Þó að Ljósafell sé meira en 30 ára gamalt ber skipið aldurinn vel. Togarinn er eins og mjólkurpóstur fyrir frystihúsið og er alltaf til löndunar á mánudagsmorgnum og hefur svo verið alla tíð síðan systurskipið Hoffell var selt 1996. Ýmislegt er búið að gera skipinu til góða t.d. fór skipið til Póllands 1988 og kom heim eins og nýtt veturinn 1989. Ennþá er verið að flikka upp á Ljósafellið og á síðasta ári var settur á skipið veltitankur eða réttar sagt andveltitankur og setur hann töluverðan svip á skipið, þar sem hann kemur áfastur framan við stýrihúsið og myndar göngubrú fyrir framan það.

Áhöfnin lætur mjög vel að þessari viðbót og segja mikið betra að vinna á skipinu eftir þetta. Veltitankurinn var smíðaður af vélaverkstæði LVF og stjórnun gerð af rafdeild LVF., en teikningar og hönnun var unnin af Ráðgarði-skiparáðgjöf í Reykjavík.