að færa svolítið út kvíarnar í framleiðslu sjávarafurða og eru spennandi tímar framundan í þeim efnum.

BÓA

Fáskrúðsfjörður á fallegum degi. Ljósmynd: Óðinn Magnason