Á dögunum færði Loðnuvinnslan Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar fimm þráðlausa hljóðnema að gjöf.  Hljóðnemunum fylgir að sjálfsögðu sendir og annar búnaður sem þarf til þess að þeir virki sem skyldi. Er gjöfin að andvirði 250 þúsund króna. Eygló Aðalsteinsdóttir skólastjóri tók á móti gjöfinni fyrir hönd Grunnskólans og aðspurð sagði hún að gjöfin væri afar vel þegin og nemendur og starfsfólk skólans væri afskaplega þakklátt fyrir þessa góðu gjöf.  “Þegar við höldum árshátíð Grunnskólans er hefð fyrir því að setja upp eitthvert leikrit og til þess að talað mál skili sér vel út til áhorfenda er nauðslynlegt að hafa hljóðnema” sagði Eygló.  Í nóvember s.l. var árshátíð nemenda haldin þar sem sýnd voru atriði úr Konungi ljónanna og undanfarin ár hafa hljóðnemar verið leigðir en að þessu sinni bar svo við að þeir voru uppteknir og þá voru góð ráð dýr og því var ákveðið að leita til Loðnuvinnslunnar sem hefur stutt vel við Skólamiðstöðina um langt skeið. “Þessi gjöf nýtist að sjálfsögðu allri Skólamiðstöðinni” bætti Eygló við því að Leikskólinn, Tónlistarskólinn og Grunnskólinn nýta salinn og þann búnað sem þar er.  Þá sagði Eygó að það væri dýrmætt að eiga góða að og vildi gjarnan koma á framfæri þakklæti fyrir greiðsemi og liðlegheit varðandi akstur á börnum til og frá íþróttahúsi þegar færð er slæm og veður eru vond. “Ég hef ósjaldan hringt og spurt hvort að rúta Loðnuvinnslunnar geti ekið nemendum og ávalt fengið góðar viðtökur” sagði Eygló og er þakklæti allra þeirra sem vinna og starfa í Skólamiðstöðinni hér með komið á framfæri.

BÓA