Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er 70 ára í dag. Það var stofnað 6. ágúst 1933 á Fáskrúðsfirði. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur um dagana rekið umfangsmikla atvinnustarfsemi á Fáskrúðsfirði svo sem verslun, sláturhús og sölu landbúnaðarvara, fiskvinnslu, útgerð, fiskimjölsverksmiðju, vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði, trésmíðaverkstæði, umboð fyrir Olíufélagið h/f frá stofnun þess 1946 og umboð fyrir Samvinnutryggingar g/t fyrr á árum. Þá rak félagið um árabil Gistihúsið Valhöll, þar sem einnig var veitingarekstur. Frá 1. janúar 2002 hefur Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga verið rekið sem eignarhaldsfélag og er aðal eign þess 83,89% hlutafjár í Loðnuvinnslunni h/f á Fáskrúðsfirði, en til þess félags voru rekstrareiningar Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga fluttar. Um s.l. áramót voru félagsmenn í Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga 191 talsins. Afmælisins verður minnst laugardaginn 27. september n.k. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga ber aldurinn vel, en hagnaður þess fyrstu 6 mánuði ársins var kr. 40 millj. og eigið fé þess kr. 838 millj. sem er 92% af niðurstöðu efnahagsreiknings.