Hannes og sonur hans Brynjar Auðunn

Í janúar s.l. var ráðinn til starfa hjá Loðnuvinnslunni nýr verkstjóri sem ber nafnið Hannes Auðunsson. Hann fluttist til Fáskrúðsfjarðar í byrjun árs ásamt konu sinni, Angeliku Ewu Filimonow og tveggja ára gömlum syni þeirra. Að auki á Hannes annan dreng sem er fimm ára og býr hann í Grindavík. Hingað fluttu þau hjónin frá Stykkishólmi.

Hannes er fæddur 22.júlí 1988 og er því 28 ára gamall. Faðir hans er íslenskur en móðir hans er frá Nýja Sjálandi.  Fyrstu þrjú ár ævi sinnar ólst Hannes upp á Djúpavogi en flutti þá með móður sinni til Nýja Sjálands og barnæsku sinni eyddi hann ýmist hjá föður sínum á Djúpavogi eða móður sinni á Nýja Sjálandi.  Árið 2006 kom hann síðan  til Íslands til að hefja menntaskólagöngu.

Hannes ól draum í brjósti sínu á yngri árum, hann dreymdi um að verða flugmaður og í þeim tilgangi að vinna sér inn peninga fyrir flugnámi, réð hann sig til starfa hjá Vísi á Djúpavogi. En þá gripu örlögin í taumana er hann kynntist konunni sinni sem hafði komið frá Póllandi til Djúpavogs að vinna.

Er undirrituð innti Hannes um ástæðu þess að hann og fjölskyldan komu til Fáskrúðsfjarðar sagði hann að umfjöllun sem birtist í blaði í fyrra, um tækninýjungar í Frystihúsinu hefðu fyrst vakið áhuga hans á Loðnuvinnslunni og síðan þegar auglýst var laust starf verkstjóra ákvað hann að sækja um og  „varð mjög sáttur þegar ég fékk það“ bætti hann við.  „Ég sá þetta sem tækifæri og konan mín var til í að flytja, og þrátt fyrir að ekki sé lengri tími liðinn síðan ég hóf störf, þá leggst þetta mjög vel í mig“ sagði Hannes  „það var afar vel tekið á móti okkur hér, hvort heldur  í vinnu, leikskóla drengsins eða út í samfélaginu, kannski verð ég bara gamall hér“ sagði þessi ungi verkstjóri að lokum og kvaddi með bros á vör.

BÓA