Í dag færði Kaupfélagið dvalarheimilinu Uppsölum góðar gjafir.  Annars vegar var um að ræða svo kallaðan blöðruskanna sem notaður er til þess að óma þvagblöðrur í þeim tilgangi að kanna hvort að þær tæmist við þvaglát,  og hins vegar gasgrill.  Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunastjóri og Ragnar Sigurðsson framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð tóku á móti gjöfunum fyrir hönd Uppsala.  Aðspurð um mikilvægi þess fyrir Uppsali að eiga blöðruskanna svaraði Elín að það væri afar mikilvægt. Þannig vill nú til að þegar mannfólk eldist gengur oft á tíðum erfiðlega að tæma þvagblöðruna og eykst þá hættan við blöðrubólgu og aðra erfiðleika sem geta valdið alvarlegum veikindum.  Áður þurfti að senda heimilisfólk á Neskaupsstað til þess að gangast undir þessa einföldu ómun, og er það heilmikil fyrirhöfn fyrir þá sem eru orðnir ferðalúnir, og þess vegna sé það afar mikilvægt að tækið sé fyrir hendi hér heima.

Ragnar þakkaði Kaupfélaginu kærlega fyrir góðar gjafir og stuðning í gegnum árin, hann sagði það ómetanlegt fyrir Uppsali að eiga svo góðan bakhjarl sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur reynst.  Þá hafði hann orð á því að þó svo haustið væri komið og vetur á næsta leiti væri ekki úr vegi að grilla  eitthvað góðgæti við tækifæri en var þess fullviss að grillið kæmi að góðum notum næsta sumar.

Að lokum var heimilisfólki og gestum boðið uppá kaffi og meðlæti til þess að fagna þessum góðu gjöfum.

BÓA