Sandfellið hefur náð þeim frábæra áfanga að vera aflahæsti krókabáturinn frá upphafi með 2400 tonna afla á fiskveiðiárinu! Hefur útgerðin á Sandfelli gengið langt umfram væntingar enda var litið á línubátaútgerð sem svolítið tilraunaverkefni þegar hún hófst en annað hefur aldeilis komið á daginn eins og áfhöfnin á Sandfelli hefur sýnt og sannað.

Í tilefni árangursins var áhöfninni á Sandfelli færð terta sem var „afbragðsgóð og fín í magann“ eins og Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfellinu hafði á orði. Þegar hann var spuður að því hverju hann vildi þakka þennan góða árangur sagði hann að það væru nokkrir samverkandi þættir. „Við erum í frjálsum veiðum, sem þýðir að það er ekkert sem að stoppar okkur nema veðrið. Við erum með tvær frábærar áhafnir, góðan bát og útgerð sem sér um að koma aflanum til vinnslu, við þurfum sem sé aldrei að stoppa vegna þess að vinnslan hafi ekki undan eða þess háttar“ sagði Örn. En langstærstur hluti þess afla sem Sandfell kemur með að landi er unnin í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Örn sagði líka að það fyrirkomulag að vera tvær vikur á sjó og tvær vikur í fríi væri gott fyrirkomulag og samstarf áhafna væri mjög gott.  Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvað það væri sem bryti upp dagana þegar sjórinn er sóttur svona fast eins og gert er á Sandfellinu og Örn var ekki í vafa um svarið: „það er matartíminn, við erum alltaf spenntir að komast í mat, kokkarnir  eru mjög góðir og elda góðan mat og svo er það auðvitað sá tími dagsins sem við höfum tækifæri til að spjalla svolítið saman“.

Og nú er Sandfell á leið í slipp á Akureyri. Það þarf að hlú að vél og skrokk svo að Sandfellið haldi áfam að vera það happafley sem það hefur verið til þessa. Og er Örn skipstjóri var inntur eftir því hvort að hann setti sér aflamarkmið fyrir næsta fiskveiðiár sagðist hann ekki myndi gera það „markmiðið er það eitt að gera sitt allra besta“ sagði Örn Rafnsson.

BÓA