Um leið og dyrnar lukust upp rétti greinarhöfundur fram höndina til þess að heilsa en í stað þess að taka í útrétta höndina sagði húsráðandi hæglega: “Komdu inn, það boðar ógæfu að heilsast yfir þröskuld”. Þá steig greinarhöfundur inn í forstofuna og uppskar traust og hlýlegt handaband frá Árna Jónassyni. Árni þessi býr á Egilsstöðum en er mörgum Fáskrúðsfirðingum að góðu kunnur þar sem hann starfaði hjá Loðnuvinnslunni í fjölda ára.

Í upphafi samtalsins óskaði greinarhöfundur eftir því að fá útskýringu á því hvernig stæði á því að stundum væri hann nefndur Malmfreðsson og stundum Jónasson og svarið hafði Árni á reiðum höndum. “ Pabbi minn hét Malmferð Jónas og ég var orðinn svo þreyttur á því að þurfa að marg endurtaka föðurnafnið þegar ég sagði til nafns að ég lét breyta því í Þjóskrá og er nú skráður þar Jónasson”. Og samkvæmt lauslegri könnun í Þjóðskrá ber engin núlifandi Íslendingur nafnið Malmfreð svo engan þarf að undra þó svo að nafnið hafi valdið hugarbrotum.

Árni er fæddur á Akureyri en ólst upp á Eskifirði. Móðir hans var úr Svarfaðardal en faðir hans var Eskfirðingur.  16 ára gamall fór hann fyrst til sjós á Krossanesi sem var síldarbátur á Eskifirði. Þá var svo mikill hafís  að það tók þá heilan sólarhring að komast út úr firðinum.  Þessi fyrsti túr var sannarlega eftirminnilegur ekki aðeins fyrir hafísinn heldur líka fyrir þær sakir að hann tók Árna og félaga alla leið til Færeyja sem var ævintýri líkast fyrir 16 ára unglinginn því þar var líf og fjör og “fullt af stelpum” sagði Árni brosandi en bætti því við að karlarnir um borð hefðu verið afskaplega góðir við hann og passað hann vel.

Þegar Árna var ljóst að sjómennskan yrði hans lifibrauð ákvað hann að drífa sig í nám  því tengdu og fyrir valinu var Vélskólinn á Akureyri.  Að því námi loknu starfaði hann á hinum ýmsu skipum og bátum sem vélstjóri.  Og þegar upp var staðið frá sjómennskunni voru árin til sjós orðin 49.

Eftir tæpa hálfa öld á sjó sitja margar minningar í hugarskotinu. Greinarhöfundur bað Árna að rifja upp nokkrar svona til gamans.  Hann segir frá því að hann hafi einu sinni lent í strandi við Færeyja á Krossanesinu en það tókst að draga þá á flot og hættunni afstýrt.   Svo segir hann frá því að einu sinni hafi hann farið í siglingu til Þýskalands með Hólmanesinu og á leiðinni heim lentu þeir í þeirri mestu lægð sem komið hefur og í stuttu máli má segja að það hafi verið brjálaður sjógangur og Árni var hálfsmeykur því að dóttir hans var með í túrnum. “En hún var ekki smeyk, hún hélt að þetta ætti bara að vera svona” segir Árni hlæjandi.  Og áfram tölum við um Hólmanesið og hann segir frá því að það hafi ekki verið neinn hljóðkútur á Hólmanesinu og þegar skipið silgdi inn Eskifjörðinn milli kl.6 og 8 á morgnana þá drundi þvílíkt í fjöllunum að allir bæjarbúar vöknuðu.  “Sagan segir að mörg börn hafi komið undir milli kl.6 og 8 þessa morgna” og við skemmtum okkur yfir þessari minningu Árna.   Síðan var Árni í átta mánuði á sjó við Afríku.  Hann var á skipi sem var gert út af Spánverjum. “Við vorum að veiða kolkrabba í troll, og auðvitað reyndi maður að borða þetta en það var eins og að japla á gúmmíslöngu” sagði Árni og greinarhöfundur skellir uppúr því sjáf býr hún yfir álíka sögu af kolkrabba áti. “En landið var ömurlegt” og átti Árni þar við Máritaníu sem er í Norður Afríku og er landið eitt mesta þurrkasvæði heims, “ömurlegt í þeim skilningi að þar er rosleg fátækt  og sérstaklega ömurlegt var að sjá hvað konurnar höfðu það slæmt” bætti hann við.  Og Árni var með þegar Hoffellið bjargaði flutningaskipinu Ölmu frá standi  2011 og dró það úr Hornafjarðarósnum til Fáskrúðsfjarðar og eins þegar Hoffellið fékk á sig brotsjó og minnstu munaði að illa færi.

Árið 1999 ræður Árni sig til starfa hjá Loðnuvinnslunni á gamla Hoffellið.  Hann rifjar upp hversu brösuglega gekk fyrstu mánuðina. “Það var alltaf eitthvað bilað og það hefði ekki gengið ef ekki væri svona frábær þjónusta í landi, hjá vélarverkstæðinu og rafmagnsverkstæðinu en þar eru frábærir starfsmenn sem lögðu mikið á sig til þess að láta þetta skip ganga.

En svo varð gjörbreyting á skipinu eftir að það fór alsherjar yfirhalningu í Póllandi”.  Árni fór með og dvaldi í átta mánuði í Póllandi meðan skipið var endurnýjað.  “Það var fínn tími” sagði Árni “Eiríkur Ólafsson þáverandi útgerðarstjóri og konan hans Guðrún Níelsdóttir sköpuðu festu þennan tíma á þann máta að við borðuðum alltaf kvöldmat hjá þeim. Þau hugsuðu afar vel um okkur og einn félaginn kallaði Guðrúnu í gríni “big mama” sagði Árni.  Hann segir einnig frá því hve skipið gjörbreyttist eftir uppgerðina í Póllandi og Árni þekkti þetta skip vel, þekkti alla þess kosti og galla og þegar kom að því að setja það á sölu og festa kaup á nýju skipi tók Árni að sér það verkefni að hafa umsjón með skipinu í höfninni þangað til það yrði selt.  “Ég sá fyrir mér að þetta myndi taka svona sex mánuði, en það urðu þrjú ár”  sagði hann og Árni var einn af þeim sem skiluðu gamla Hoffellinu alla leið í nýja heimahöfn á Las Palmas á Kanaríeyjum.  Og þar skildu loks leiðir Árna og Hoffelsins, hann skildi við skipið vaggandi mjúklega í heitum sjó.  Og það er engin eftisjá.  Árni segir að það þýði ekkert að dvelja við það sem liðið er. Nú er hafinn nýr kafli hjá honum þar sem hann, eftir 49 ár á sjó, er farinn að vinna við pípulagnir í landi og hann er sáttur og konan hans jafnvel sáttari. m að hll þess að heilsa en  m að hll þess að heilsa en

Árni hefur búið á Egilsstöðum frá árinu 1973 en þangað sótti hann sér eiginkonu.  Þau hjónin eignuðust þrjár dætur sem allar hafa komið ár sinni vel fyrir borð, svo notað sé líkingamál af sjónum, og barnabörnin eru orðin sex.  “Dæturnar eru nú stundum að hvetja okkur til að flytja á mölina en ég held að ég myndi bara koðna niður í Reykjavík” segir Árni og sýpur af  drykkjarkönnunni sem hann er með í höndunum og greinarhöfundur rekur augun í það að kannan er merkt Vélgæði, fyrirtæki sem var í eigu nokkurra heiðursmanna á Fáskrúðsfirði, og ekki er annað hægt en að minnst á drykkjarkönnuna. “þetta er mikil uppáhaldskanna” segir Árni, “það eru ansi margir lítrarnir sem hafa runnið ofan í mig úr þessari könnu” bætti hann við brosandi.  Og þar sem við sitjum þarna saman á fallegu heimili Árna og fjölskyldu, þar sem allt var orðið svo jólalegt og ilmurinn af jólate-inu sem greinarhöfundur hafði í sinni könnu toppaði stemninguna, lá beinast við að spyrja Árna hvort að hann væri jólabarn. “Nei” segir hann, “það er konan mín sem á heiðurinn af skreytingunum”. Og hann bætir við “en ég þakka almættinu fyrir Led seríur.  Dóttir mín rifjaði það upp að ein af hennar æskuminningum tengdum jólum væri pabbi í brjáluðu skapi og flæktur í jólaseríu”  og brosið sem fylgir þessari upprifjun er milt, eins og minningin sjálf. Þá berst talið að sjómennskunni og fjölskyldunni og Árni ítrekar það að honum líki vel að vera komin í land “ég var í fyrsta skipti heima á afmælisdegi yngstu dóttur minnar þegar hún varð 21 árs” segir Árni og hann bætir því við að hann stefni að því að öll sjósókn héðan í frá muni vera bundin við sjómannadaginn. “Þá kem ég á Fáskrúðsfjörð og fer í siglingu með Hoffelinu”.

Aðspurður um tómstundir segist hafa gaman af því að fá sér göngu með konu sinni en kannast jafnframt við það að hann þyrfti að koma sér upp tómstundaiðju af einhverju tagi því nú hefur hann tíma.

Nú er mál að kveðja þennan heiðursmann sem greinarhöfundur var að hitta í fyrsta skipti en stemmningin við eldhúsborðið er meira eins og við værum gamlir kunningjar.  Og Árni biður fyrir kveðjur og þakkir til Loðnuvinnslunar og fyrrum vinnufélaga.  “Mig langar að þakka fyrir gott viðmót og góða viðkynningu, hvort heldur fyrrverandi eða núverandi framkvæmdastjóri, fyrrverandi eða núverandi útgerðastjóri,  allt hafa þetta verið heiðursmenn sem hafa reynst mér vel.  Svo ég tali nú ekki um félagana á sjónum.  Ég þakka þeim fyrir samvinnuna og samveruna, þetta voru og eru frábærir félagar”.  Og stjórnendur Loðnuvinnslunnar þakka Árna fyrir sín góðu störf og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar.

Við kvöddumst með handabandi áður heldur en greinarhöfundur gekk út í snjómugguna og jólaljósin úti við lýstu leiðina heim.

 

BÓA