Norska uppsjávarskipið Slaatterøy kom með 1.600 tonn af kolmunna til bræðslu hjá Loðnuvinnslunni.  Lagðist Slaatterøy að bryggju að kvöldi 18. febrúar og gert var ráð fyrir tæplega sólarhrings stoppi til þess að landa aflanum.  Skipstjóri á þessu fallega rauða skipi er maður að nafni Asle Halstenssen, 46 ára gamall Norðmaður sem ólst upp við sjávarsíðuna og við fiskiskipaútgerð.  Þegar greinarhöfundur kom að skipshlið kom í ljós að nokkuð klöngur yrði fyrir landkrabbann að komast um borð en Asle skipstjóri var ekki í neinum vandræðum með að koma í land.  Fór spjall okkar því fram með fast land undir fótum.  

Slaatterøy er skráð í Bergen en að sögn Asle eru það lög í Noregi að skip skulu skráð í borg þrátt fyrir að höfuðstöðvar og heimahöfn  hafi alltaf verið á Austevoll sem er sveitarfélag suðvestur af Bergen og samanstendur af allmörgum eyjum.  Samkvæmt upplýsingum um Austevoll á Internetinu.  Er þar að finna eina af stærstu fiskiskipahöfnum í heimi.

Útgerð Slaatterøy er fjölskyldufyrirtæki. Asle er lítill hluthafi en faðir hans og frændi eru stærstu eigendur útgerðarinnar.  Er Halstensen eldri enn í fullu starfi, á 74 aldursári, við að stjórna þessari blómlegu útgerð sem samanstendur af þremur uppsjávarveiðiskipum og einu stóru fjölveiðiskipi sem fullvinnur aflann um borð.  Þegar greinarhöfundur hváði við að heyra aldurinn á manninum við stjórnartaumana svarið Asle “hann er hraustur og hefur frábæra konu sér við hlið sem sér um allt annað” og átti þar við móður sína, en greinilegt er að fyrirtækið er eigendum þess kært enda búið að vera í eigu fjölskyldunnar síðan það var stofnað árið 1897.

Slaatterøy þykir orðið frekar gamalt skip, byggt árið 1997, en Asle segir að það sé afbragðs gott skip í mjög góðu standi.  Hann hafði líka orð á því að vélin í Slaatterøy væri önnur stærsta vélin í fiskiskipaflota Norðrmanna eða heil 9000 hestöfl.  Asle sagðist geta sagt það sama og fyrri eigandi Slaatterøy, sem hafi keypt hana nýja til Hjaltlandseyja, hefði sagt þegar hann seldi hana til Noregs að hann vildi fá annað alveg eins skip, bara nýtt.  Það hljóta að vera góð meðmæli með skipi, að vilja engu breyta.

Aðspurður um áhöfn sína sagði Asle að hann hefði frábæra áhöfn. “Við erum tíu um borð í einu og það er mjög góður andi hjá okkur, við skemmtum okkur oft svo vel saman að við grínumst með það að það sé ótrúlegt að við skulum fá borgað fyrir að vera saman” sagði skipstjórinn sáttur með sína menn.  Ekki hafa verið miklar mannabreytingar meðal áhafnarinnar,  þó að flestir meðlimir séu í yngri kantinum núna en algengt er að menn hafi verið á sama skipinu í 30 til 40 ár.  Á Slaatterøy eru tvær áhafnir sem skiptast á að sækja sjóinn þannig að Asle er á sjó um 120 daga á ári.  Hina 242 dagana er hann heima að vinna við útgerðina, sinna börnunum sínum fimm og njóta samvista við konu sína til 29 ára.  Er hann var inntur eftir  því hvort að hann væri liðtækur í eldamennsku og heimilisstörfum svaraði hann um hæl: “Að sjálfsögðu, ég á fimm börn á aldrinum 5 til 18 ára, það þarf að gefa þeim að borða” og svarinu fylgdi breytt bros.  En þegar hann á frí og vill gera eitthvað sjálfum sér til ánægju og yndisauka þá tekur hann veiðistöngina sína, hellir kaffi á brúsa og fer til silungaveiða og hefur með eitthvað af börnum sínum. “Hvernig stendur á því að þú kemur með afla sem þið veidduð 220 mílum vestur af Írlandi alla leið til Íslands?”  “Allur afli er boðinn upp í gegn um norsk sölusamtök og skipin sigla þangað sem kaupandinn er og ég er mjög sáttur að koma með aflann til Fáskrúðsfjarðar, hér er tekið afar vel á móti okkur, við erum boðnir velkomnir með köku, sem áhöfnin kann vel að meta og okkur er hrósað fyrir gott hráefni” sagði Asle skipstjóri.

Miðin vestur af Írlandi þangað sem kolmunninn er sóttur er alþjóðlegt hafsvæði og þar mega veiða þau skip sem hafa til þess kvóta.  En þetta er strembið svæði til að veiða á þessum tíma árs.  Veður geta verið vond og ölduhæð mikil, “en þetta er vinnan” sagði Asle “ hún getur verið stressandi og því er svo mikilvægt að um borð sé gott samfélag. Við hugsum vel hver um annan ” bætti skipstjórinn geðþekki Asle Halstensen við og það þykja greinarhöfundi góð lokaorð.  Þá var ekki annað eftir en að taka í hönd skipstjórans og óska sægörpunum á Slaatterøy gæfu og gengis.

BÓA

Asle Halstensen