María Björk Stefánsdóttir og Sigmar Örn Harðarson

Samkvæmt dagatalinu er vetur genginn í garð.  Eitt af því sem fylgir vetri konungi er myrkrið sem umlykur allt og felur þar sem ljós eru af skornum skammti.  Eitt af þeim húsum sem standa næst sjónum í þorpinu sem stendur við Fáskrúðsfjörð er hús sem kallað er Rúst.  Rúst tilheyrir Búðavegi en stendur samt miklu nær ónemdum vegi við flæðarmálið og þegar greinarhöfundur steig út úr bíl sínum, sem lagt var steinsnar frá sjónum , til þess að heimsækja húsráðendur í Rúst var myrkrið þétt en ljósin úr gluggum heimilisins í Rúst lýstu leið.

Í Rúst búa hjónin María Björk Stefánsdóttir og Sigmar Örn Harðarson ásamt sonum sínum Heiðberti Óla og Herði Marino og einum hvolpi sem heitir Krummi.  Í þessu gamla húsi hafa þau búið sér fallegt heimili og útsýnið úr suðurgluggunum þeirra er engu líkt, fjöllin og sjórinn í nærmynd.

Sigmar er Fáskrúðsfirðingur, hefur búið hér alla sína ævi, hér búa foreldar hans og hér bjuggu amma hans og afi.  Hann er elstur þriggja bræðra.  María Björk er uppalin í Vogum á Vatnsleysuströnd en á ættir sínar hingað.  Hún er ein fjögurra systra.  Faðir hennar er Fáskrúðsfirðingur og  amma hennar og afi bjuggu hér.  Í barnæsku kom María til ömmu og afa á Fáskrúðsfirði á hverju sumri og þegar ég spyr þau hvenær þau hafi kynnst segja þau að það hafi verið einhverntíman á æskuárum, þegar María Björk var stúlkan í heimsókn og Sigmar drengur á heimaslóðum og þau léku sér saman.  Hvort að örlögin voru ráðin strax þá er ómögulegt að segja en staðreyndin er sú að þau eiga margt sameiginlegt.  Þau eru t.a.m. fædd sama dag,  10.október 1985!

Það var svo árið 2006 að María Björk kemur til Fáskrúðsfjarðar ásamt vinkonum til þess að fara á konukvöld, skemmtun sem haldin var í íþróttahúsinu og þegar dansleikurinn hófst að skemmtun lokinni mættu karlmennirnir á svæðið og dansinn dunaði fram á nótt.  Á einhverjum tímapunkti hófu þau Sigmar og María dans sem þau dansa enn og af því að lífið er skemmtilegt og skondið á köflum þá giftu þau sig í Fáskrúðsfjarðrkirkju þann 10.10.10.  Á afmælisdegi þeirra beggja árið 2010.

Var aldrei vafamál hvar þið vilduð setjast að? spyr greinarhöfundur, „Nei, segir María Björk, ég sagði alltaf þegar ég var krakki að ég ætlaði að eiga heima á Fáskrúðsfirði þegar ég yrði stór.“ Svo ég er bara að lifa þann draum“ segir hún hlæjandi.  Og svo segir hún frá því þegar þau hjónin keyptu íbúðahúsið Rúst að hún hafi hringt í móður sína og sagt í símann: „Framtíðin er í Rúst“, mömmu hennar brá nú svolítið í fyrstu áður en hún áttaði sig á því hvað fólst í raun og veru í setningunni.  Já, orðaleikir eru skemmtilegir.

Sigmar Örn og María Björk starfa bæði hjá Loðnuvinnslunni og greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvort að þau teldu það vera gott eða slæmt fyrir þeirra samband að starfa á sama stað en þau kváðu það ekki vera vandamál.  Þau hittust í matar- og kaffitímum, en annars væru samskiptin lítil því þau gengdu sitthvoru starfinu og rækjust ekki oft saman í hita leiksins.  „Við hittumst í matar- og kaffitímum því Sigmar vill gjarnan sitja hjá stelpunum“ segir María hlæjandi og Sigmar mótmælir ekki en brosir bara hlýtt til konu sinnar.  Þau eru sammála um að það sé gott að vinna hjá LVF, vinnustaðurinn sé fullur af skemmtilegu og góðu fólki og þar sem að hluti af samstarfsfólki þeirra sé fólk af erlendu bergi brotið sé lífið á vinnustaðnum fjölþjóðlegt og fjölbreytilegt.  María er líka í stjórn Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar sem hefur staðið fyrir skemmtilegum ferðum starfsmanna til útlanda sem og innanlands ásamt annarri starfsemi.  Þau eru á einu máli um að það sé kostur að vinna innan bæjarmarkanna vegna barnanna.  Ef eitthvað kemur uppá eru foreldrarnir bara tvær mínútur að aka í skóla sona sinna. „Við erum alltaf nálæg og alltaf til taks“ segja þau sátt við tilveruna.

En þegar vinnu er lokið, hvað gera þau þá?  „Ég starfa í Björgunarsveitinni og líka í Slökkviliðinu“ segir Sigmar og María segir að hún hafi unun af því að teikna.  Þeim þykir líka gaman að ferðast en fyrst og fremst hjá þeim báðum er samvera með fjölskyldunni. „Ég er afar heimakær manneskja“ segir María, „ég veit fátt betra en að vera heima hjá mér með mínu fólki“. Og það er auðfundið sem gestur á heimili þeirra að þau eru á heimavelli.  Sigmar sér um að bjóða kaffið og fer vönum höndum um skápa og skúffur en María játar þó á sig að hún sé öllu fyrirferðameiri í eldhús- og heimilisstörfum þó svo að Sigmar sé vel liðtækur. „Mér finnst best að fá hann til að fara út með strákanna á meðan ég þríf heimilið“ segir þessi bjarteyga unga kona og hlær.

Hjá flestum á lífið líka sína skuggahlið.  Þannig er það líka hjá ungu hjónunum í Rúst.  Þau hafa gengið saman í gegnum sorgir og þrautir.  Fyrir nokkrum árum veiktist María alvarlega í tengslum við meðgöngu sem endaði illa, þá munaði litlu milli lífs og dauða.  Slík lífsreynsla setur mark sitt á fólk og í þeirra tilfelli birtist það í þakklæti fyrir lífið sem þau eiga og lífin sem þau hafa skapað.  Það er bæði fallegt og gott.  Og þau dreymir um að skapa fleiri líf en fyrir því eru ákveðin vandkvæði sem vonandi verða bráðum úr sögunni því að í hjörtum þeirra Sigmars og Maríu er pláss fyrir fleiri.

Seta greinarhöfundar við eldhúsborðið í Rúst hafði, sem betur fer,  lítil áhrif á heimilishaldið. Unglingurinn hélt sig í herberginu sínu rétt eins og unglinga er háttur og yngri drengurinn lék sér við hvolpinn Krumma.  Andrúmsloftið var afslappað og viðmótið hlýtt.  Og þegar greinarhöfundur gekk í myrkrinu aftur að bíl sínum þá var það sjórinn sem breiddi öldur sínar yfir steinana í fjörunni og bauð góða nótt.

BÓA