Hagnaður LVF 129 milljónir króna.



Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði árið 2003 nam kr. 129 millj. eftir skatta, en árið 2002 var hagnaður LVF kr. 295 millj. Í samanburði á afkomunni á milli ára munar mest um að fjármagnsliðir eru nú kr. 135 millj. óhagstæðari en árið á undan, en þá voru fjármagnsliðir jákvæðir um kr. 118 millj. Þá hefur styrking íslensku krónunnar einnig mikil áhrif á útkomuna, þar sem mun færri krónur fást fyrir afurðirnar.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru tæpir kr. 2,7 milljarðar og höfðu aukist um 17% frá árinu áður. Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (EBITDA) varð kr. 452 millj. eða 17% af tekjum og lækkaði um kr. 28 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam kr. 378 millj. sem er 14% af tekjum, en árið 2002 var fjármunamyndunin kr. 423 millj. eða 18%. Afskriftir voru kr. 267 millj. og höfðu lækkað um kr. 17 millj.

Eigið fé félagsins var í árslok kr. 1.470 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Eigið fé hækkaði um kr. 128 millj. á milli ára eða um 10%. Arðsemi eigin fjár var 8,8%.

Nettó skuldir LVF voru í árslok kr. 946 millj. og höfðu lækkað um kr. 284 millj. frá árinu á undan. Fjárfestingar félagsins árið 2003 voru kr. 74 millj.

Á launaskrá LVF komu 305 manns á síðasta ári, en að jafnaði vinna hjá félaginu um 170 manns.

Hluthafar í árslok voru 226. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er stærsti hluthafinn með um 84% hlutafjárins.

Sjá uppgjör undir ársskýrslur.