Nú þegar landið er klætt snjó þá virðast dagarnir bjartari og jafnvel ofurlítið lengri en ella.  Auðvitað er hluti skýringarinnar sú að sólin hækkar sig á lofti og lætur geisla sína smjúga inn um glugga og dyr og skellir jafnvel mjúkum kossi á vanga barna í sleðabrekkum, en hvíta mjöllin á sinn þátt í birtunni.  Við aðstæður sem þessar er gott að heimsækja skemmtilegt fólk, drekka kaffi og spjalla um daginn og veginn.  Að þessu sinni sótti greinarhöfundur heim heiðurshjónin Sigurjón Jónsson og Margréti Jensínu Magnúsdóttur. 

Sigurjón er verkstjóri í frystihúsi Loðnuvinnslunnar, en hann réð sig til starfa s.l. sumar og þau hjónin fluttu í bæinn 17.júní, á sjálfan þjóðhátíðardaginn og þann 18. byrjaði Sigurjón að vinna.

Margrét og Sigurjón störfuðu áður í flugstöð Leifs Eiríkssonar og þeim leiddist báðum í störfum sínum og voru tilbúin að breyta til þegar tækifærið um að flytjast búferlum á Fáskrúðsfjörð bankaði á dyrnar og skemmst er frá því að segja að þau gripu þetta tækifæri fegnis hendi og búa nú ásamt tveimur litlum hundum í Búðaþorpi og una hag sínum vel.

Ekki stenst nú greinarhöfundur mátið að spyrja hvernig þeim líki að vera hér  og svarið var afdráttarlaust.

“Við vissum nú alveg að hverju við vorum að ganga” sagði Sigurjón, “við dvöldum hér sumarlangt árið 1984 og þá vann ég á Pólarsíld” bætti hann við.  Þá voru þau hjónin sammála um að það auðveldaði alla aðlögun á nýjum stað að þekkja eitthvað fólk og það gerðu þau svo sannarlega, gamlir vinnufélagar frá Pólarsíld eru núna jafnvel vinnufélagar hjá LVF.  Það auðveldar oft lífið  að geta  heilsað uppá gamla kunningja um leið og maður eignast nýja.  “Og ég vissi alveg að það væri mikið að gera, en hafði nú ekki grun um að annirnar yrðu eins miklar og raun ber vitni” sagði Sigurjón brosandi og sagði líka frá því að honum hefði svolítið fallist hendur þegar hann kom inní frystihúsið og sá hvað það var tæknilegt og mikið af vélum og tækum sem hann hafði ekki reynslu af, en sagði að það hefði að sjálfsögðu allt lærst og í dag líkaði sér vinnan afar vel.

Sigurjón er ættaður úr Hafnarnesi.  Móðir hans er Jóhanna Ingigerður Sigurjónsdóttir sem var uppalin í Hafnarnesi, þannig að segja má að í einhverjum skilningi sé Sigurjón kominn aftur til rótanna þó svo að hann sjálfur sé fæddur og uppalinn í Sandgerði.  En hér liggja rætur forfeðra hans og hér á hann ættingja.

Svo skemmtilega vill til að Margrét á ættir að rekja hingað á Fáskrúðsfjörð líka.  Amma hennar og alnafna, Margrét Jensína Magnúsdóttir var fædd hér og uppalinn en fór ung norður í land en Margrét yngri er líka fædd og uppalin í Sandgerði.

“Við erum jafnaldrar og vorum saman í bekk í Grunnskóla.  Húsin sem við ólumst upp í voru í sitthvorri götunni en þannig staðsett að það sást á milli þeira, svo að óhætt er að segja að við séum búin að vera samferða allt lífið” segja þau hjónin og líta ástúðlega hvort til annars.  Margét og Sigurjón rugluðu saman reitum þegar þau voru 17 ára gömul og eiga sjö börn á aldrinum 25 til 43 ára.  Barnabörnin eru orðin 10.  þannig að þau eiga stóra fjölskyldu og þrátt fyrir að vegalengdin á milli þeirra sé töluverð eru samskiptin mikil því með allir þeirri tækni, sem boðið er uppá í nútíma samfélagi er auðvelt að sjá og heyra í fólkinu sínu hvar sem það er niðurkomið.

Margét hóf stöf sem skólaliði í Grunnskólanum á Fáskrúðsfirði og segir það frábæra leið til að komast inní samfélag.  Þar kynnist hún nemendum sem og öðru starfsfólki skólans og líkar henni mjög vel í vinnunni.  Svo er Margrét líka jógakennari og hefur boðið uppá jógatíma hér í Búðaþorpi sem hafa verið vel sóttir. “Svo er ég líka Aerial jógakennari” sagði Margrét um leið og hún útskýrði fyrir greinarhöfndi tilgang heljarmikillar blárrar slæðu sem hékk niður úr loftinu á heimili þeirra hjóna.  Aerial jóga er sem sagt líkamsæfingar sem gerðar eru með hjálp slæðunnar bláu og fékk greinarhöfundur litla sýningu á notkun slæðunnar í áðurnefndu jóga og niðurstaðan er sú að Margrét er afar fim kona og hægt er að þjálfa líkamann á fjölbreytilegan hátt kunni menn til verka.

Svo er Margrét líka svæðanuddari og hefur leigt sér aðstöðu til þess að sinna því. ´”Ég hef farið á allskonar nuddnámskeið og tek líka að mér partanudd eins og axlir, höfuð og þess háttar, en ég er aðallega í svæðanuddinu” segir Margrét og segir að það sé nokkuð að gera hjá henni þar líka. 

Þau hjónin hafa greinilega nóg fyrir stafni þannig að spurningin sem situr eftir er sú hvort að það sé einhver tími fyrir tómstundir?  Sigurjón er frímúrari og hefur komið sér í samband við félaga sína hér fyrir austan. “Ég er líka Bridge spilari, en hef ekki gefið mér tíma til að fara að spila ennþá, en ég veit hvar og hvenær er verið að spila þegar tækifærið gefst” segir Sigurjón.  Margrét gekk í kirkjukórinn og syngur þar sjálfri sér og öðrum til ánægju. Og svo þurfa þau auðvitað að sinna hundunum sínum sem eru fallegir litlir hnoðrar sem eiga erfitt með að fóta sig úti í snjónum.

Þau Margrét og Sigurjón eru ánægð á Fáskrúðsfirði, þau segja að allstaðar hafi verið vel tekið á móti þeim og þeim líði vel.  “Við eigum heima hér” segja þau og það eru frábær lokaorð því að þau fela í sér vellíðan og öryggi. Við bjóðum þau velkomin.

BÓA