Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Ljósmynd: Kjartan Reynisson

„Sælt er að eiga sumarfrí

sveimandi út um borg og bí

syngjandi glaður aka í

óbyggðaferð í hópi“.

Þessar textalínur eftir Ómar Ragnarsson komu upp í hugann þegar greinarhöfundur sá myndir af stæðilegum jeppum félaga í Ferðaklúbbnum 4X4 á Austurlandi en laugardaginn 13.október s.l. bauð Ferðaklúbburinn skjólstæðingum Félagsþjónustunnar í Fjarðabyggð og á Héraði í árlega jeppaferð. Voru 8 bílar með í ferðinni sem fluttu um 30 ánægða  og syngjandi glaða farþega.  Er ferðalag af þessu tagi árlegur viðburður. “ Þetta eru alltaf mjög skemmtilegar og sama fólkið kemur aftur og aftur“ sagði Sigurður Kári Samúlesson skipuleggjandi ferðarinnar í ár, og bætti því við  að þetta hefði líklegast verið tíunda ferðin sem Ferðaklúbburinn 4X4 á Austurlandi bíður einstaklingum sem ekki eiga þess kost sjálfir að aka stórum breyttum jeppum.   „Við ókum sem leið lá frá Egilsstöðum inn Skriðdalinn, tókum þá Þórdalsheiðina niður í Reyðarfjörð. Þaðan ókum við svo á Fáskrúðsfjörð þar sem öllum hópnum var boðið í kaffi á vegum Loðnuvinnslunnar. Veitingarnar voru hrikalega flottar og allir voru mjög ánægðir“ sagði Sigurður Kári.  Ferðalangarnir fengu dásamlegt veður til fararinnar sem gerir upplifunina enn betri og sagði Sigurður Kári að allir hefðu verið í skýjunum að ferðalokum.

BÓA