Ljósafell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði í morgun, mánudaginn 6.júlí með um 90 tonna afla. Vel hefur gengið hjá áhöfninni á Ljósafelli að undanförnu og gaman að geta þess að í maí mánuði var Ljósafellið í áttunda sæti yfir aflahæstu togarana og bætti svo um betur í júnímánuði og endaði í fimmta sæti með rúmlega 700 tonn í 7 róðrum.  Ljósfell hefur vanalega verið í tíunda til fimmtánda sæti yfir aflahæstu togara en, eins og áður sagði, gerði sér lítið fyrir og stökk upp um tíu sæti. Vel gert.

Hjálmar Sigurjónsson er skipstjóri á Ljósafelli og þegar hann var spurður út í hverju væri að þakka þetta góða gengi svaraði hann um hæl: “heppni og duglegir karlar um borð”.  Ekki vildi skipstjórinn eigna sér persónulega neinn heiður af þessari velgengni. “Ég er bara að reyna að standa mig í vinnunni” sagði hann “en auðvitað verða allir glaðir þegar vel gengur, bæði mannskapurinn um borð og útgerðin”. Hann sagði að veðrið hefði verið þeim hagstætt og að “fiskurinn var bara þar sem við vorum” bætti hann hóglátur við.  Hjálmar sagði líka að samstarf við aðra skipstjóra væri með miklum ágætum, þeir spjölluðu saman og deildu reynslu sinni. “Menn eru alveg hættir að ljúga hver að öðrum um fiskimið og aflabrögð” sagði skipstjórinn. 

Þegar greinarhöfundur náði tali af Hjálmari skipstjóra var hann staddur í bílskúrnum heima hjá sér og var að láta augun renna yfir þann tækjabúnað sem þar stendur því hann ætlaði sér að gera sér glaðan dag í landlegunni. Hann var fljótur að útiloka snjósleðan því, sem betur fer er ekki færi fyrir hann í Fáskrúðsfirði í júlí, en hann renndi hýru auga til mótorhjóls sem þar stóð. Þegar greinarhöfundur benti honum á sláttuvél sem valkost var hann fljótur að segja: “nei, nei, Dagný á þessa” og átti þar við konu sína. Svo mótorhjólið varð fyrir valinu að þessu sinni og skipstjórinn Hjálmar hélt uppá góðan árangur til sjós með því að fá sér ökuferð á landi.

BÓA

Hjálmar Sigurjónsson með Ljósafellið í bakgrunni