Hér áður fyrr var talað um að þreyja Þorrann og Góuna. Þetta orðatiltæki var notað þegar fólk þurfti að þola tímabunda erfiðleika því sannarlega eru þessir mánuðir þeir erfiðustu á Íslandi. Og í gamla daga þegar híbýli fólks voru ekki sömu gæðum gædd og nú, og matur var oft af skornum skammti, þá þráðu menn hækkandi sól og mildari veður.  En hafsins hetjur eru ekki að horfa á dagatalið. Nú orðið fara sjómenn til veiða þegar aflinn býðst. Skip og bátar verða betri og betri og um leið öryggi þeirra sem á sjóinn sækja. 

Hoffell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði með fullfermi af kolmunna að morgni 22.febrúar.  Aflinn var fenginn á alþjóðlegu hafsvæði 270  mílum vestur af Írlandi.  En frá heimahöfn að miðunum eru um 700 mílur, þannig að langt er að fara.  Túrinn tók sex daga frá því að landfestar voru leystar og þar til þær voru bundnar aftur.

Veiðarnar gengu afbragðsvel og sagði Bergur Einarsson skipstjóri að þessi 1.600 tonn hefðu fengist á 36 klukkustundum og þegar hann var spurður að því hvernig áhöfninni hefði tekist að fylla á svona skömmum tíma svaraði hann því til að veðrið hefði verið hagstætt, það hefði aðeins þurft að stoppa í fjórar klukkustundir þegar veðrið var óhagstætt.  En veður á þessu hafsvæði geta verið válynd og jafnvel þegar það er logn geta verið himinháar öldur.

“Hvernig veistu hvar þú átt að finna kolmunna?” spurði greinarhöfundur og kom þar með upp um fákunnáttu sína á fiskveiðum almennt. “Ætli það sé ekki sambland af vísindum, tækni, reynslu, innsæi  og á stundum heppni” svaraði Bergur hæglega enda hafði hann ekki tíma til að fara djúpt í þá sálma þar sem Hoffell siglir aftur á sömu mið strax og löndun líkur. 

BÓA