Hinn 31. maí 2003 voru liðin 30 ár frá því að b/v. Ljósafell SU 70 kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði. Af því tilefni bauð stjórn Lonuvinnslunnar hf áhöfn Ljósafells og mökum, ásamt nokkrum fleiri gestum alls um 50 manns, til samsætis að Hótel Bjargi föstudagskvöldið 30. maí. Nokkur ávörp voru flutt og sagði Hjalti Kristjánsson fyrsti matsveinn á Ljósafelli ferðasögu þeirra sem lögðu upp frá Fáskrúðsfirði 27. mars 1973 áleiðis til Japans að sækja Ljósafell. Skipið lagði af stað frá Japan 8. apríl og kom til Fáskrúðsfjarðar 31. maí. Á þessu 30 ára tímabili hefur Ljósafell verið hið mesta happafley, aflað 105 þús. tonn af bolfiski, sem á verðlagi dagsins í dag gæti numið um 10 milljörðum króna í aflaverðmæti. Það er því ljóst að ekkert skip sem gert hefur verið út frá Fáskrúðsfirði hefur skapað jafn mikil verðmæti og orðið þessu litla samfélagi til eins mikilla heilla og Ljósafell. Skipstjórar hafa verið þrír. Guðmundur Ísleifur Gíslason 1973-1980, Albert Stefánsson 1981-1994 og Ólafur Gunnarsson frá 1995. Þeir sem sigldu með skipinu heim frá Japan voru: Guðmundur Ísleifur Gíslason skipstjóri, Pétur Jóhannsson 1. stýrimaður, Haraldur Benediktsson 2. stýrimaður, Gunnar Ingvarsson 1. vélstjóri, Rafn Valgeirsson 2. vélstjóri, Hjalti Kristjánsson matsveinn, Gunnar Geirsson háseti og Jón Erlingur Guðmundsson útgerðarstjóri.