Fimmtudagskvöldið 7.september kom Hoffell að landi með 900 tonn af Makríl. Bergur Einarsson skipstjóri sagði þessa veiðiferð hafa verið góða. „Við fengum þennan afla í Síldarsmugunni en þangað eru um 350 sjómílur þannig að nokkuð langt var að sækja“ sagði Bergur. Sigling í Síldarsmuguna tekur um 30 klukkustundir en þegar þangað kom veiddist aflinn í þremur holum og tók aðeins um 20 klukkustundir að ná þessum 900 tonnum. „Segja má að þetta sé fullfermi“, sagði Bergur því við setjum 40% af sjó á móti í lestarnar til að kæla aflann“.  Að þessu sinni er fiskurinn nokkuð í meðallagi,  370 til 380 grömm að meðaltali.

En hvað skyldi áhöfin hafa fyrir stafni á 30 klukkustunda siglingu? „Menn þurfa að hvíla sig eftir að hafa vakað í sólarhring við veiðarnar, síðan taka við þrif og svo standa menn sínar vaktir“ svaraði skipstjórinn. „Svo reyna menn að hafa svolítið gaman rétt eins og á öðrum vinnustöðum“ bætti hann við.

Það tekur síðan um þrjá sólarhringa að landa aflanum því hann er unnin jafnóðum og hann kemur úr skipinu og vegna kælingarinnar og þess hve túrinn var stuttur er hráefnið með ferskasta móti.  Þetta er mikill afli fyrir vinnsluna í landi og þó svo að Hoffell gæti borið meiri afla er reynt að stilla því þannig að landvinnslan ráði við aflann sem kemur að landi hverju sinni.  Aflinn er unnin til manneldis.

Hoffell á tæplega 10 þúsund tonna kvóta í Makríl og eftir þennan túr hefur skipið komið með 4700 tonn að landi,auk 400 tonna úr grænlenskri landhelgi.  Eftir standa 4600 tonn þannig að einhverjir túrar eru eftir. Ekki svo ýkja margir ef áfram gengur sem horfir.

BÓA